21.12.1937
Neðri deild: 57. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2306)

139. mál, strandferðasjóður

Flm. (Þorbergur Þorleifsson):

Samgmn. hefir haft til meðferðar frv. það, er ég lagði fyrir Alþingi fyrir nokkru um strandferðasjóð, og hefir fallizt í aðalatriðum á hugmyndina. En n. þykir hinsvegar málið ekki nægilega undirbúið og ekki eins vel rannsakað og nauðsyn krefur, til þess að afgreiða það frá þessu þingi, því að nokkuð var liðið á þingtímann, þegar það kom fram. Fyrir því hefir n. komið sér saman um að flytja till. til þál. um málið, sem hljóðar svo: „Nd. Alþingis ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka ýtarlega, hvort kleift sé að stofna strandferðasjóð, og leggja fram tillögur um það efni á næsta Alþingi, eða svo fljótt sem því verður við komið“.

Ég skal geta þess, að þótt ég óski frekar eftir, að málið verði afgr. á þessu þingi, þá sætti ég mig eftir atvikum við þessa afgreiðslu á málinu. Sé ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum að sinni. En ég vænti þess, að hv. d. samþ. þessa þáltill., sem hér liggur fyrir.