15.10.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, fjárlög 1938

*Fjmrh. (Eysteinn Jónason) Út af þeim orðum, sem hér hafa fallið um afstöðu Framsfl. til annara þingflokka, vil ég taka það fram, að yfir standa samvinnuumleitanir milli Framsfl. og Alþfl. um framhaldssamstarf. Um þær er ekkert hægt að segja enn. Ég tel þess vegna, að umræður um það mál eigi ekki heima hér að sinni. En þegar reynt er að láta líta svo út, sem forsetakosningar komi því máli eitthvað við, verður að segja þetta:

Það var samkomulag, sem átti upptök sín hjá fleiri flokkum en einum, að taka upp venju, sem er ríkjandi á Norðurlöndum, um það, að fyrri varaforsetar séu valdir úr hópi stjórnarandstæðinga. Getsakir um, að þarna sé samvinna „ komin á“ milli Framsfl. og Sjálfstfl., eru þess vegna alveg tilefnislausar.

Út af samanburði hæstv. atvmrh., Haralds Guðmundssonar, á fjárveitingum til atvinnuvega við sjó og í sveitum, verð ég að benda á það, að þess konar samanburður segir í raun og veru ákaflega litið. Fjárveitingar til atvinnuvega verða að fara eftir því, hvar brýnust þörf liggur fyrir. Undanfarið hefir þörfin verið mest hjá landbúnaðinum, til þess að stöðva með umbótum flótta fólksins úr sveitunum. Og enn er sá straumur ekki stöðvaður.

Hitt er rétt,að ýmsar greinar sjávarútvegs þurfa stuðnings við. Hæstv. atvmrh. hélt því fram, að í fjárlfrv. hefði átt að taka upp ákveðnar fjárveitingar í þessu skyni. En það er ekki hægt að setja þar slík ákvæði nú þegar, vegna þess að ekki eru komnir á neinir samningar milli Alþfl. og Framsfl. um stjórnarsamvinnu — og í rauninni ekki byrjaðir.

Ég mun varla þurfa að deila alvarlega við hv. 5. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, þar sem hann þóttist ekki vera í neinum vandræðum að skófla svo sem fimm milljónum inn í ríkissjóðinn. Ég veit, að þessi ræða, sem hann hélt, hefir verið haldin oft áður. Ég hygg, að t. d. í franska þinginu séu þingmenn kommúnista búnir að flytja hana nokkrum sinnum. En þar styðja kommúnistar, þegar til alvörunnar kemur, þá stjórn, sem horfist í augu við virkileikann, eins og hann er, og tekur á málunum eins og hægt er að framkvæma þau. Ég skal lofa hv. 5. þm. Reykv. að heyra dálítið af því, sem franska stjórnin hefir gert með stuðningi flokksbræðra hans. Hún hefir hækkað tekjuskattinn um ein 20%, — en hann vildi hækka hann hér um 100%; það væri aðeins fimmfalt meiri aukning en fært er talið í Frakklandi. — Hún hefir neyðzt til að hækka ýmsa tolla og skatta, sem bitna að miklu leyti á almenningi, eins og t. d. framleiðsluskatt og skatt á fólksflutninga- og vöruflutningsbílum. Hækkuð eru fargjöld með járnbrautum, sem eru að nokkru leyti ríkiseign, ennfremur farmgjöld, burðargjöld bréfa, viðtækt stimpilgjald verð á tóbaki og eldspítum (um 20%) hjá ríkiseinkasölum o s. frv. Önnur hlið er svo niðurskurður útgjalda, svo að nemur 6000 milljónum franka, einungis á aukafjárlögum síðara helming þessa árs. Verklegar framkvæmdir, ásamt ýmsum liðum til landvarna, hafa verið færðar niður alls um 8000 milljónir franka. Þetta virtist nauðsynlegt til að fá tekjuhallalaus fjárlög. Kommúnistar styðja stjórnina í því. Þeir sjá ekki annað fært en að leggja fram lið sitt til að sjá fjárhag ríkisins borgið og halda framleiðslunni gangandi, hvað sem kröfum flokks þeirra liður. — Menn geta svo borið þetta saman við ræðu hv. 5. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, og séð muninn á því, hvernig hægt er að tala um hlutina, og á framkvæmdum stjórnar, sem styðst við kommúnista. (EOl: Hún á eftir að gera betur).

Ég undraðist ræðu eins hv. þm., Þorsteins Briems, — þm. Dalamanna held ég hann heiti núna. (ÞBr: Jú). — Það þarf furðanlega ósvífni til, að hann skuli koma hér fram sem stjórnmálaflokkur — eða fyrir flokk. Hann var ekki kosinn af sínum flokki. Það fullyrða töluglöggir menn, að hann hafi fengið um 70 atkvæði frá sinum flokki — ein 70 atkvæði —. Samt skreið hann. Í stað þess að fara með róg um ýmsa menn í Framsfl. hefði hann átt að segja, hvernig hann er eiginlega hingað kominn og í hverra umboði hann situr hér.

Honum ógnaði, hvað fjárlögin væru há. Svo illskaðist hann dálítið yfir nokkrum liðum, sem áður hefðu verið á fjárl., en búið væri að fella niður. Ef það væri aldrei hægt að sleppa útgjaldaliðum, sem komizt hafa á fjárlög einhverntíma á síðasta áratug, heldur stæðu þeir þar til eilífðar, þá er ég hræddur um, að fjárl.frv. yrði að vera hærra en það er núna. Aðeins eitt vil ég minnast á sérstaklega, af því að það er viðkvæmt mál. Hann sagði, að það fé, sem varið var til varna gegn borgfirzku pestinni, hefði farið í ómaklega staði og sumar sýslur orðið algerlega útundan. Ég vil, að allir viti það, að skiptingin var gerð með samkomulagi milli þingmannanna í þeim héruðum, sem áttu hlut að máli, og að þeir þingmenn áttu sæti í öllum flokkum.

1. þm. Reykv. (Md) talaði langt mál, eins og hann hafði rétt til. Fjárlagaræður hans hafa verið eins eða svipaðar í 9 ár og sáralítið nýtt á þeim að græða. Hann sagði, að frv. hefði skotið frjóöngum síðan í vor. Honum láðist að geta þess, að þær hækkanir eru nær undantekningarlaust gerðar eftir tillögum fjvn., og meira að segja með samþykki sjálfstæðismanna í nefndinni. Þessu gleymir hann auðvitað að segja frá.

Það þurfti ekki á honum að halda til að sjá, að ríkissjóð skortir tekjur til að greiða með afborganir af föstum lánum síðustu tvö ár. Ríkissjóður hefir ekki gert betur en að fullnægja kröfum líðandi árs. Ef hv. 1. þm. Reykv. hefir ekki spurnir af hliðstæðri stofnun, sem ekki hefir getað fullnægt þeim kröfum án nýrra lána, gæti hann kynnt sér fjárhagsástand Reykjavíkurbæjar og hvernig bæjarsjóðurinn hefir greitt af sínum skuldum þessi tvö ár.

Auðvitað getur Landsbankinn ekki haldið áfram endalaust að bera skuldaþunga opinberra stofnana. Þar verður að leita annara úrræða tafarlaust.

Þeir félagarnir, hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Dal., halda sér enn við fullyrðingarnar um, að ég hafi gefið villandi skýrslu um greiðslujöfnuð við síðustu áramót. Þeir halda því fram, að neitað hafi verið óhjákvæmilegum vöruinnflutningi fram yfir nýár í fyrra vetur, til þess að greiðslujöfnuðurinn um áramótin liti betur út, og að þetta hafi hefnt sín áþreifanlega með óhagstæðum greiðslujöfnuði framan af yfirstandandi ári. Þetta er rangt. Það eru kannske ekki vísvitandi ósannindi hjá þessum hv. þm., en það er engu síður rangt og búið að leiðrétta það. Gjaldeyrisnefndin veitti leyfin nákvæmlega eftir sömu reglum fyrir áramót eins og eftir. — Þeir segja, að vöruþurrð í árslok 1936 hafi leitt til óvenjulegs innflutnings í ársbyrjun 1937. En það er hægt að sanna það beinlínis með tölum, teknum úr Hagtíðindunum, að þetta er tilhæfulaust. Innflutningurinn á þrem fyrstu mánuðum ársins 1937 er svo að segja nákvæmlega eins og þrjá mánuði ársins á undan. Og að hækkun sú á innflutningnum árið 1937 fer fyrst að koma fram þegar komið er fram í apríl og maí. Haldi því hver maður fram, sem vill, að það sé venja hér á þessu landi, að kaupa inn þær vörur, sem á að nota í maí og júlí, fyrir áramót veturinn á undan. Nei, þetta er ekkert annað en lélegar tilraunir til þess að gera lítið úr þeim árangri, sem þó náðist á árinu 1936, og þetta er sannast að segja til lítils sóma þeim, sem að því standa.

Þá ætla ég að minnast á þjóðnýtingarkenningu hv. 1. þm. Reykv. Það er nú búið að finna nýja skilgreiningu á hugtakinu þjóðnýting, svo að þjóðnýting er þá kölluð öll hækkun á ríkisútgjöldum og opinberum útgjöldum. Hv. þm. breiddi sig út yfir það, að framsóknarmenn væru langt komnir á þessari þjóðnýtingarbraut. Náttúrlega gerði hann ekkert til að sýna fram á, að Sjálfstfl. hefði beitt sér á móti þeim greiðslum, sem hafa hækkað útgjöldin síðan 1926, því að hann talaði líka eins og hann hefði ekki heyrt ræðu mína í dag — sennilega af því að hann hefir komið með allt skrifað. En vill hv. þm. ekki athuga það, hvernig framkvæmdirnar í hans eigin flokki t. d. hér í Reykjavík koma heim og saman við þjóðnýtingarkenninguna, sem hann flutti hér áðan. Ríkisútgjöldin hafa hækkað um 58% síðan 1926, en útgjöld Reykjavíkurbæjar, sem stjórnað er af „þjóðnýtingarmönnum“ í Sjálfstfl., hafa hækkað um 100% (MJ: Mest fyrir lagasetningar Alþingis!) Ég held ég þekki svörin! En þetta er algerlega rangt, — af þeim einföldu ástæðum, að langsamlega minnstan part af þessum útgjöldum hefir Reykjavík orðið að inna af höndum vegna laga frá Alþingi. Þvert á móti hefir Reykjavík á þessu tímabili fengið framlög upp í fátækraframfærið gegnum atvinnubótavinnuna. Það er bezt fyrir hv. 1. þm. Reykv. að tala sem minnst um þetta, því að það kemur illa heim við reynsluna, t. d. við reynsluna, sem menn hafa á stjórn Reykjavíkurbæjar (MJ: Reykjavík er eini staðurinn á landinu, sem ekki hefir notað allt sitt atvinnubótafé).

Ég mun nú vera að verða búinn með minn tíma, en ég verð þó aðeins að víkja að einu, sem hv. 1. þm. Reykv. kastaði fram og átti að vera ákaflega sterk röksemd. Hann sagði, að ég skyldi spyrja þá að því, sem hafa misst fé sitt úr sauðfjárpestinni, hvort ætti að hækka skatta og tolla, — og þá, sem hafa rekið sjávarátveg með tapi. Já, spyrjum þá, hvort er betra, að ekkert sé gert af hálfu Alþingis til þess að styðja ykkur, sem hafið orðið fyrir þessu tjóni, eða gera eitthvað verulegt og komi þá einhver gjöld á hina, sem ekki hafa orðið fyrir þessum búsifjum? Því að það vitum við allir jafn vel, að þó að gjöld komi almennt niður, þá er það ekki nema ofurlítið brot, sem þessir menn bera, svo að það er alltaf stór hagsbót fyrir þá, þó að þeir verði einhver gjöld að bera í þessu skyni.