15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (2495)

84. mál, raforka frá Soginu til almenningsþarfa

*Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Ég hefi á þskj. 107 gert fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um frekari notkun raforku frá Sogsvirkjuninni. Eins og vitað er, er þetta fyrirtæki komið á vegna hagsmuna Reykjavíkurkaupstaðar, svo sem lögin um Sogsvirkjunina segja til vegar um. Engu að síður eiga fleiri en Reykvíkingar hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mannvirki, þó þeir ekki hafi notið þess, en lifi enn aðeins í réttmætri eftirvæntingu þess, að vonir þeirra í þessu efni fái sem fyrst að rætast. Þetta segir sig sjálft, þar sem Sogið liggur í miðju viðlendu héraði og mjög skammt frá nokkuð fjölmennum þorpum og byggðarlögum, og ennfremur eru ekki neinar óraleiðir til stærri kaupstaða og kauptúna, er gjarnan vildu njóta hér góðs af virkjuninni. Vegna þessarar afstöðu hefir komið fram bæði fyrr og síðar mikil eftirgrennslan um þessa hluti, sem hefir komið fram í till. og ályktunum til Alþingis, sem allar lúta að því að hvetja til þess, að eitthvað sé gert til að komast að niðurstöðu í málinu. Alþingi hefir sinnt þessu máli. Það setti l. um raforkuveitur árið 1932 og síðan l. um Sogsvirkjunina, sem hefir nú verið framkvæmd. Mönnum hefir aldrei blandazt hugur um það, hvorki á Alþingi eða annarsstaðar, að almenningur bíður eftir því, að reistar verði stórar raforkustöðvar til hagsbóta fyrir heila landshluta. Þær almennu till., sem fram hafa verið bornar í þessu máli, hafa flestar komið fram í þál. formi, og þær fengu sameiginlega niðurstöðu í ályktun, er samþ. var á síðasta þingi á öndverðu þessu ári og flutt var af hæstv. atvmrh., þar sem gert var ráð fyrir undirbúningsrannsókn í þessu efni, bæði vegna aðkallandi krafna frá Hafnarfjarðarkaupstað og öðrum stöðum. Samkv. þessari ályktun var atvmrh. heimilað að verja fé til rannsókna á þessu efni í víðtækri merkingu. En þar sem rannsókn þessi stendur nú yfir, fannst mér, að ekki mætti liða svo þetta þing, að ekki yrði af vörum hæstv. ráðh. gert heyrinkunnugt, hvaða niðurstöður fengizt hafa, og ég vænti þess fastlega, að hæstv. ráðh. sé málið það kunnugt, að hann geti gefið þingheimi ákveðið hugboð, ekki aðeins um það, hvað n. sú, er skipuð hefir verið til að rannsaka málið, álítur um kostnað við hinar ýmsu framkvæmdir, sem hugsaðar eru, ekki aðeins um það, hverjar þeirra mundu bera sig bezt, sem líklega er nú fyrir kaupstaði og kauptún, heldur hitt einnig, hvað ætlazt er fyrir um lagasetningar og fyrirkomulag þessara framkvæmda í framtíðinni. Því það er fyrirfram vitað, að undirstaða löggjafarinnar á að vera sú, hvar bezt er að hefjast handa og hvar óskir manna eru réttmætastar, en jafnframt þarf almenningur einnig að fá skýrt að vita, hvaða lagareglum á að beita við framkvæmdirnar. Ég álít það afaráríðandi, þegar kemur til framkvæmda út frá Sogsvirkjuninni og einnig á öðrum stöðum, að þá eigi framkvæmdirnar sér stað eftir samfelldri og fyrirfram kerfisbundinni lagaskipun, svo að sneitt verði hjá allri togstreitu, sem orsakazt gæti vegna mismunandi styrkleika stjórnmálaflokkanna á Alþingi í hvert skipti. En til þess að koma í veg fyrir allt handahóf í þessu efni þarf að setja um þetta lagakerfi í líkingu víð vegalög, símalög eða þessháttar framkvæmdir. Að vísu verður hér ekki allt framkvæmt í sömu andránni, það er öðru nær, en einmitt fyrir það þarf að kerfisbinda þessar framkvæmdir fyrirfram eftir ýtarlegum rannsóknum, og framkvæmdum raðað eftir því, hverjar eru dýrastar í hlutfalli við notagildi þeirra, þannig að það liggi ljóst fyrir, hvað gera skal á þessu ári, hvað á næsta ári o. s. frv., eftir því sem fjárveitingar leyfa á hverjum tíma. það er mjög á huldu, hvaða hlutfalla verður gætt í framkvæmdunum milli kaupstaða og sveita í þessu efni, hver hinn opinberi styrkur verður, og hvernig framkvæmdastjórninni verður hagað. Allt þetta veit ég, að mönnum er mikið umhugsunarefni og áhugi mikill að fræðast um það frá ríkisstj., hvað efst er á baugi í þessu efni. — Ég vil um leið og ég sezt láta þess getið, að í kauptúnunum og þéttbýlinu eystra er ekkert framkvæmdarmál á dagskrá, sem eins mikill áhugi er fyrir og þetta. Enda liggur það í hlutarins eðli, að svo sé nú, þegar skammdegismyrkrið og kuldinn þrengir meir og meir að með hverjum degi, sem liður.