15.10.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1938

Þorsteinn Briem:

Það er nú þegar liðinn hálfur mánuður síðan þingmenn Framsfl. komu saman hér í Reykjavík til að ráða ráðum sinum. Og nú í kvöld er liðin rétt vika af sjálfu þinginu. En nú fyrst á 7. degi þingsins er fyrsta frv., sem fram er komið frá stjórninni, tekið til meðferðar. Öðrum stjórnarfrv. hefir ekki enn verið útbýtt, og þingfundir alls ekki boðaðir suma dagana, sem af er. Varla getur það verið slóðaskap einum að kenna hjá stjórninni, að hún eyðir svo gálauslega tíma þingsins og lætur upp undir 100 manns sitja hér á launum án þess að fundir séu boðaðir. Hér hlýtur eitthvað annað að valda þessum óvenjulega drætti og seinlæti.

Samsuða stjórnarflokkanna hlýtur að hafa gengið eitthvað seinlega, eða a m. k. verið kekkir í gráatnum. Um einn kökkinn er vitað, sem ef til vill hefir komið öðrum stjórnarflokkum a. m. k. óþægilega í háls. Það er, að kommúnistar skyldu gera það að skilyrði fyrir samruna sósíalista- og Kommfl., að sósíalistar yrðu að blessa rússneska blóðbaðið, afneita Trotskyismanum og falla frá öllum yfirlýsingum um að vinna að málum á grundvelli laga og þingræðis.

Um annan erfiðleika er og mjög talað meðal þeirra, sem kunnugir þykjast vera í stjórnarherbúðunum. Það er, að tvenn hafi verið um það sjónarmiðin í Framsfl., hver ætti að verða forsætisráðherra. Hefir orðhagur utanflokkamaður líkt horfunum í þeirri togstreitu í stjórnarherbúðunum við svissneskt veðurhús, þar sem konan er úti þegar gott er veður, en karlinn þegar versnar. Og hann bætti við: „Kerlingin var úti í gær, en nú er karlinn kominn út aftur“.

Það er skiljanlegt, að slík togstreita geti tafið margt innan flokksins, jafnvel þótt vitað sé, hver muni verða hlutskarpari nú í bráð.

En loks eru ótaldir þeir erfiðleikar, sem eiga sínar eðlilegu orsakir í högum lands og þjóðar, eins og nú er komið. Og það er ekki nema eðlilegt, að stjórnarflokkunum gangi treglega að átta sig á þeim erfiðleikum nú, þar sem þeir hafa allt fram að þessu reynt að dylja raunveruleikann með ýmiskonar sjónhverfingum bæði fyrir sjálfum sér og öðrum.

Það var ekki lítill völlurinn á hæstv. fjmrh., þegar hann flutti fjárlagaræðu sína í vetur sem leið. Þá vitnaði hann til þess, að strax haustið 1934, þegar hann var nýtekinn við fjármálastjórn landsins, þá hefði hann lagt áherzlu á það í sinni fyrstu fjárlagaræðu, að stjórnin liti á það sem sitt stærsta verkefni að halda uppi fullum greiðslujöfnuði við útlönd.

Hann sagði, eins og rétt er undir öllum venjulegum kringumstæðum, að þótt fullur greiðslujöfnuður á fjárlögum og landsreikningi hefði mikla þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn, þá væri hitt aðalatriðið, að unnt væri að standa í skilum út á við þannig, að innflutningurinn yrði eigi meiri en það, að hægt væri að greiða hann og rentur og afborganir og aðrar ósýnilegar greiðslur af ársframleiðslu landsmanna. Og hann var því ekki lítið upp með sér í vetur, er hann tilkynnti þjóðinni það í útvarpinu, að þessu takmarki, sem stjórnin hefði sett sér að aðaltakmarki, væri náð. Hann talaði um þau feikna átök, sem núverandi stjórn hefði þurft að gera til að ná þessu marki. Hann útmálaði, hve viturlega innflutnings- og gjaldeyrisnefndin hefði hagað sínu ráði um takmörkun innflutningsins. Þó að það kæmi nú raunar í ljós síðar, að hún hafði veitt innflutningsleyfi fyrir vörum, sem nam a. m. k. 7–8 millj. fram yfir það, sem bankarnir gátu með nokkru móti yfirfært. En að bankarnir hafi teygt sig eins langt og þeir mögulega gátu í yfirfærslum, sést ljóslega af því, að viðskiptajöfnuður þeirra við útlönd versnaði á síðastl. ári um hátt á 2. millj. króna.

