09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2084)

132. mál, vitabyggingar

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Hv. 7. landsk. þm. og núverandi vitamálastjóri sagði, að vita bygging á Þormóðsskeri væri í undirbúningi og þyrfti því ekki að blanda því máli inn í þetta frv. Ég get þó ekki séð, að brtt. um þetta geti skaðað frv., þótt samþ. yrði. Það var ekki rétt, sem hann hafði eftir mér, að þess væri ekki að vænta, að vitamálaskrifstofan skipti sér af breytingum á kerfinn. Ég sagði, að þess væri ekki að vænta, að hún gerði það nema eftir upplýsingum frá öðrum. En sá, er hefir sjómælingarnar á hendi, forstöðumaður stýrimannaskólans, er aðili þessa máls samkv. grg. frv. Ég tók það fram, að ég væri því samþykkur, að Fiskifélagið yrði áfram ráðunautur skrifstofunnar, en vildi jafnframt koma að þeim aðilja, sem mesta þekkingu hefir í þessum efnum. Það er því misskilningur, að ég hafi viljað bola Fiskifélaginu út. Ég vil bæta því við, að ég býst við, að þekking Fiskifélagsins á þessum málum komi aðallega frá félagsdeildunum, því að ekki er víst, og tæplega til þess ætlandi, að formaður félagsins sé fær um það upp á eigin spýtur að gefa skrifstofunni upplýsingar. En áhugi félagsdeildanna er bundinn við innsiglingarvitana eða vitana á því svæði, sem þær ná yfir, og því má vænta þaðan kunnugleika á málum þeim.

Ég geri engan veginn lítið úr leiðbeiningum skipstjóra vitaskipsins, en ég tel óvíst, hve lengi það skip verður haft í rekstri, og a. m. k. munn margir þeir, sem eitthvað hafa hnýst í útgerð ríkis og vitamálastjórnar, vera í vafa um, hvort borgi sig að hafa sérstakt skip í þessum tilgangi. Gæti vel hugsazt, að strandferðaskipin og varðskipin gætu komið í staðinn. Að vísu skal ég ekkert fullyrða um þetta, en búast má við því, að hér verði breyting á gerð.