30.10.1937
Efri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2148)

58. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Þetta er einfalt mál, og þarf ég því lítið um það að segja fram yfir það, sem í grg. stendur. Frv. fer fram á þá breyt. á 8. gr. laganna, að ríkissjóður greiði það, sem á vantar fulla greiðslu kostnaðar, ef styrkþegi er þess rigi umkominn, í stað framfærslusveitar. Ég vil geta þess um leið, að prentvilla er í grg., ¼ í stað 1/5.

Þessi breyt. er nauðsynleg bæði vegna bæjar- og sveitarfélaga og sjúklinganna sjálfra. Margir sjúklingar líta á þetta sem sveitarstyrk, enda þótt ákveðið sé í lögum, að hann skuli ekki teljast það, og mörgum þeirra, sérstaklega berklasjúklingum, fellur svo þungt að þiggja hann, að dæmi eru til þess, að menn hafa neitað að fara á hæli af þeim ástæðum. Slíkt getur haft mjög spillandi áhrif á heilsu þeirra, enda hafa komið fram kröfur frá sjúklingum um þessa breytingu.

Auk þessa er almennt viðurkennt, að nauðsynlegt sé að hlaupa undir bagga með fátækum sveitarfélögum, og þar sem þetta tvennt fer saman, ætti að mega vænta þess, að málið ætti fylgi að fagna hér á þinginu.

Í fyrra báru tveir sjálfstæðismenn fram till. um það, að þetta umrædda ákvæði laganna félli niður að því er snerti berklaveika menn. Sú upphæð, sem hér er um að ræða, myndi nema 200000 kr., en jafnframt yrði sömu byrði létt af sveitarfélögunum. Auk þess má búast við því, að sjúklingarnir eða aðstandendur þeirra geti greitt eitthvað sjálfir. Kommfl. mun síðar bera fram ýmsar till. til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þar á meðal til að mæta þessum útgjöldum.