09.12.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1938

*Steingrímur Steinþórsson:

Mér var tjáð, að þessari umr. væri að verða lokið, þar sem flestir, sem hér eiga brtt. við fjárlagafrv., hefðu tekið þær aftur til 3. umr. Ég á að vísu enga brtt. við fjárlagafrv. við þessa umr. En ég álít rétt, einmitt af þeirri ástæðu, að segja hér nokkur orð, og það vegna vissra liða í fjárlagafrv., sem snerta sérstaklega þá stofnun, sem ég veiti forstöðu. Geri ég það þá með það fyrir augum, að hv. fjvn. taki það til sérstakrar athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki væri að einhverju leyti hægt þar úr að bæta.

Ég vil fyrst minnast á framlagið til Búnaðarfélags Íslands. Fyrir nokkrum árum nam það framlag úr ríkissjóði 240 þús. kr. Þá var starfsvið félagsins víkkað afarmikið og starfsmönnum við það fjölgað, og ríkið varpaði þá af sér yfir á Búnaðarfélagið mjög mörgum störfum, sem áður höfðu a. n. l. verið unnin af ráðuneytinu. Nú hefir þessi fjárveiting til Búnaðarfélags Íslands verið lækkuð niður í 200 þús. kr., og síðan niður í 180 þús. kr. En til þess er þó ætlazt af Alþ. og ríkisstj., að Búnaðarfélagið haldi nákvæmlega jafnmiklum störfum uppi eins og það gerði áður með 210 þús. kr. framlaginu. Ég vil því beina til hv. fjvn. og Alþ. í heild að athuga, að annaðhvort hefir félagið, meðan það hafði þessa hærri fjárveitingu, ekki farið allskostar vel með það fé, sem því hefir verið veitt, eða þá að nú er Búnaðarfélagi Íslands ómögulegt að halda áfram öllum þeim störfum, sem því af Alþ. hefir verið fyrir sett, eða því ber að gera eftir fyrirmælum ráðuneytisins, sem gildir nokkuð sama. Enda verður það að segjast, að það er algerlega óhugsandi, að Búnaðarfélag Íslands geti haldið uppi þeirri leiðbeiningarstarfsemi annarsvegar, sem ráðunautar þess hafa innt af hendi, og hinsvegar framkvæmt ákvæði ýmissa 1., sem því af ríkisvaldinu er gert að framkvæma, ef það fær ekki meira fé úr ríkissjóði en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það er alveg óhugsandi. Ég vil geta þess, að þegar þessi lækkun var gerð á tillaginu árið 1936, úr 200 þús. kr. niður í 180 þús. kr., þá var hægt með sérstökum sparnaðarráðstöfunum að láta þessa upphæð duga. En fyrir yfirstandandi ár er þetta alveg óhugsandi, sem stafar í fyrsta lagi af því, að búnaðarþing, sem kemur saman annað hvert ár og kostar 10–14 þús. kr. í hvert skipti, verður aukakostnaður fyrir Búnaðarfélagið það ár, sem það er háð. Í þessu sambandi vil ég einnig minna á, að á þessu yfirstandandi ári hefir verið um merkisatburð að ræða í sögu búnaðarsamtakanna hér á landi, því að í ár eru liðin 100 ár síðan fyrstu búnaðarsamtökin voru mynduð hér á landi, er „Hús- og bústjórnarfélag suðuramtsins“ var stofnað, sem voru fyrstu verulegu búnaðarsamtökin hér á landi og önnur búnaðarsamtök hér hjá okkur í raun og veru hafa myndazt af. Má því telja það hinn fyrsta vísi til Búnaðarfélags Íslands. Þessa afmælis var minnzt í sumar af Búnaðarfélaginu, en slíkt var ekki hægt að gera án þess að það kostaði töluvert fé. Þessi kostnaður varð fullar 30 þús. kr.; þar af yfir 20 þús. kr. til útgáfu minningarrits. Ég verð að álíta, að það sé ekki ómerkilegt að gefa út slíkt minningarrit á 100 ára afmæli búnaðarsamtakanna. Aftur mun eitthvað koma inn fyrir bókina, en líklega tiltölulega lítill hluti tilkostnaðar, þannig að allmikill kostnaður kemur á félagið vegna þessa. Það er því sýnt, af þessum sérstöku ástæðum, að þessi 180 þús. kr. fjárveiting á þessu yfirstandandi ári hrekkur alls ekki til, af þessum tveimur ástæðum, kostnaðinum við búnaðarþing og hinsvegar af þessu afmæli.

Það er einnig sýnt, að ef framlagið til Búnaðarfélagsins verður það sama næsta ár, 180 þús. kr., þá er ekki nema um eitt að gera fyrir félagið, að segja upp töluverðu af sínum starfsmönnum. Og þá býst ég við, að félagið verði að neita að framkvæma eitthvað töluvert af þeim málum, sem það nú framkvæmir í umboði ríkisvaldsins, t. d. framkvæmd búfjárræktarl. o. fl. Því að ef ekki er fé fyrir hendi til þess, þá getur félagið vitanlega ekki gert það. Ég sé alls ekki, að unnt sé fyrir Búnaðarfélag Íslands að leysa þann hnút, að geta haldið uppi starfsemi sinni á næsta ári á sama grundvelli og nú með því fjárframlagi, sem því nú er ætlað. Vil ég í þessu sambandi einkum nefna einn lið af útgjöldum Búnaðarfélagsins, sem orðinn er mjög tilfinnanlegur, sem landmælingastarfsemin og leiðbeiningar á sviði jarðræktar. Eftir slíkum leiðbeiningum hefir verið svo mikil eftirspurn, að nú á síðustu árum hefir Búnaðarfélagið haft tvo ráðunauta í þjónustu sinni þess vegna, Pálma Einarsson og annan mann. Eftirspurnin eftir þessari leiðbeiningarstarfsemi hefir ekki verið aðeins úr sveitum landsins, heldur jafnvel meiri úr kaupstöðunum. Því að sú ræktunarstarfsemi, sem framkvæmd hefir verið þar, er byggð á starfsemi þessara manna, af því að þeir eru búnir að mæla út löndin og gera áætlanir um ræktunarkostnaðinn. Þessi landmælinga- og leiðbeiningarstarfsemi kostar nú um 25 þús. kr. á ári; úthaldið fyrir einn mann kostar 12–13 þús. kr. Það er gefið, að ef ekki er lagt fram meira fé en 180 þús. kr. yfir árið til Búnaðarfélags Íslands, þá verður það að fella niður allmikinn hluta þessarar starfsemi, sem ég verð að telja mjög illa farið, því að það getur ekki verið meiningin, að þær ræktunarframkvæmdir, sem gerðar verða í landinu, skuli verða fálm út í loftið án þess að nauðsynleg undirbúningsáætlun og undirbúningur undir starfið að öðru leyti hafi verið gerður. Ég lýsi því hér með yfir sem framkvæmdarstjóri Búnaðarfélags Íslands, að ég sé ekki leið til þess, að Búnaðarfélag Íslands geti haldið uppi því starfi næsta ár, sem því er ætlað samkv. l. og fyrirmælum ráðuneytisins, með því framlagi úr ríkissjóði, sem því nú er ætlað, 180 þús. kr.

Ég vil í þessu sambandi einnig minna hr. fjvn. á það, að stjórn Búnaðarfélags Íslands hefir sérstaklega farið fram á það við hv. fjvn., að hún vegna 100 ára afmælis Búnaðarfélagsins, sem minnzt var nú í sumar, vildi mæla með því, að félagið fengi í tilefni af því dálítinn aukastyrk vegna þess aukakostnaðar, sem af því leiddi, að það var hátíðlegt haldið. Og ég legg áherzlu á það hér, að hv. fjvn. taki upp slíka till. Það er áreiðanlega ekki nema einu sinni á öld, sem Búnaðarfélag Íslands á slíkt afmæli sem þetta. Ég álít varla sæmandi, að Alþ. synji að sýna lít á að styrkja þetta. Alþ. hefir áður veitt smástyrki einmitt í sambandi við afmæli, og það þó ekki væri um eins merkilega markasteina að ræða eins og 100 ára afmæli búnaðarsamtakanna í landinu. Vil ég mjög ákveðið beina því til hv. fjvn., að hún fyrir 3. umr. athugi, hvort hún vill ekki taka upp í fjárl. aukaframlag til Búnaðarfélagsins vegna þessa afmælis. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að fjárl. verði lokað svo að þessu sinni, að ekki verði tekið upp á þau eitthvert tillag vegna þessa.

Þá vil ég líka minnast á aðra starfsgrein, sem ekki snertir Búnaðarfélag Íslands beint, þó að hún sé a. n. l. rekin í sambandi við það. Það er sandgræðslan. Hv. fjvn. hefir nú lagt til, að framlag til hennar verði aukið úr 27 þús. kr. upp í 30 þús. kr. Ég verð að þakka þá viðurkenningu, sem þar hefir komið frá hv. fjvn., um að of naumt hafi áður verið skammtað til þessara hluta. Ég verð líka að segja það, að frsm. fjvn. gat þess réttilega, að svo vel hefði verið farið með það fé, að leitun mundi að öðru eins. Ég vil benda á það, að að mínum dómi er ekki hægt einu sinni að halda við þeim sandgræðslusvæðum, sem nú eru, nema frekari fjárveiting komi til og að þetta verði hækkað meira, eða upp í 35 þús. kr. Ég held það væri mjög misráðið, ef þessum svæðum væri ekki haldið við, þar sem með þessu er verið að gera tilraunir til að verja mikil landsvæði fyrir þessum mikla vágesti, uppblæstrinum. Ég hefi tekið eftir því, að eftir till. n. er skógræktin komin upp fyrir sandgræðsluna. Það er síður en svo, að ég sé að telja eftir skógræktinni, en ég álít, að það sé varhugavert að klípa mjög af sandgræðslunni, jafnvel þó það gangi til jafnnauðsynlegra hluta eins og skógræktar, sem er að vissu leyti hliðstæð starfsemi.

Þá vil ég enn beina orðum mínum til fjvn. í sambandi við enn einn lið, sem snertir landbúnaðinn, en það er búfjárræktin. Til hennar eru ætlaðar 56 þús. kr., en búfjárræktarstyrkurinn er veittur samkv. sérstökum l. frá 1933.Nú skal ég lýsa því yfir, að það er ómögulegt að framkvæma þessi 1. á næsta ári, ef ekki verður hækkuð þessi fjárveiting úr 56 þús. kr. upp í 62–65 þús. kr. Þetta stafar af því, hve mörg sveitarfélög hafa farið eftir þeim tilmælum Alþ. að stofna með sér fóðurbirgðafélög, en það er nú talið það heppilegasta form, sem fundizt hefir til að tryggja búpeninginn fyrir fóðurskorti. En samkv. búfjárræktarl. skal veita styrk til þessara félaga. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að það er áætlað í fjárlagafrv. 15 þús. kr. til fóðurtryggingarsjóða. Nú hafa engin sýslufélög orðið til að stofna fóðurtryggingarsjóði, og er ekki líklegt, að það verði gert. Þess vegna tel ég, að þennan lið mætti fella niður, en hinsvegar verði framlagið til búfjárræktarinnar hækkað um nokkuð af þeirri upphæð. Ég tel, að 65 þús. mundi nægja á næsta ári.

Ég skal þá ekki orðlengja um þessa liði frekar. Ég veit, að fjvn. hefir í mörg horn að líta, og ég veit, að hún hefir haft fullan vilja á að sýna þessum liðum sóma, en hefir hinsvegar ekki séð sér það fært. Ég vildi með þessum orðum benda á þær leiðir, sem ég taldi heppilegastar til að bæta úr fyrir þessum málum á næsta ári.

Ég vildi þá minnast á eitt atriði, sem þessu er óskylt, en ég vil einnig beina til hv. fjvn., af því að ég hefi ekki flutt brtt. við það heldur. Það er viðvíkjandi stað norður í Skagafirði. Það hefir verið stofnað félag norður í Skagafirði og deildir á nokkrum öðrum stöðum sem vinnur að því, að komið verði upp héraðsskóla í Varmahlíð, sem liggur í miðju héraðinu. Varmahlíð er einhver æskilegasti staður fyrir slíkan skóla. Ríkið keypti fyrir nokkru jarðhitasvæðið þarna, en það er tekið út úr jörðinni Reykjahóli. Nú stendur svo á, að eigandi Reykjahóls vill selja jörðina. En það er nauðsynlegt, að þessi jörð sé opinber eign og verði til afnota fyrir fyrirhugaðan skóla. Það eru þess vegna tilmæli okkar þm. Skagf., að fjvn. vildi taka upp í fjárl. heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa Reykjahól, ef viðunandi samningar næðust. Það mundi e. t. v. vera talið svo, að jarðakaupasjóður gæti keypt jörðina, en það mun ekki vera svo, enda mundi hún ekki verða keypt á sama grundvelli og þær jarðir, sem hann kaupir, heldur aðeins til að tryggja, að þessi jörð verði opinber eign. Mér er kunnugt um, að eigandinn muni geta selt jörðina einstökum mönnum, ef þessi heimild fæst ekki. Ég geri hinsvegar ráð fyrir, að jörðin muni fást fyrir fasteignamatsverð, af því að eigandinn hefir löngun til þess að hún geti orðið til afnota fyrir væntanlegan skóla. Ég bar, eins og ég sagði áðan, ekki fram brtt. við þetta, en vildi mega vænta þess, að fjvn. tæki þetta til greina. Ég get svo látið máli mínu lokið.