26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Þeir hafa tekið mjög svipað í þetta mál, hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. Árn., og þó get ég sagt, að hv. þm. Snæf. hefir tekið betur í það, því að í öllum aðalatriðum hefir hann sagzt fella sig við þessa lausn, þó að hann að sjálfsögðu færi ekki inn á einstök atriði í málinu, og kann ég honum þakkir fyrir.

Ég held það sé ekki rétt, að hægt sé að segja, að þessi hugmynd sé komin frá Þýzkalandi, frá sjálfboðavinnu þeirri, sem er hjá nazistum. Sjálfboðavinna og þegnskylduvinna meðal ungs fólks hefir verið vakandi hugmynd um langan aldur, meðal annars hér á landi, en hér var gert ráð fyrir skyldu. Og fyrir stríð var slíkri vinnu sumstaðar komið á. Í Þýzkalandi er þannig frábrugðið, að vinnan er að forminu til sjálfboðavinna, en í raun og veru skylda og framkvæmd þannig, að í raun og veru er þrælahald fyrir yfirstéttirnar í landinu. Stórbændunum eru sendir stórhópar ungra manna til þess að vinna fyrir þá án þess að fá nokkuð fyrir. Og ef þeir vilja ekki fara, þá eru þeir sama sem útlagar úr landinu. Og að bera þetta saman við þá hugmynd, sem hér er um að ræða, það nær náttúrlega ekki nokkurri átt.

Þá gat hv. þm. Snæf. um það, að við hefðum ekki talað um neina skatta í þessu sambandi. Það segir sig sjálft, þar sem við erum annar stjórnarflokkurinn, að við munum á sínum tíma — ef þetta helzt allt saman — gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að láta fjárlögin standast og þar með þann kostnað, sem samþykktur er af okkur. Svo að það þarf enginn að óttast um það, að við munum ekki vera með því að gefa nauðsynlega heimild til að afla fjár í þessu skyni, sem við álitum nauðsynlegt.

En jafnvel þó að þeim málum skipist á annan hátt, þá erum við fúsir til að hafa fullt samkomulag um auknar tekjur í ríkissjóð eða sparnað á öðrum sviðum sem þessu svarar.

Hv. þm. Snæf. talaði um, að þetta væri eingöngu sumaratvinna. Það er rétt. En við gerum ráð fyrir, að á veturna yrði haldið áfram með annari löggjöf, og einnig haust og vor; en þá yrði meir leitað til bæjanna til að standast kostnað við það.

Ég get ekki almennilega skilið, hvað hv. þm. átti við, þegar hann sagði, að hægt væri að láta þessa vinnu fara þannig fram, að ríkissjóður fengi meira í aðra hönd, og gat hann þar um vegagerðir, en þó eiga þessar atvinnuframkvæmdir ekki að verða í vegi fyrir atvinnuþörf annara, nauðsynlegri atvinnu, sem ríkissjóður yrði að láta framkvæma. Hvernig er hægt að framkvæma það, að ríkissjóður fái meira í aðra hönd en gert er ráð fyrir í frv., ef unnin eru verk, sem annars yrðu ekki unnin? Þetta er þess vegna það sama og í frv., því að fara inn á almennar vegagerðir fylgir sú hætta, að lagt er inn á svið þeirra, sem nú hafa þá vinnu. En vegavinnumenn eru nú bæði úr kaupstöðum og sveitum. Því að eins og sakir standa er mikill hluti allra vegavinnumanna úr sveit, enda er mjög mikla atvinnubótavinnu fyrir sveitirnar að hafa í vegagerð.

Þá er að víkja að kostnaðinum við þetta frv. Ég hefi nú fengið það bréf frá vegamálastjóra, sem ég hefi beðið eftir, og mun láta það fylgja til n. Þar er gerð grein fyrir ýmsum kostnaðarliðum.

Ég vil þá snúa mér að hv. 2. þm. Árn. Mér finnst alleinkennilegur hans hugsunarháttur um það, hvaða hlutverk þm. hafa, ef þeir ekki mega flytja mál hér á Alþ., sem pólitísk togstreita geti orðið um. Nú er þetta mál ekki lagt þannig fyrir á neinn hátt, að vegna þess þurfi að verða pólitísk togstreita, en það getur vitanlega af ýmsum ástæðum farið svo, að það verði það, og er þá ekkert við því að gera.

Það er algerlega rangt hjá þessum hv. þm., að við flm. höfum alls ekki fylgzt með því, hvað n. hefir gert í þessum málum. Það er að vísu rétt, að við höfum ekki talað við þann mann, sem hv. þm. vitnaði i, en okkur er ákaflega vel kunnugt um hans starf í n. En ég skal geta þess, að sjálfstæðismenn hafa aldrei frá upphafi mætt í n., svo að sá mikli áhugi, sem er fyrir því að leysa atvinnuleysi unglinga, hefir a. m. k. ekki komið frá fulltrúum sjálfstæðismanna í n. Hinir fulltrúarnir hafa rannsakað málið á breiðum grundvelli, gert athuganir um atvinnuleysi og þess háttar, en það vil ég fullyrða, að þeir hafa ekki talað um málið á þeim grundvelli, sem í þessu frv. felst, og er það ástæðan til þess, að við flytjum þetta frv.

Ég get þess vegna alls ekki skilið, hvers vegna hv. 2. þm. Árn. er svo ergilegur yfir því, að við skulum flytja þetta frv., sem þó undir öllum kringumstæðum verður til þess að setja málið á breiðari grundvöll og nær til margfalt fleiri manna heldur en þau frv., sem áður hafa komið fram um þetta efni, því að þetta frv. á að geta snert hvern einasta ungan mann í landinn. Ég vænti því, að hv. 2. þm. Árn. sjái að sér, þegar til n. kemur, og verði með afgreiðslu þessa máls, ekki „á einhvern hátt“ eins og hann sagði, heldur á svipuðum grundvelli og það hér liggur fyrir.

Það er alveg óþarfi fyrir hv. 2. þm. Árn. að vera að snúa út úr frv. á þann hátt að tala um, að í 12. lið 4. gr. standi „í óþurrkum“, eins og hann komst að orði, þar sem stendur „vegna óþurrka“. Hann kann ekki meir til heyskaparverka heldur en við flm.; við höfum ábyggilega unnið eins mikið að slíkum störfum og hann. (BjB: Ég þori að bjóða ykkur út, þó að þið kæmuð báðir saman!). Ég hygg, að s. l. sumar, þegar menn voru í vandræðum með hey sín, þá hefði a. m. k. mörgum smábóndanum þótt þægilegt, ef komið hefði vinnuflokkur til þess að hjálpa honum við að þurrka heyin, þá sjaldan sólskinsdagar komu. Ég veit, að félagsskapur, sem þessi hv. þm. tilheyrði einn sinni, gerði þetta í sumum sveitum landsins á sínum tíma, þ. e. a. s. ungmennafélögin, — og hví skyldi ekki mega nota þessa hugmynd, ef um slíkan sumarvinnuskóla væri að ræða?