23.10.1937
Efri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

32. mál, fiskveiðasjóður Íslands

*Jón Baldvinason:

Það er rétt hjá hv. frsm. og flm. frv., að það, sem veldur því, að fiskveiðasjóður Íslands getur ekki komið að fullum notum og sinnt öllum lánbeiðnum, sem til hans koma, er það, að sjóðurinn á ekki nægilega mikið fjármagn. Það er kannske ekki rétt að segja, að sjóðurinn sé í fjárþröng. Það orð er raunverulega skilið á annan hátt. Því að því leyti er sjóðurinn ekki í neinum vandræðum í sjálfu sér, að hann hefir nægilegt fé til að lána eftir þeim reglum, sem honum eru settar fyrir lánveitingum. En starfssvið hans er takmarkað og hann verður að haga lánveitingum eftir því. (JJós: Það var það, sem ég átti við). Við erum þá sammála. Það, sem á stendur aðallega, er, að hægt sé að auka starfsfé fiskveiðasjóðs. Og þó að starfsféð væri hægt að auka, þannig að starfssvið sjóðsins gæti aukizt, þá verður að hafa ákvæðin fyrir starfsemi hans það þröng, að ekki væri hætta á, að sjóðurinn yrði fyrir tapi af sínum lánveitingum. Það má segja, að þessa sé gætt í þessu frv., þó að í því felist rýmkun frá því, sem nú er í þessu efni, ef stj. sjóðsins þá að sama skapi herti á kröfum um veðin, þ. e. a. s. tæki þær eignir, sem veðsettar eru, með meiri varúð heldur en kannske gert er nú. Nú sem stendur er ekkert lánað úr sjóðnum, nema fasteignaveð fylgi, þó að það skuli hinsvegar játað, að í einstökum tilfellum væri e. t. v. óhætt að lána út á ný skip stuttan tíma án þess að taka fasteignaveð. En það, sem veldur því, að sú regla hefir verið upp tekin að taka fasteignaveð fyrir lánum úr sjóðnum, er það, að vélarnar endast í mörgum skipum aðeins fá ár; þarf þá annaðhvort að gera við þær eða skipta um vélar, sem hvorttveggja verður mjög kostnaðarsamt fyrir skipin, eða að öðrum kosti rýrir mjög veðhæfi skipanna. Vafalaust kemur þetta endingarleysi til af því í mörgum tilfellum, að vélarnar eru ekki nógu vel hirtar. Og ekki mun það koma síður af því, að menn hafa verið óheppnir með að kaupa vélar, sem ekki eru góðar. Það eru þó nokkrar tegundir véla, sem virðast vera ónýtar eftir tiltölulega fá ár, eða jafnvel þurfa mjög mikilla viðgerða við þriðja eða fjórða hvert ár, eða jafnvel með skemmra millibili. Vegna þessa hefir sjóðurinn tekið þessi aukaveð í fasteignum, til þess að tryggja sig gegn óvæntu tjóni, sem af því kann að stafa, að vélar bila í mótorbátum, sem sjóðurinn hefir að veði fyrir lánum.

Nú hefir hér verið komið fram með ýmsar till. um aukningu fiskveiðasjóðs Íslands, og er kannske von á fleirum en þessum. Þær hafa og munu hafa allar sama markmið, að auka fjármagn fiskveiðasjóðs. Það ætti því í raun og veru ekki að þurfa að standa á því að Alþ. gangi frá l. um þetta efni, sem útveguðu sjóðnum meira starfsfé. Þörfina fyrir aukið starfsfé hafa allir séð. En till. um það hafa kannske ekki komið fram vegna þess, að menn hafa séð ýmsa erfiðleika á því að útvega nýtt fé til sjóðsins. Svo hefir e. t. v. komið þar til greina einhver togstreita um það, til hvers því fé skyldi verja, sem kynni að vera hægt að auka við starfsfé sjóðsins, hvort ætti að verja því til tilrauna við fiskiveiðar eða til lánveitinga.