Hann útmálaði það á alla vegu, hve mjög hagur þjóðarinnar hefði batnað gagnvart útlöndum, þar sem útflutningurinn hefði numið „8,7millj.“ umfram innfl., og mundi sá mismunur því hrökkva fyrir vöxtum og afborgunum af erlendum .lánum og öðrum slíkum greiðslum til útlanda á árinu.

Hann tók ekkert tillit til þess, að vörubirgðir af innlendum vörum til útflutnings voru um 4 millj. minni en árið á undan. Hann tók heldur ekki neitt tillit til þess, að þurrð var að verða í landinu af ýmsum erlendum neysluvörum, sem þó fóru síhækkandi, en enginn kostur var á að kaupa í tíma með lága verðinu, eins og nágrannaþjóðir vorar gerðu til að draga úr dýrtíðinni hjá sér. — Og hann tók loks alls ekkert tillit til þess, að af framleiðsluvörum, sem nota þurfti á þessu ári, svo sem kolum og veiðarfærum og öðrum útgerðarvörum, hafði miklu minna verið keypt inn fyrir áramótin en venja var til.

Og þetta kom allt af þeirri einföldu ástæðu, sem hæstv. fjmrh. þóttist þó ekki vita, að viðskiptajöfnuður bankanna við útlönd hafði versnað svo á árinu, að þeir gátu ekki nema með sérstökum stuðningi landsstjórnarinnar yfirfært meira en gert var. Bankarnir hafa sýnilega teygt sig meira en hægt var í raun og veru í þessu efni. Það sýnir skýrsla hagtíðindanna og skýrsla þjóðbankans sjálfs. En samt vantaði um 4 millj. kr. til þess að hægt væri að yfirfæra gjaldeyri fyrir þær útgerðarvörur, sem búið var að veita innflutningsleyfin fyrir síðastl. ár, og hafa innflutningsleyfin þó væntanlega ekki verið umfram þörf. (Sbr. fjárlagaræða Eyst. J 23. febr. 1937. Alþt. 1937, C. bls. 222). Enda varð á fyrra helmingi þessa árs að kaupa útgerðarvörur fyrir 3 millj. hærri upphæð en árið áður.

Hæstv. fjmrh. hefir verið spurður að því, hvað væri eftir af þessum 8 millj., sem hann taldi útflutninginn nema umfram innflutning síðastl. ár, þegar búið væri að draga frá þessar 4 milljónir og þær 4 milljónir, sem fiskbirgðir voru minni í landinu um síðastl. áramót en árið áður. — En ég minnist þess ekki, að hann hafi svarað. Og er honum þó sízt tregt um tungutak.

Hæstv. fjmrh. virtist ætla, að hagur þjóðarbúsins stæði jafnvel eftir, þó að útflutningsvörubirgðir væru miklum mun minni og varanna til framleiðslunnar að miklu óaflað, ef aðeins ársreikningar hennar við útlönd stæðust nokkurnveginn á í árslokin. En þá hlýtur hann líka að ætla, að hagur bóndans sé jafngóður eftir, ef hann aðeins fær kvittað ársreikninginn við verzlun sína í haustkauptíð, þó að hann hafi ekki aðeins selt meira úr búi sínu og eigi því minni eign eftir, heldur eigi og að miklu leyti eftir að afla heyjanna, sem eru hans framleiðsluvörur. Þess vegna var hæstv. fjmrh. svo mikill á lofti í fjárlagaræðu sinni á þorranum, að hann gat talið sjálfum sér trú um þetta. Og þess vegna tókst honum og flokki hans að ávinna þau atkvæði, sem hann ekki fékk lánuð frá sósialistum og kommúnistum á síðastl. vori, að hann gat talið allmiklum hluta þjóðarinnar trú um þetta með sér. Því að nokkur hluti fólksins lét blekkjast af mikillæti hans. Það taldi hann hinn raunverulega leiðtoga flokks síns og trúði á fjármálavizku hans.

