10.11.1937
Neðri deild: 24. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (1963)

78. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég vissi því miður ekki fyrr en nú, að mál þetta væri til umr. í dag; verða því ýmsar upplýsingar, sem ég vildi gefa hv. þd., að bíða næstu umr.

Samkv. frv. þessu er gert ráð fyrir að fella niður 1. gr. laga frá 9. jan. 1935 um síldarverksmiðjur ríkisins. Hvað þessa lagabreyt. snertir, þá hygg ég, að það þurfi vel að athuga ýmislegt í sambandi við hana, áður en að henni verður horfið.

Eins og nú standa sakir, þá munu afköst síldarverksmiðjanna vera frá 25–27 þús. mál á sólarhring, og nú liggja fyrir beiðnir um byggingu verksmiðja, sem mundu koma til með að afkasta álíka miklu, ef þær yrðu byggðar. Afköst verksmiðjanna næsta ár myndu því verða um 50 þús. mál á sólarhring, ef þær verksmiðjur yrðu byggðar, sem sótt hefir verið um leyfi til að byggja. Annars má að sjálfsögðu gera ráð fyrir, að þó að hin umbeðnu leyfi yrðu öll veitt, þá yrðu ekki allar verksmiðjurnar byggðar; suma umsækjendanna myndi án efa skorta fé til þess að koma verksmiðjunum upp. Hvað snertir byggingu þessara nýju verksmiðja, þá teldi ég mjög varhugavert, að svo stórt spor yrði stigið, að byggja jafnmargar verksmiðjur og sóti hefir verið um leyfi til þess að byggja. Reynslan frá síðastl. sumri mun vera sú, að nokkrar tafir hafi orðið fyrir veiðiskipin sakir þess, hve seint gekk með löndunina, þegar mest barst að, og get ég verið sammála hv. flm. um það, að vegna þessara tafa hafi tapazt nokkurt verðmæti, sem ekki er hægt að gizka á, hversu mikið hafi verið. En þrátt fyrir þennan annmarka tel ég ekki hyggilegt að auka afköst verksmiðjanna um helming frá því, sem nú er. Af því myndi óhjákvæmilega leiða það, að sumar verksmiðjurnar myndu standa auðar, eða verða lítið notaðar um lengri eða skemmri tíma. Aftur á móti er ég sammála hv. flm. um það, að auka þurfi nokkuð afköst verksmiðjanna, en sú aukning verður að mínum dómi að miðast við það, sem reynslan bendir til um að sé skynsamlegt.

Þá vildi hv. flm. halda því fram, að ef síldarverksmiðjunum yrði fjölgað, þá myndu fleiri skip stunda síldveiði en nú. Þetta held ég, að sé vafasöm fullyrðing, því að síðastl. síldarvertíð stunduðu flest veiðiskip okkar síldveiði; það munu aðeins hafa verið 2–3 togarar, sem stunduðu aðra veiði. Það kann að vera, að sumir haldi því fram, að það geri ekkert til, þó að íslenzku skipin geti ekki aflað nægilega mikið fyrir verksmiðjurnar til þess að vinna úr; það megi alltaf kaupa til viðbótar af erlendum skipum. En slíkt teldi ég ekki heppilegt.

Ég mun svo fyrir 2. umr. þessa máls athuga, hvaða áhrif það kynni að hafa til þess að auka afköst hinnar einu norsku síldarverksmiðju, sem hér er, ef horfið yrði að því að leyfa skilyrðislaust stækkun verksmiðjanna.