15.11.1937
Neðri deild: 27. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (1924)

64. mál, menntun kennara

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Í grg. þeirri, sem vísað til til í grg. þessa frv., er það ekki falið í tölum, hvaða kostnað mundi leiða af því að samþ. þetta frv. En það er skýrt frá því, að kennaraskólinn mundi aukast um eina deild. Og með því að byggja á núv. kostnaði við kennaraskólann, mun mega gera ráð fyrir, að sú aukning mundi kosta um 8000 kr. á ári. Þetta ákvæði, um að bæta við þessari deild, kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en á fjórða ári frá því. er l. ganga í gildi, því að þangað til að því ári kemur er skólinn aðeins starfandi í þremur deildum.

Annar aðalkostnaður, sem af þessu frv. leiðir, ef að l. verður, stafar frá kennarafjölgun við háskólann. En í frv. er gert ráð fyrir, að fjölga þurfi kennurunum þar um tvo, því að einn kennarinn, sem getið er um í frv., mun verða sá kennari í sálarfræði og forspjallsvísindum, sem nú starfar við háskólann. Nú geri ég ráð fyrir, að þó að þessi uppeldisfræðikennsla verði ekki flutt til háskólans, muni samt einhverntíma á næstunni verða bætt við prófessor í uppeldisfræði við háskólann, þannig að um það má deila, hvort kostnaður, sem af þessum l. mundi leiða, mundi nema einum prófessor eða tveimur við háskólann. En þessi breyt. kemur heldur ekki til framkvæmda fyrr en eftir 4 ár frá því er l. þessi hafa verið samþ. Kennarafjölgun þessi við háskólann mundi, ef l. þessi gengju í gildi nú í haust, ekki koma til framkvæmda fyrr en árið 1941 eða 1912. Auk þess mundi náttúrlega nokkurn kostnað leiða af sérgreinakennslu við háskólann fyrir unglingaskólakennara. En þann kostnað er ekki hægt að áætla nákvæmlega, enda geri ég ekki ráð fyrir, að það mundi nema neinum stórum upphæðum.

Þá vildi ég í þriðja lagi nefna þann kostnað, sem af þessum l. mundi leiða, en það yrði nokkuð aukinn námsstyrkur og húsaleigustyrkur til þeirra manna, sem búa sig undir að verða kennarar.

Þessir þrír eru aðalliðir þess aukna kostnaðar af hálfu þess opinbera, sem þetta frv. hefir í för með sér, ef það verður samþ. Í fyrsta lagi viðbótin við kennaraskólann. Í öðru lagi tveir prófessorar við háskólann og nokkur aukning við háskólann við það, sem nú er. Og í þriðja lagi aukning á styrkjum til þeirra manna, sem stunda kennaranám.

Ég skal ekki frekar en í frv. er gert telja þetta saman í tölum, enda er nokkuð langt þangað til þetta kemur til framkvæmda, og a. m. k. þrjú ár þangað til nokkur kostnaður af þessum l. kemur til greina.