09.11.1937
Neðri deild: 23. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

71. mál, aðför

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti! Það, sem um er að ræða í þessu frv. til l., er að gera hið opinbera ekki rétthærra en einstaklinga, þegar krefja á menn um skuldir. Eins og kunnugt er, þá er löggjöfin um aðför þannig, að ef aðför er gerð vegna skuldar við einstaklinga, þá má undanskilja 500 króna virði eða allskonar verðmæti, svo sem föt, húsgögn og önnur verðmæti. Hinsvegar gildir þessi réttur ekki. þegar er að ræða um aðför vegna skatta og skyldna til þess opinbera. Þú hlýtur manni að finnast það óviðkunnanlegt, að hið opinbera gangi harðar eftir sköttum og skyldum hjá þeim fátækustu en einstakir skuldaeigendur, og það virðist þess vegna vera réttmætt, að þessu ákvæði sé sleppt.

Við skulum athuga, hverjir eiga í hlut, þegar um þetta er að ræða. Það er óhugsandi að nota þetta ákvæði nema í sambandi við þá allra fátækustu í þjóðfélaginu, þegar um er að ræða að innheimta skatta og útsvör hjá þeim. Þeir fátækustu eiga ekki annað en föt, rúmstæði og hin nauðsynlegustu húsgögn. En þess eru dæmi, að hið opinbera, sérstaklega í bæjum, gangi það harðvituglega eftir útsvörum, að það hafi tekið slíka muni af mönnum. Nú er það vitanlegt, að slíkir munir verða því opinbera oft og tíðum ekki til neins gagns. Það er venjulega svo með slíkar eignir fátæklinga, þegar þær eru teknar upp í útsvör, að þær eru geymdar þar, sem þær fúna niður, og verða svo óseljanlegar á uppboði eða seljast fyrir svo að segja ekki neitt. Með því að halda þessu ákvæði er því verið að vinna tjón hinum fátækustu, án þess að hið opinbera hafi nokkurt gagn af því. Það er því ekkert vit í að halda þessu ákvæði, og því hefi ég flutt þetta frv. til l. um breyt. á þessu, sem ég vona, að finni náð fyrir augum þingsins. Ég vona, að menn kæri sig ekki um að halda ákvæði, sem ríkið hefir ekkert gagn af, en fátækir þegnar þjóðfélagsins hafa tjón af, því þetta eru aðeins leifar gamla tímans.

Ég vona, að ég þurfi ekki lengri framsögu viðvíkjandi þessu máli. Það kann að vera, að það þurfi meiri orðabreyt. í síðari málsgr., en ég vona, að sú n., sem fær frv. til athugunar, athugi það. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.