14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2269)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Flm. (Emil Jónsson):

Eitt af þeim verðmætum, sem hvert land telur sig þurfa að gæta sem öruggast, eru orkulindir þess. Kolanámur, olíunámur og þess háttar eru verðmæti, sem stórveldin hugsa hvað mest um að ná í nýlendum sínum, og barátta þeirra um löndin snýst fyrst og fremst um þessi gæði. Við Íslendingar eigum náttúrlega ekki — a. m. k. ekki svo að neinu nemi — kola- og olíunámur. En við eigum annað, sem því jafngildir, og er kannske enn farsælla og betra, sem er vatnsorkan, fallvötnin og jarðheitt vatn. Í þessu tvennu er bundin afarmikil orka, og veltur mikið á, hversu vandlega við gætum hennar og hversu við getum hagnýtt hana. Slík orka telst jafnan til hinna mestu nytsemda, hvar í heimi sem er.

Fallvötnin hafa nú nokkuð verið rannsökuð hjá okkur, að vísu ekki til neinnar hlítar; en lausleg bráðabirgðaáætlun hefir verið gerð um það, hversu mikil orka muni fást úr ýmsum stórám og fossum. En um jarðhitann má segja, að hann hefir ekkert verið rannsakaður til þessa. Ég legg til, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að rannsókn verði upp tekin meðal annars með því — og sjálfsagt fyrst og fremst —, að fengin verði nýtízku áhöld, borar og þess háttar, til þess að geta á þann hátt kannað jarðlögin á hitasvæðum miklu betur. Því að án þeirra er ómögulegt að framkvæma þessa rannsókn. Þetta getur haft þýðingu, fyrir þá staði fyrst og fremst, þar sem þéttbýlið er mest, eins og Hafnarfjörð og Reykjavík og nágrenni. Ennfremur fyrir aðra staði, þar sem um hita er að ræða, eins og til dæmis Akureyri, Siglufjörð og Húsavík og fleiri staði, sem hafa heita vatnið innan ekki mjög mikillar fjarlægðar, svo að til mála getur komið að virkja. Ennfremur kunna að vera möguleikar til allmikillar annarar virkjunar á þessari hveraorku, sem náttúrlega yrði rannsakað um leið.

Ég skal ekki eyða fleiri orðum um þetta mál, því að ég ætla, að hv. þingmenn skilji, hversu þýðingarmikið það er, og hversu mikið liggur við, að þjóðin geri sér grein fyrir, hver verðmæti það eru, sem felast í þessum orkulindum. Ég veit, að rannsókn þessi hefir nokkurn kostnað í för með sér, en til þess verður að ætlast, að bæjar- og sveitarfélög leggi nokkuð af mörkum til þessara hluta. Þau eiga fyrst og fremst mest í húfi í þessu efni. En jafnvel þótt þau reyndust yfirleitt ekki fús til að taka þátt í þeim kostnaði, eru til svæði, sem hafa slíka þýðingu fyrir landið í heild, að sjálfsagt væri, að ríkið tæki þá málið að sér eitt saman.

Ég vil leggja til, að þessu máli verði vísað til siðari umr. og fjvn.