24.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Sigurður Kristjánsson [frh.] :

Út af ræðu hv. flm. þessa máls vildi ég bæta nokkrum orðum, við það, sem ég sagði í gær.

Hv. flm. sagði, að eitt af höfuðatriðum frv. felist í þeim styrk, sem ætlazt væri til, að veittur væri úr fiskimálasjóði til nýtízku togara. Það mun vera svo, að þetta mun vera eitt af samningsatriðunum milli stjórnarflokkanna, alveg eins og það á sínum tíma var höfuðatriðið til skilnaðarins milli þessara flokka, sem leiddi til þingrofs, því að það var a. m. k. aðalatriðið 1 grg. ríkisstj. fyrir samningsslitunum, sem hún sagði, að orðin væru fyrir þingrofið, að flokkana greindi á um þjóðnýtingu á atvinnuvegunum, og þó sérstaklega á sjávarútveginum. Nú hafa þessir flokkar aftur tekið saman og eru byrjaðir á ný að stjórna landinu, sem þeir raunar aldrei hættu við, en þá hlaut þetta sýnilega að verða eitt af samningsatriðunum, og nú er á það að líta. hvernig flokkarnir hafa komizt frá því að semja um þá hluti, sem varð þeim að skilnaði nú fyrir rúmlega hálfu ári síðan.

Hv. frsm. sagði, að ætlazt væri til, að byggðir væru tveir nýtízku togarar, og taldi Alþfl. hafa orðið að hafa forgöngu um þetta af þeirri ástæðu, að núv. togaraeigendur sinntu því ekki.

Það er eðlileg ástæða til þess, að núv. togaraeigendur geta ekki bætt við sig skipum. Bæði er það, að togaraútgerð hefir ekki borið sig, eins og margsinnis hefir verið bent á, og það er varla þess að vænta, að menn auki mjög við þann atvinnuveg, sem annars er rekinn með tapi. Í annan stað er það vitað, að togaraeigendur eins og aðrir útgerðarmenn, eru búnir að eyða eigum sínum í að halda uppi togaraútg., til þess að bæði landslýðurinn, sem hyggir afkomu sína á þessari atvinnugrein, og ríkið, sem byggir á henni tekjur sínar, gæti haldizt við. En því fer mjög fjarri, að togaraeigendur séu því mótfallnir, að atvinnurekstur þessi verði látinn fylgjast með tímanum og sé á hverjum tíma rekinn með nýtízku aðferðum. Líklega er enginn atvinnurekstur hér á landi, sem sannar það sjálfur, að þeir, sem fyrir honum hafa staðið, hafa opin augun fyrir því, að atvinnurekstur þarf að vera rekinn með nýtízku tækjum, og það er ákaflega einkennilegt, að jafnframt því, sem sjávarútvegurinn er svo að segja eini atvinnureksturinn hér á landi, sem hefir komizt í það horf, að vera rekinn með nýtízku aðferðum, og þar af leiðandi í afköstum gert svo mikil afrek, sem kunnugt er, að það er einmitt þessi atvinnurekstur, sem hefir orðið fyrir látlausum ofsóknum af hendi ákveðins stjórnmálaflokks í landinu, Alþfl., flokks, sem þó þykist vera að sjá fyrir hag aðallega þeirra manna, sem hafa lífsuppeldi af þessum atvinnuvegi. Annars virðist þessi flokkur hafa fengið þá áminningu, sem hann þurfti, því að sú mikla skriða, sem féll af honum við síðustu kosningar, sýnir, að lýðurinn er sínum foringjum framar.

Í þessu sambandi er hægt að færa fram sannanir fyrir, að útgerðarmenn eru alls ekki fallnir í neitt kyrrstöðuspor fram yfir það, sem fjárhagsörðugleikar þeirra hafa sett þá í. Það er vitað, að skammt er síðan einn útgerðarmaður hér á landi varð fyrir því óhappi, að missa togara, sem hann átti, og það er viðurkennt, að þessi útgerðarmaður vildi fá að verja tryggingarfénu til þess að festa kaup á nýtízku togara, en hann fékk það ekki. Ég hefi ekki heyrt getið um, að Alþfl. hafi látið það mál sig nokkru skipta, en ef hann hefir ekki spillt því, þá hefir hann þó a. m. k. ekki bætt fyrir því. Hann fékk ekki að gera það, sumpart af því, að féð mundi ekki hafa hrokkið, heldur hefði hann orðið að njóta einhvers atbeina lánsstofnana eða annara. En ég held, að þessi krafa um að færa atvinnureksturinn í nýtízkuhorf, hafi aldrei komið í neinni alvöru frá þeim mönnum, sem eru nú að burðast með þetta frv. Hún hefir komið frá útgerðarmönnum sjálfum, og það er eðlilegt, því að þeir hafa miklu meiri skilning á þessu.

Ég skal ekki sakast um, þó að Framsfl. færði nú við þetta nýja brúðkaup Alþfl. þennan heimanmund. Hann er miklu minni en Alþfl. hafði upphaflega farið fram á, svo að segja má, að hvorir tveggja hafi orðið að ganga undir mjög eftirminnilegt jarðarmen. Mikið skal til mikils vinna, og þetta nýja samband er ekki of dýru verði keypt með því jarðarmeni. En ég efast stórlega um, að þessi heimanmundur verði að miklu í höndum brúðgumans. Í fyrsta lagi er, að það, sem áskilið er, að á móti komi, 15% af kaupverði togarans, það er óviðunandi, að sá, sem á að vera eigandi fyrirtækisins, eigi að leggja fram minna en styrknum nemur. Og þó það yrði fært upp í 25%, þá er ekki víst, að þau 50%, sem á vantaði, yrðu gripin upp. Ég er hræddur um, að það verði ekki á næstu árum, sem þetta léttir undir með atvinnulífinu í landinu. Hitt efast ég ekki um, að það fé, sem kemst í hendurnar á fiskimálanefnd, er hægt að kveðja í hinzta sinn fyrir árslok 1938, eftir því sem hún hefir verið afkastamikil að koma fyrir kattarnef því fé, sem henni hefir verið fengið til umráða.

Ég skal ekki tefja tímann lengur í þetta skipti, en þó að ég geti lýst yfir, að ég er því fylgjandi, að leitað sé ráða til að koma þessum atvinnuvegi í nýtízku horf, þá tel ég ófarsvaranlegt að ætla af hinni litlu gjaldgetu ríkissjóðs, útgerðarmanna og fiskeigenda að henda hálfri millj. kr. meira í fiskimálanefnd, eftir þeirri reynslu, sem við höfum á því, hvernig hún fer með það fé, sem henni er trúað fyrir. Þar af leiðandi er þetta eitt nóg til að gera frv. gersamlega óviðunandi. Og þar að auki er það óskiljanlega frekt, ef löggjafarþingið leyfir sér að gefa fiskeigendum slíkt hnefahögg sem þetta, beint ofan í ályktanir og áskoranir þings allsherjarfélagsskapar þessara manna. Þetta álít ég ósæmilegt fyrir Alþingi að gera.