Ég tel víst, að frv. þetta verði athugað og svipaðar till., sem fram koma, og reynt verði að fá það bezta út í þessu máli eins og hægt er. Því að það er rétt hjá hv. flm., að með breyttum fiskiveiðum og að nokkru leyti auknum nú upp á síðkastið, sérstaklega síldveiðum og dragnótaveiðum, er raunverulega þörf stærri skipa heldur en áður hafa verið almennast notuð. Og segja má þá, að e. t. v. séu þær takmarkanir, sem settar eru í þessum eldri fiskveiðasjóðsl., fullþröngar, ef hann fengi nýtt fé til umráða til lánveitinga. Hinsvegar skal ég upplýsa hv. þdm. um það, að það hefir ekki verið neitað beiðnum um lán úr sjóðnum, þegar menn hafa komið með skip, sem til þess hafa verið fallin að lána út á þau, og tilsvarandi veð í fasteignum; það hefir ekki verið neitað um lán í slíkum tilfellum, innan þess ramma, sem l. sjóðsins ákveða nú. Sjóðurinn hefir þannig haft fé til þess að sinna þeim verkefnum, sem sú löggjöf, sem nú gildir, heimilar sjóðnum að sinna, þrátt fyrir það, þótt þessi erfiðu ár undanfarið hafi sjóðsstjórnin talið sér skylt, í einstaka tilfelli, að hliðra til með afborganir af lánum, sem erfiðlega hefir gengið með greiðslur á, sem því miður hefir verið allt of mörg ár. Fyrir það hefir í sjóðnum orðið minna handbært fé. En til þessa hefir verið nægilegt fé í sjóðnum til þess að inna af hendi verkefni sjóðsins eftir þeim l., sem nú gilda. En verði verksviðið aukið, verður auðvitað að auka starfsfé sjóðsins, hvernig sem þess svo verður aflað.

Það má náttúrlega segja, að verkefni sjóðsins eftir þessu frv. sé ákaflega stórkostlegt. því að ef reist væru fyrir lán úr sjóðnum frystihús, lifrarbræðslustöðvar, fiskimjölsverksmiðjur og önnur iðnfyrirtæki, þá mundu þessi fyrirtæki taka til sín ákaflega mikið fjármagn. Svo það er hætt við því, jafnvel með þeirri aukningu, sem gert er ráð fyrir á sjóðnum eftir þessu frv., að ekki mundu þó allir, sem þess óskuðu og e. t. v. hefðu tök á að koma til greina, geta fengið úrlausn.

Það á líka að vera verkefni þessa sjóðs eftir frv., að lána út á stór skip, svo sem togara og línuveiðagufuskip og önnur slík fiskiskip. Og það út af fyrir sig er náttúrlega ákaflega mikið verkefni. En mér skildist á hv. 1. flm. frv., að ætlun þeirra flm. þess væri sú, að stærri skipin skyldu sitja á hakanum um lánveitingar úr sjóðnum, þar til hægt væri að útvega honum það fé, sem til þess þyrfti, en að sjóðurinn ætti fyrst og fremst að fullnægja hinum öðrum verkefnum, sem áður eru talin í frv. (JJós: Það er rétt skilið). En vitanlega, ef til slíkrar lánastarfsemi til stærri skipa verður tekið, þarf sjóðurinn mjög mikið starfsfé, vafalaust svo millj. kr. skiptir. Því að þá mundu að sjálfsögðu þeir, sem fengið hafa lán út á stór skip, annaðhvort hér í bönkum eða erlendis. og það með hærri vöxtum en fiskveiðasjóður tæki, koma í hópum með lánbeiðnir til fiskveiðasjóðs til þess að reyna að fá þar lán með lægri vöxtum.

Þegar hinar aðrar till. eru fram komnar, sem ég vænti, að muni koma fram síðar um þetta mál, þætti mér eðlilegast, að þær till. og þetta frv. yrði athugað í sameiningu og athugað, hvaða ákvæði hægt er að taka til greina úr þessu frv., sem líkleg eru til að gefa árangur til aukningar fiskveiðaflotans, sem mér skilst vera óhjákvæmileg þörf að auka nú á næstunni, með þeirri tilhögun, sem nú er orðin á fiskveiðunum.