Þetta mikillæti hefir nú allmjög minnkað. Það duldist ekki, er hæstv. fjmrh. flutti þessa haustræðu sína, að hann getur nú ekki lengur talið sér trú um sumt af því, sem hann hélt fram í vor, eða á þorranum.

Það er nú komið í ljós, sem ég benti á í svari mínu við fjárlagaræðuna í vetur, að dýrtíð þessa árs mundi koma fyrr og leggjast þyngra á allan almenning í landinu, vegna þess að ekki var unnt að kaupa meira af nauðsynjavörunum fyrir nýár. Ýmsar nágrannaþjóðir vorar hafa þar farið öðruvísi að. Þar lögðu stjórnirnar kapp á að ná sem mestum nauðsynjavörubirgðum inn í landið meðan verðhækkunin var í aðsigi, til þess að komast hjá aukinni dýrtíð meðan þess væri kostur. Þær hafa talið þjóðinni mest lífsspursmál að ná í erlendu vörurnar með skaplegu verði, meðan unnt var, jafnvel þótt það gengi út yfir viðskiptajöfnuðinn í bili. Þær hafa séð, að það var margfaldur skaði fyrir þjóðarheildina að sleppa því tækifæri. Því að það, sem viðskiptajöfnuður kynni að raskast af þeim ástæðum um stund, það mundi vinnast margfaldlega upp aftur á næstu mánuðum, meðan birgðirnar entust, og ekki þyrfti að kaupa eins mikið vörumagn með hækkaða verðinu.

Þær litu því eins á málið eins og hver góður búmaður, sem eykur nauðsynjainnkaup sín og birgir sig upp, í stað þess að draga úr nauðsynjavöruinnkaupum, þegar verðhækkun er í aðsigi.

En landsstjórnin hér leit ekki svo á. Hún leit ekki á hag almennings í landinu. Hún leit ekki á það, hverju það munaði fjölskyldurnar að verða að kaupa hvern mjölsekk þriðjungi dýrari, þegar á leið veturinn, fyrir það, að ekki var hægt að flytja hann inn fyrr en verðið var stigið upp.

Hún leit ekki á, hverju það munaði bóndann, sem þá varð að kaupa rúgmjöl til fóðurs, af því síldarmjölsbirgðirnar voru þrotnar innanlands, að verða að kaupa það með hækkaða verðinu. — Og hún leit ekki á það, hverju það munaði þjóðarbúið í heild að verða af þessum ástæðum að sæta óhagstæðustu vörukaupum.

Hún leit aðeins á þær tvær tölur, sem henni þótti gott að geta hampað framan í kjósendum við þær kosningar, sem fóru í hönd, en það voru tölurnar yfir útflutt og innflutt.

Þess vegna fengu bankarnir ekki þann stuðning, sem þeir hefðu þurft og ríkisstjórnin hafði heimild til að veita þeim, til þess að hægt væri að draga að landinu nauðsynjar í tíma. Og þess vegna fórnaði landsstjórnin hag almennings fyrir það eitt, að geta um áramótin sýnt nokkurn veginn greiðslujöfnuð á pappírnum við útlönd.

Það hefir nú þegar verið sýnt fram á, hversu sá greiðslujöfnuður, sem hæstv. fjmrh. hefir hrósað sér af, var villandi, — og raunar alger blekking, þegar þess er gætt, að útgerðarvörurnar til þessa árs voru að mestu ókeyptar og fiskbirgðirnar einar voru 4 millj. minni um síðastl. áramót en árið áður.

Það er nú í ljós komið, hve landsfólkið hefir orðið að kaupa nauðsynjar sínar hærra verði og búa við lakari afkomu, vegna þess að önnur sjónarmið réðu í þessu efni en þau, sem almenningi voru hagfeldust.

Það er og í ljós komið, hversu hæstv. fjmrh. fegraði óvart tölur sínar um greiðslujöfnuðinn í fjárlagaræðunni í febrúar, þar sem hann gerði þingheimi þá verzlunarjöfnuðinn hagstæðan um 8,7 (sjá Alþt. 1937, C. bls. 218), millj. kr., þó að útflutningurinn væri ekki nema 6,6 millj. umfram innflutninginn, skv. skýrslum hagstofunnar. Og nemur þá sá mismunur á þriðju milljón.

Sýnir þetta, að þar sem ósýnilegu greiðslurnar svonefndu munu nema um 8 millj., þá hefir, þrátt fyrir allt mikillæti hæstv. fjmrh., skort upp undir 1½ milljón á fullan greiðslujöfnuð síðastl. ár. Hæstv. ríkisstjórn hefir því alls ekki tekizt þetta, sem fjmrh. lýsti yfir um haustið 1934, og nú síðast á þorranum, að stjórnin teldi sitt höfuðverkefni að koma á fullum greiðslujöfnuði við útlönd.

En þar á ofan er það nú einnig í ljós komið. hve þessi „verzlunarjöfnuður“ síðastl. ár, sem fékkst með því að hafna hagkvæmum innkaupum á nauðsynjum landsins, hefnir sín illa á þjóðarbúskapnum nú á þessu ári.

Af því að ekki varð hjá því komizt að kaupa með hækkuðu verði á þessu ári þær vörur, sem frestað var að kaupa í tíma, þá hefir innflutningurinn orðið hærri en útflutningurinn, það sem af er árinu.

Ofan á það stórtjón, sem almenningur hefir beðið í hærra verði erlendu vörunnar, bætist því þeim mun óhagstæðari greiðslujöfnuður á þessu ári.

Útflutningurinn má verða allmikið fram yfir meðaltal á síðustu þrem mánuðum ársins, ef ekki á að vanta svo milljónum skiptir á fullan greiðslujöfnuð um næstk. áramót; og það þrátt fyrir þann óhemju síldarafla og það stríðsólguverð, sem við höfum notið á sumum afurðum vorum nú í ár. — Verðmæti síldaraflans í fyrra var hærra en nokkru sinni fyrr. Nam söluverð hans á 13. millj. kr., eða um það bil tvöföldu verðmæti síldarafurða í meðalsíldarári, eins og árið 1933. En nú í ár virðist verðmæti síldarafurðanna ætla að verða fast að 10 millj. meira a. m. k. en árið áður, eða meira en þrefalt verðmeiri en afli meðaláranna að undanförnu, þó að vísu hefði mátt auka þann afla og verðmæti jafnvel svo milljónum skipti, ef stjórn síldarmálanna hefði eigi verið með þeim fádæma mistökum, sem nú verða með hverjum degi betur kunnug. Og hefi ég þar dæmi deginum ljósari, frá því fólki, sem ég bý sjálfur á meðal.

En þrátt fyrir þessa óhemju verðmætisaukningu, þá virðist svo sem hennar ætli að sjá litla staði í heildarútkomu ársins. Það er ekki annað sýnilegt, en að þjóðarskuldirnar við útlönd aukist jafnvel enn á þessu ári, eigi að síður. Hvað hefði þá orðið, ef síldin hefði aðeins orðið við meðallag, eða þaðan af minni, að aflamagni eða verðmæti? Hver getur hugsað sér annað en að þá hefði vofað yfir ríkis- og þjóðargjaldþrot?

Þegar svo er komið, að ekkert nema algerlega óvæntur stórvinningur í síldarhappdrætti getur forðað þjóðinni frá því að komast í örþrot, þá hefði mátt vænta þess, að hæstv. fjmrh. legði fyrir þingið gætilegt fjárlagafrumvarp.

