30.11.1937
Efri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2190)

111. mál, stýrimanna- og vélfræðiskóli

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég er sammála hv. flutningsmönnum um það, að gild ástæða sé fyrir þessari þáltill. en þó eru nokkur atriði í sambandi við þetta mál, sem athugunar eru verð. Eftir ósk farmanna- og fiskimannasambandsins og fleiri félaga sjómanna hér í bæ var sett á stofn n. til að athuga stað fyrir skóla þennan. Í n. voru húsameistari ríkisins, skólastjórar sjómannaskólans og vélstjóraskólans og 2 menn frá farmanna- og fiskimannasambandinu. Komu þeir sér saman um að hafa hann uppi í Skólavörðuholti, nálægt Leifsstyttunni, nærri stað þeim, sem upphaflega var ætlaður undir stúdentagarðinn. Þetta mun vera góður staður, enda þótt ég hafi haft augastað á öðrum, á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi. Sá staður er að vísu í nokkurri fjarlægð frá bænum, en það getur þó ekki talizt mikill galli eins og samgöngum er nú háttað í bænum, ekki sízt, ef þar yrði jafnframt heimavist.

Það er víst, að húsrúm það, sem nú er notazt við, er orðið mjög takmarkað. Í stýrimannaskólanum munu nú vera starfandi 5 deildir. Húsið er því þrautnotað, og mun jafnvel vera kennt í útihúsi einu. Hinsvegar hlýtur þessi nýja bygging að verða dýr, og verður að leggja til hennar talsvert fé. En ef till. þessi nær samþykki, mun ég láta ákveða stað og ganga frá teikningum, svo að það yrði tilbúið fyrir næsta þing.