11.11.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

Þingvíti

Bjarni Ásgeirsson:

Það er bókað, að ýmsir þm. hafi verið fjarverandi, þegar sá fundur var haldinn, sem fundargerðin fjallar um, sem nú liggur fyrir, og er þess getið um mig og fleiri, að við hefðum verið fjarverandi í heimildarleysi, og er mér sagt, að við höfum verið víttir fyrir þetta.

Það er náttúrlega mjög röggsamlegt að bóka, hverjir séu fjarverandi, og hefi ég ekkert út á það að setja, út af fyrir sig. En það lágu til nokkuð sérstakar ástæður í þetta skipti fyrir því, að við nokkrir þm. vorum fjarverandi, og vil ég nú gefa skýringu á því. Þannig er mál með vexti, að til fundar hafði verið boðað þennan dag í Fornahvammi í Mýrasýslu, og var það einskonar fulltrúafundur fyrir þau svæði, sem fjárpestin borgfirzka hefir nú geisað á um nokkurt skeið, og var þess óskað, að viðkomandi þm. sæktu þennan fund. Við fengum allir fjarvistarleyfi forseta Ed. og Nd., því að okkur var ekki kunnugt um, að haldinn yrði fundur í Sþ. þennan dag. Það var ekki komin fram dagskrá, þegar við fórum, og þetta hefir alveg farið framhjá okkur, þó að þess hafi verið getið. Af þessum ástæðum sóttum við ekki um leyfi forseta Sþ. til þessarar farar. En ég hygg, að við hefðum átt að geta litið svo á, þegar við vorum búnir að fá leyfi deildarforseta, að þeir mundu geta þess, að við hefðum brottfararleyfi frá þeim, þannig að við yrðum ekki stimplaðir sem einskonar óskilakindur á þingi fyrir þetta ferðalag.

Ég óska, að þetta verði bókað við samning þessarar fundargerðar, og ég vil í framhaldi af því, sem ég nú hefi sagt, geta þess, hverjir þessir þm. voru, sem fyrir þessar sakir voru fjarverandi: Þm. Borgf. (PO), þm. Mýr. (BÁ), þm. Dal. (ÞBr), þm. V.-Húnv. (SkG), þm. A- Húnv. (JPálm), 1. þm. N.-M. (P,Z), 2. þm. Skagf. (StgrSt) og 6. landsk. (ÞÞ).