19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (1813)

11. mál, greiðsla verkkaups

Flm. (Ísleifur Högnason):

Herra forseti! Lög þau, sem gilda nú um greiðslu verkkaups, eiga rót sína að rekja til frv., sem samþ. var á Alþingi 1899 og lagt var fram af Jens Pálssyni, þm. Dal. Í meðferð þingsins á málinu var það mjög lemstrað. Ákvæði í frv., sem mælti svo fyrir, að kaup skuli skilyrðislaust og án undantekningar greitt í peningum, var umhverft, og í þess stað kom inn ákvæði, þar sem margt er tiltekið um það, að semja mætti um það, hvernig kaupgreiðsluskyldunni skuli háttað. Orðrétt niðurlag fyrstu málsgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að greiða þessum mönnum (þ. e. daglaunamönnum) verkkaup með skuldajöfnuði eða öðru en peningum, og eru allir samningar ógildir, sem þessu eru gagnstæðir.“ Ennfremur var í frv., 3. málsgr., ákvæði um refsingu, et út af var brugðið. Þetta frv., svona lemstrað7 var þó samþ. á þinginu, en þegar til stjórnarinnar kom, þá synjaði hún um staðfestingu á frv., og varð það því ekki að lögum.

Árið 1901 bar Skúli Thoroddsen frv. fram af nýju í sama formi og Jens Pálsson 1899. Í ræðum, sem hann flutti um frv., rökstuddi hann nauðsyn þess, að það nái fram að ganga. Kemur hann þar að ýmsum atriðum, sem ég ætla að leyfa mér að vitna til nú, vegna þess að þau hafa gildi fyrir þetta mál enn þann dag í dag, með því að það hefir færzt mjög í aukana, að atvinnurekendur, og sérstaklega verzlanir úti á landi, noti sér þetta ákvæði laganna, undanþáguna um að geta greitt með vörum og skuldajöfnuði, að við slíkt verður ekki lengur unað. Skúli Thoroddsen minnist á það í framsöguræðu sinni með frv. 1901, að frv. hafi verið mjög ófullkomið eins og það var afgr. af þinginu 1899. Höfuðgallann áleit hann hafa verið þá breyt., að þessi kaupgreiðsluskylda gilti aðeins, ef ekki væri öðruvísi um samið. Ennfremur segir Skúli Thoroddsen í sambandi við það, að andstæðingar frv. héldu fram, að það gengi of nærri samningsfrelsi manna, með leyfi hæstv. forseta:

Háttv. sami þingmaður kom enn með hina gömlu mótbáru sína gegn málinu, að hér væri gengið of nærri samningsfrelsi manna. En þess er að gæta, að það er naumast um samningsfrelsi að ræða, þar sem svo ólíkt er á komið með málspörtum, að annarsvegar eru atvinnuþurfandi fátæklingar, en hinsvegar auðugir atvinnurekendur. Þar komast ekki að frjálsir samningar, heldur nauðungarsamningar, verkamaðurinn verður að sætta sig við það, sem honum er boðið.“

Þessi partur úr ræðu Skúla Thoroddsens hefir enn í dag sama gildi. Að vísu má segja, að til séu samtök verkamanna, sem ekki voru til þá. En hvað einstökum verkamönnum viðkemur, þá er það þannig, að þeir hafa ekki sömu réttarstöðu í þjóðfélaginu, verkamennirnir og atvinnurekendurnir. Þó að þeir hafi það að lögum, þá er það ekki í veruleikanum. Sömu réttindin hafa hér vitanlega ríkir og fátækir til þess að liggja undir brúm og á götu úti á nóttunni. En þegar verkamaðurinn er atvinnuþurfi með sína fjölskyldu, þá er það hann, sem verður að beygja sig, undir atvinnurekandann. Þetta gildir enn í dag, og það mælir með því, að hv. Alþingi afnemi úr lögum ákvæðið, sem ég fer fram á, að numið verði burt.

Hvaða afstöðu bændur hefðu til þessa máls, tók Skúli einnig fyrir í ræðu sinni með frv. 1901. Hann segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það væri full ástæða til þess, að bændur ættu öðrum fremur að vera máli þessu hlynntir, því ekki svo litið af peningum, sem verkamennirnir fengju, mundi ganga til þeirra fyrir ýmiskonar landvöru, og þannig dálítið greiðast úr peningaskorti þeirra.“

Enn í dag er það þannig, að verzlanir, sem greiða kaupgjald í vörum eða með ávísunum á vörur — einmitt þessar verzlanir, sem oft og tíðum eru okurverzlanir — þær verzla ekki með landsafurðir bænda. Og er það af þeirri ástæðu, að álagið má ekki vera hærra en 15%, og kjósa þær því heldur að greiða með vörum, sem meira er lagt á. Ég veit um verzlanir í Vestmannaeyjum, sem greiða þannig kaupgjald í vörum, að þær hafa ekki þessar innlendu vörur á boðstólum. Og það er enginn vafi á því, að eftir því sem minna er af peningum milli handa verkamannsins, því minna neytir hann kjöts og annara landafurða. Þess vegna vænti ég þess, að þeir, sem telja sig sérstaklega fulltrúa bændastéttarinnar á þingi, verði með því að nema úr lögum ákvæðið frá 1901, að atvinnurekendur geti skotið sér undan að greiða kaup í peningum.

Enn má geta þess, að á þinginu 1927, þegar Alþfl. flutti viðauka við þessi lög um greiðslu kaupgjalds, þá var till. þeirra í því fólgin að fá vikulega kaupgreiðslu í peningum. En andstæðingarnir fengu þá fellt inn í lögin viðskeyti, sem hafði samskonar hljóðan og þetta, sem ég fer fram á að fella burt. Jón Baldvinsson, núv. forseti sameinaðs þings, sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég verð að segja það, að mér þykir hv. allshn. ætla sér að breyta frv. til hins lakara, því að í brtt. sinni hefir hún sett inn eina setningu, er verða má til þess, að lítið gagn verði að frv., og er það niðurlagssetningin þessi: „nema öðruvísi sé um samið“.

Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta atriði, en óska þess, að málinu sé vísað til allshn. og 2. umr.