Heildarútgjöld fjárlaganna hafa farið síhækkandi þessi hin síðustu ár. En þó var það frv. miklu hæst, sem hæstv. fjmrh. lagði fyrir þingið í vetur. Námu útgjöld þess á sjóðsyfirliti nær 17 milljónum. En þó hefir hæstv. fjmrh. enn hækkað útgjöldin á þessu frv. um fast að 300 þús. og á 3. milljónarfjórðunginn frá því, sem er í fjárlögum þ. á. Við því hefði ef til vill ekki verið mikið að segja, ef þeim útgjaldaauka ætti að verja til nauðsynlegra verklegra framkvæmda og til stuðnings framleiðslunni í landinu. En það er yfirleitt ekki svo. Með framlagi til verklegra fyrirtækja er talinn kostnaður af atvinnudeild háskólans. En annars eru aðalhækkanirnar í þessu fjárlagafrv. á 11. gr., til almennrar styrktarstarfsemi, og á 11. gr., til hins almenna embættisrekstrar, og nemur hækkunin á þeim tveim greinum á 5. hundrað þúsund.

Aftur á móti hefir framlag til vegamála á 13. gr. verið lækkað, og það þrátt fyrir nokkra hækkun á embættisrekstri vegamálanna. Fjárveiting til nýrra akvega er lækkuð um 78 þús. kr. Fjárveiting til brúargerða er lækkuð um 20 þús. kr. Og fjárveitingar til sýsluvega eru lækkaðar um 22 þús. kr.

Er nú á hverju þingi höggið sí og æ í þann knérunn, og stingur það sérstaklega í stúf, að samtímis því sem öll vinna hækkar skuli þessi fjárveiting vera lækkuð æ ofan í æ, svo að hún er nú orðin 64 þús. lægri en hún var á fjárlögum 1934. Kemur sér þetta einkum tilfinnanlega illa fyrir þau héruð, sem afskipt eru um almennt vegafé, eins og ég mun bráðum víkja að, og er mjög ómakleg hefting á sjálfsbjargarviðleitni sýsluanna í vegamálunum. — Framlög til brúargerða fara og árlega lækkandi og eru nú orðin 30% lægri en fyrir þremur árum, og á það víst að afsakast með því, að svo miklu var varið til brúargerða á árunum 1933 og '34. En enn er óbrúaður fjöldi illra vatnsfalla, sem eru hinn versti farartálmi fyrir héruðin og samgöngukerfið í heild sinni, þó að flestum mestu farartálmunum sé úr vegi rutt. Virðist því alls ekki enn vera kominn tími til að draga úr alnauðsynlegustu samgöngubótum, eins og stjórnin er nú byrjuð á.

Framlög ríkissjóðs til nýrra akvega hafa nú verið lækkuð um 172 þúsundir rúmar síðan á árinu 1935, eða um 43%. — Og kemur vegaframlag af hinum nýja benzínskatti þar alls ekki á móti, þar sem það fer að miklu leyti í malbikun vega og vegaendurbætur hér umhverfis Reykjavík.

Þessa geysilegu lækkun á fé til nýrra akvega verður því að telja beint undanhald í vegabótum landsins. En þó tekur út yfir, hve þessu vegafé er ranglátlega og af hróplegri hlutdrægni niður skipt. Má þar lesa úr þau héruðin, sem hafa sýnt pólitískt sjálfstæði gagnvart núverandi ríkisstjórn, hvernig þau eru gersamlega afskipt um öll vegafjárframlög.

Væri freistandi að minna á ummæli frambjóðenda Framsfl. á síðastl. vori um vegaþörfina í sumum þessum héruðum, til samanburðar við þær efndir, sem nú er að fá hjá ráðherrum þessa sama flokks. — Gæti það sýnt greinilega yfirdrepsskapinn og óheilindin í þeirri umhyggju, sem umbjóðendur hans segjast við hátíðleg tækifæri bera fyrir sveitahéruðum landsins. Þó mun verða að sleppa því að sinni, en ef til vill gefst tækifæri til þess síðar. — Það eitt skal þó fram tekið, að sem vænta mátti er þessi hróplega hlutdrægni gerð þvert ofan í tillögur vegamálastjóra, sem mesta hefir þekkinguna og kunnugleikann á vegakerfi landsins og þörfum hinna einstöku héraða. Jafnvel um hin sérstöku vegafjárframlög til fjársýkishéraðanna kemur fram pólitísk hlutdrægni, þar sem 2 sýslur eru afskiptar.

