27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (1752)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Finnur Jónsson:

Ég sé enga ástæðu til þess að draga nöfn utanþingsmanna inn í deilur þessar, eins og hv. þm. G.-K. gerði, og það ekki, þó að þeir sömu menn hafi gert sig hlægilega með því að þykjast geta selt síld fyrir hvaða verð sem er, og jafnvel meira, eins og þar stendur.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. G.-K. sagði um það, hve mikið Samvinnufélag Ísfirðinga gæti greitt af óveðtryggðum skuldum sínum, skal ég aðeins láta þess getið, að ég mun ekki metast við þennan hv. þm. um það mál. Til þess er ekki kominn tími enn. Það veit enginn, hvað mikið verður til upp í óveðtryggðar skuldir Kveldúlfs, þegar hann verður gerður upp. Og enginn er kominn til með að segja, hve mikið er orðið ónýtt af veðskuldum Kveldúlfs. En ganga má að því vísu, að mikill hluti af veðunum sé nú þegar orðinn bráðónýtur. Því verður ekki mótmælt, að aðalástæðan til þess, að ekki er búið að gera Kveldúlf upp fyrir löngu, er sú, að menn hafa ekki þorað að hreyfa við þessu bíflugnabúi vegna þjóðbankans.

Um síldarútvegsn. vil ég segja, að sjálfstæðismönnum væri sæmra að leita umsagnar þess fulltrúa, er þeir eiga sjálfir, þingkjörinn í nefndinni, áður en þeir hefja heiftúðuga árás á n. En þeir hafa haft þveröfuga aðferð. Fyrst er herferðin hafin, síðan er þessi fulltrúi sjálfstæðismanna í n. kvaddur hingað suður til þess að gefa upplýsingar. Og það er fyrst eftir að búið er að bera á þennan fulltrúa ærulausar skammir í blöðum Sjálfstæðisfl., að hann er kallaður til Rvíkur til að standa fyrir máli sínu. Þessi framkoma sjálfstæðismanna gegn hinum þingkjörna fulltrúa sínum í síldarútvegsnefnd er sjálfsagt einsdæmi, en Sjálfstfl. samboðin.