29.10.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

19. mál, Bolungavíkurhöfn

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Það stendur svipað á með þessa till. eins og þá, sem ég hafði framsögu fyrir áðan (till. um landhelgisgæzlu). að hún liggur hér fyrir þinginu í annað sinn.

Það mun nú að sjálfsögðu þykja nokkuð stórt spor stigið, ef þingið samþ. þessa till., því að efalaust mun það hafa í för með sér allmikil útgjöld fyrir ríkissjóð, þó að ekki séu neinar áætlanir til um það.

Sú hefir verið reglan og er, að ríkissjóður leggi fram vissan hluta til hafnarbóta. En nú eru ekki til hafnarlög fyrir Bolungavíkurkaupstað, og þar stendur svo sérstaklega á, að ríkið hefir sjálft alltaf haft stjórn á þessu verki, og þrátt fyrir margítrekaðar óskir hreppsins um að fá að eiga þar hlutdeild í og fá að ráða sér sérstakan verkfræðing til þess að hafa þar yfirstjórn, þá hefir því verið harðlega synjað, og vitamálastjóri hefir haft yfirstjórn verksins á hendi. Það, sem búið er að gera við höfnina, hefir kostað um ½ millj. kr., eins og tekið er fram í grg. — Ég ætla, að það muni standast nokkurn veginn allt, sem í þessari grg. er, þó að nokkuð sé liðið frá því að hún var samin, og fyrir því eru því sterkari líkur, sem allmikið af grg., allt það efnislega og talnalega, er fengið beint frá fyrrv. vitamálastjóra, Th. Krabbe. — En af þessari ½ millj., sem þetta verk hefir kostað, hefir hreppurinn greitt um 300 þús. kr. Nú er þetta ekki mjög stór hreppur, og liggur það því í augum uppi, að þetta hefir orðið honum ofraun, enda hefði hann aldrei lagt út í það, ef hann hefði ekki teygzt út í það smátt og smátt, vegna þess að sífellt hefir orðið að endurtaka verkið. Af þessum ástæðum — og náttúrlega af ýmsum fleiri ástæðum með hefir hreppsfélagið orðið ákaflega illa stætt fjárhagslega. Það er svo búið að tæma gjaldgetu sína og lánstraust fyrir þetta mannvirki, að ekki er hægt að búast við því, að það verði fyrst um sinn þess megnugt að leggja meira fé til þess. En bæði er það, að óviðunandi er, að verk, sem búið er að leggja í ½ millj. kr., verði að litlu gagni, og ennþá meira óviðunandi, að það eyðileggist af því, að því er ekki að fullu lokið, og eins hitt, að framtið þessa hreppsfélags byggist að miklu leyti á hafnarumbótum. Ég tel því víst, að ríkið, sem búið er að leggja um 200 þús. kr. í þetta mannvirki, muni vilja halda verkinu áfram, þó að það verði náttúrlega alltaf álitamál, með hvað miklum hraða það skuli gert. Ég vænti þess einnig, að þingið vilji líta á þá ástæðu, sem ég nefndi áðan, nefnilega þá, að hreppstjórnin hefir litlu eða engu fengið að ráða um þetta verk, og yfirstjórn þess hefir alltaf verið í höndum umboðsmanns ríkisins, og sú skýrsla, sem ég hefi fengið frá fyrrv. vitamálastjóra, ber það með sér, að á því hafa orðið miklar misfellur. Ég get ekki betur séð en að langmestur hluti þess fjár, sem til mannvirkisins hefir gengið, hafi farið til umbóta vegna skemmda og svo til þess að tryggja þennan brimbrjót, sem frá upphafi hefir verið allt of veikur. Eftir því, sem mér sýnist af skýrslunni, hefir ekki farið til beinnat framlengingar á þessum brimbrjót meira en 140 þús. kr.; hitt hefir farið til endurbóta, enda hefir, eins og ég hefi tekið fram í rökstuðningi till., verið svo kastað höndunum til þessa verks, að víkin hefir ekki einu sinni verið mæld.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til fyrir mig að hafa þessi orð miklu fleiri, en ég vil að lokum leggja áherzlu á það, að aðstaða hreppsbúa þarna er þannig, að þeir verða að langmestu leyti að treysta á sjóinn. Þó hafa þeir hin síðari árin lagt talsverða áherzlu á aukna ræktun, og stafar það af því, að afli hefir brugðizt að undanförnu í þessari gömlu, frægu og ágætu verstöð. Það er öllum kunnugum ljóst, að aukin jarðrækt getur ekki bjargað þessu þorpi; til þess verður að gera aðrar ráðstafanir.

Að lokum vil ég mælast til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn. að lokinni þessari umr.