Virðist svo sem hæstvirt ríkisstjórn sjái engar leiðir aðrar færar til að vinna sér nýja áhangendur en að berja menn þannig á nasirnar til fylgis sér, og verður þá vart vitað, hvort meira veldur: Skammsýnin eða heiftin, — illgirnin eða óvitahátturinn.

Þá eru í þessu fjárlagafrumv. enn sem fyrr dregnar 20 þús. af þeim styrk, sem Búnaðarfél. Ísl., Ræktunarfél. Norðurlands og búnaðarsamböndin höfðu áður haft. Skv. þessu fjárl.frv. eru og enn dregnar 13 þúsundir, eða þriðjungurinn af því framlagi, sem veitt var fyrir tveim árum til sandgræðslunnar, þó að víða kalli mjög að um auknar framkvæmdir í því efni. Með þessu frumv. er nú fullkomlega niður fallinn allur styrkur til ræktunarsjóðs, sem áður nam fullum 70 þús. árlega, en sá sjóður var bændunum helzta hjálparhellan til umbóta á jörðum sínum. Virðist þar því næsta linlega staðið í ístaði fyrir hönd landbúnaðarins, móti því, sem áður var, þegar ræktunarsjóður var óskabarn þings og þjóðar.

Þá er framlag til áburðarkaupa enn aðeins 14 þús., eða tæpur þriðjungur þess, sem það var meðan fjárlögin voru þó í heild sinni mörgum milljónum lægri en þau eru nú orðin. Svo miklu þótti það varða, að fá þennan styrk lækkaðan, að ákvæði þar að lútandi voru að tilhlutun stj. tekin upp í sérstök lög um bráðabirgðafrestun nokkurrra laga, sem stjórnarflokkarnir hafa samþ. frá ári til árs. Og nú virðist það eiga að verða föst regla að draga um tvo þriðju af þessum styrk til ræktunarinnar í landinu.

Virðist það næsta hlálegt, þegar fjárlögin hækka ár frá ári og eru nú orðin þriðjungi hærri en þau voru fyrir fáum árum, og meira en það, að þá sé ekki hægt að halda í horfi um þau fyrri framlög til búnaðarframkvæmda, sem reynsla var fengin fyrir að gáfust vel.

Þegar litið er á hækkanir á einstökum liðum hér í þessu fjárlagafrumvarpi, vekur það eftirtekt, að enn er hinum opinberu starfsmönnum fjölgað. Á ég þar ekki við hina nýju starfsmenn við rannsóknarstofnun háskólans, — því að þar er vísir að nauðsynjastarfi fyrir atvinnuvegi landsmanna, sem sjálfsagt er að hlúa að eftir föngum, enda eru þar allir flokkar sammála um, — heldur á ég við þá ísjárverðu fjölgun opinbera starfsmanna, sem leiðir af ýmsum nýjum lögum, sem sett hafa verið hin síðustu ár, án þess menn hafi fyrirfram gert sér grein fyrir, hvaða starfsmannaaukningu þau hefðu í för með sér. Er þar að vísu sízt fjmrh. einan um að saka. En helzt ætti þó af hans hálfu að mega vænta athugunar og aðgæzlu í því efni.

Um hitt ræður pólitísk hlutdrægni, sem telja má til fullkominnar óráðvendni í meðferð á fé landsins, hvernig nýjum launum og allskonar þóknunum og bitlingum er hlaðið ofan á hin föstu laun ýmsra opinberra starfsmanna, svo að þeir hafa sumir jafnvel þreföld föstu launin.

Þegar dregið er úr ýmsum fyrri framlögum til atvinnuveganna; þegar gjaldaliðir fjárlaganna eru samt sem áður komnir upp í 17 milljónir og greiðsluhallinn er áætlaður nær 1 millj. þegar fátækrabyrðin hefir vaxið um meira en þriðjung; og þegar ekkert nema óvæntur stórvinningur í happdrættinu getur bjargað ríki og þjóð frá örþroti, eins og síðastl. sumar, — þá skora ég á ríkisstjórnina að þvo að minnsta kosti þennan smánarblett af sér.

Hin nýríka stjórnarstétt verður að þola það a. m. k. eitt ár, að búa við sömu kjör og aðrir menn í landinu.