26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (1891)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér skildist það á hæstv. fjmrh., að hann teldi, að ef frv. þetta yrði samþ., þá væri hætt við, að unglingarnir drægjust frá framleiðslustörfunum. Ég held, að þetta sé misskoðað. Kaupgjaldið, sem gert er ráð fyrir, kr. 1.50 á dag, er ekki svo hátt, að ástæða sé til þess að ætla, að þeir, sem völ eiga á annari atvinnu við framleiðslustörfin, hverfi frá þeim og leiti í þess stað í sumarvinnuskólann.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að ennþá liggja ekki fyrir neinar skýrslur um atvinnuleysi unglinga á þeim aldri, sem frv. nær yfir, og ekki heldur frá vinnumiðlunarskrifstofunni um það, hversu margir hafa leitað atvinnu án þess að fá hana á þessum tíma árs. En þó að svo sé ekki, þá er það vitað, að einmitt hjá unglingum á þessum aldri er atvinnuleysið mest, vegna þess að þar, sem um atvinnubóta- og opinbera vinnu er að ræða, mun þeirri reglu yfirleitt hafa verið fylgt að halda vinnunni til þeirra, sem hafa fyrir öðrum að sjá, og leiðir af því, að unglingarnir hafa orðið að sitja á hakanum.

Hæstv. fjmrh. gat réttilega um það, að ríkisstj. hefði heitið Lúðvík Guðmundssyni styrk til þess að kynna sér þessi mál í nærliggjandi löndum, og skildist mér helzt á honum, að hann teldi rétt að slá öllum aðgerðum á frest í þessum efnum þangað til hann hefði skilað sínu áliti. Þetta yrði til þess, að engar ráðstafanir yrðu gerðar, sem til framkvæmda gætu komið á næsta sumri. Ég býst ekki við því, að Lúðvík Guðmundsson geti farið utan fyrr en undir áramót, og gerir hann ráð fyrir að vera úti til vors, og er þá orðið of seint að gera ráðstafanir fyrir næsta sumar.

Hv. þm. Borgf. taldi mjög varhugavert ákvæði frv. um forgangsrétt þeirra unglinga til vinnu, sem á þennan skóla hefðu gengið. Mér skildist hann lita svo á, að sá forgangsréttur næði til allra opinberra starfa. Ég hefi ekki skilið frv. svo, en það kemur að sjálfsögðu greinilega fram við nánari meðferð málsins. Ég skal játa, að ef um er að ræða nokkuð takmarkaðan fjölda unglinga, sem þetta vinnunám stunda, þá geti þetta verið athugavert. En þetta verður að sjálfsögðu athugað af þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar.