17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

10. mál, fasteignamat

*Magnús Jónsson:

Hv. 1. þm. N. M. var ekki við, þegar ég mælti fyrir brtt. mínum á þskj. 121, en ég var búinn að hafa orð á því við hann, að ég mundi flytja þær. Fyrir fyrri brtt. færi ég sérstaklega þá ástæðu, að ég sé ekki neina tryggingu fyrir samræmi í mati hinna ýmsu héraða. þó að sömu menn yrðu látnir fara um landið allt til að taka þátt í matinu. Eftir hverju eiga þeir að meta? Ég veit, að það er alltaf hægt ,að meta eftir heyfeng, veiðiskap og þess háttar tölum, sem upp eru gefnar. En þetta hefir mismunandi verðmæti eftir því, hvar er á landinn. Hvernig fæst trygging fyrir því, að. þessir menn geti, betur en innanhéraðsmenn, fundið rétta verðhlutfallið milli eins héraðs og þess næsta hlutfallið milli eðlilegs jarðaverðs t. d. í Borgarfirði, Suður-Múlasýslu eða á Vestfjörðum? — Ég er alveg óviss um, að það verði sérlega gott samræmi, sem fengist með þessu ákvæði frv., ef brtt. mín nær ekki samþykki. En ég hygg, að kringum allt land séu menn farnir að fá þá æfing í að framkvæma fasteignamat, eftir þær tvær aðalmatsgerðir, sem fram hafa farið, að nú sé nokkurn veginn skapaður grundvöllur undir vel samræmt mat.

Hv. flm. taldi þetta vera deilu um keisarans skegg, því að landsnefndin hefði, hvort sem væri, valdið í þessum sökum, eftir því, sem hún teldi þurfa. Ég held, að hún hafi það ekki nema innan þess ramma, sem undirnefndirnar skapa henni. Ef hún á að byrja á matinu, eins og frv. gerir ráð fyrir, getur hún alveg ráðið hæð þess; hún getur látið allar jarðeignir í landinu hækka eða lækka eins og henni þóknast. En ef hún kemur fyrst til sögunnar eftir að undirnefndirnar eru búnar að meta, hefir hún ekki vald til annars né meira en að samræma gerðir þeirra. Og hennar hlutverk er að samræma. — Ég vil benda hv. þm. á, hvaða braut hér er farið inn á. Næsta skrefið yrði, að ein nefnd yrði látin meta allar jarðeignir á landinu. Og ég veit ekki, hvort menn eru undir það búnir að fylgja þeirri landsmálastefnu í þessu efni og öðrum eða langar til, að hún sigri.

Auk þess skilst mér ekki betur en að hér sé um verulegan kostnaðarauka að ræða. Það yrði ekki lítill ferðakostnaður og dagpeningar, sem yfirfasteignamatsnefndin þyrfti til að fara slíkar langferðir og dvelja svo lengi, sem þyrfti til þess að meta fasteignir í hverju matsumdæmi og sjá til þess, að það leiðbeiningarmat kæmi undirnefndunum að tilætluðum notum. — En fyrir utan kostnaðinn af þessu ákvæði í frv. getur það gert mikið ógagn með því, að valdið er tekið af undirmatsnefndunum og fengið í hendur landsnefndinni.

Þá er síðari brtt. mín. Það er fyrirkomulagsatriði og að nokkru leyti sparnaðaratriði. Formanni yfirfasteignamatsnefndar er ætlað að hafa fast árskaup, sem ekki er ákveðið nánar í frv. En ef það á að hlaða á hann öllu því gífurlega starfi, sem fylgir matinu í Reykjavík, verður að ætla honum annað og hærra árskaup en ef hann starfaði aðeins í yfirnefndinni. Og svo þegar þarf að úrskurða kærur úr Reykjavík, verður nauðsyn að fá til þess varamann í yfirnefndina og borga honum. Ætli þá fari ekki að saxast á það, sem sparast með fyrirkomulagi hv. flm? Ætli það verði ekki litið eftir? Og allur sá sparnaður hans yrði ekki nema lítið brot af því, sem fer í kostnað, ef brtt. mín við 2. gr. verður ekki samþ. — Ég held, að það sé að öllu leyti bezt að láta yfirfasteignamatsnefnd vera alveg utan við undirmatið hér í Reykjavík, eins og annarsstaðar, láta hana aðeins vera yfir-„instans“ í þessum efnum.