27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2421)

40. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Flm. (Einar Olgeirsson) :

Mér finnst nú, að hæstv. ráðh. séu nokkuð dauftrúaðir á samtök fólksins sjálfs til þess að bæta sín eigin kjör, hvort sem það eru smákaupmenn eða smáútvegsmenn. (Fjmrh.: Ég trúi því, að það geri það í gegnum kaupfélögin). Þá þarf að sjá þeim fyrir gjaldeyrisleyfum. — En þessir hæstv. ráðh. voru líka vantrúaðir á það hér á árunum, að hægt mundi vera að lækka benzínið, eftir að skatturinn var lagður á það af Alþ. Ég átti þá m. a. tal við hæstv. atvmrh., og sagði hann, að ómögulegt væri fyrir hringana að lækka verðið. Það sýndi sig nú samt, að það var hægt. Og ég hefi þá trú, að ef smákaupmenn fá sjálfir að ráða sínum gjaldeyrisleyfum, þá geti þeir stuðlað að minnkandi dýrtíð í landinu.

Það er að vísu rétt, að það nægir ekki að samþ. þessa till., og gera svo ekkert meira. Vinstri flokkarnir þurfa að hjálpa millistéttunum að skapa sín eigin samtök. Það er hart að horfa upp á það, að á sama tíma, sem bændurnir hafa myndað sér sterk samtök, hafa smákaupmenn og fiskimenn engin samtök sín á milli. Hér er stórt svið eftir að vinna, þar sem vinstri flokkarnir mega ekki lengur sitja hjá. — Það er rétt, að það sparast engin 1½ millj. fyrir smáútveginn og 5 millj. fyrir þjóðarbúskapinn, ef till. er aðeins samþ., og svo búið. En ef ríkisstj. tæki upp þessa reglu, þá eru möguleikarnir fyrir því, ef sá réttur, sem væri innfærður, væri notaður til hlítar af sjálfum millistéttunum, vinnandi fólkinu í landinu. Það er rétt, að sjálf þáltill. flytur þetta ekki til fólksins, en hún skapar þeim réttinn til þess að notfæra sér þessa möguleika.

Þetta vildi ég taka fram. Að öðru leyti felli ég mig vel við þá till., að málinu sé vísað til fjhn., og mun ég því ekki orðlengja frekar um það nú.