18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1938

Ísleifur Högnason:

Ég vildi ræða um nokkrar brtt. á þskj. 428. Fyrst er það IV. liður, við 15. gr. 24., um 600 kr. til Leikfélags Vestmannaeyinga, gegn a. m. k. jafnmiklu framlagi frá Vestmannaeyjakaupstað. Ég sé, að leikfélög í öllum helztu bæjum landsins fá styrk til starfsemi sinnar. Félagið í Vestmannaeyjum hélt uppi leikstarfsemi allan siðasta vetur. Og þótt ekki sé séð, hvort framlagið frá bæjarsjóði Vestmannaeyja verði greitt, vonast ég til þess, að Alþingi vilji efla þessa starfsemi í Vestmannaeyjum eins og í öðrum stærstu kaupstöðum landsins.

Annað er IX. liður, við 16. gr. 11, með leyfi hæstv. forseta: „Til að styrkja tilraunastarfsemi bæjar- og sveitarfélaga og einstaklinga í ýmsum verklegum framkvæmdum (þar af til vatnsöflunar fyrir Vestmannaeyjabæ 25 þús. kr.) 75 þús. kr.“ Hv. þm. Borgf. minntist á það í ræðu sinni í dag, hverjir örðugleikar steðji að bæjum eins og Akranesi, þar sem ekki er gott neyzluvatn fyrir hendi. Í Vestmannaeyjum er svo sem ekkert vatn hægt að fá úr jörð, og mjög spillt það, sem er. Það nægir á engan hátt þörfum bæjarins. Alþingi hefir einu sinni veitt lítils háttar styrk til úrbóta. Féð fór að öllu leyti til sérfræðings, sem rannsakaði skilyrðin, en úr framkvæmdum hefir ekkert orðið ennþá. Ég ætlast til, að hv. Alþingi líti með sanngirni á þetta nauðsynjamál. Vitanlega er það hér um bil eins dæmi hér á landi, að ekki sé nóg vatn til. Vatnið, sem nú er notað í Vestmannaeyjum, er látið renna af húsþökum og getur orðið mjög óheilnæmt, gruggugt af göturyki og sóti, spillt í sumarhitum og raunar alveg óhæft drykkjarvatn.

Tilgangur þessa 75 þús. kr. liðs er í öðru lagi sá, að gerðar verði tilraunir í bæjum um hagnýtingu orkulinda. Sérstaklega vil ég nefna móvinnslu. Það er eðlilegt, að nú mæti það nokkrum skilningi, hver nauðsyn er að hagnýta orkulindirnar. — Hér hefir verið samþ. ábyrgðarheimild fyrir láni til rafveitu fyrir Akureyrarkaupstað, 2 millj. kr., sem ég var mjög fús að greiða atkvæði mitt, því að ég tel takmarkið vera að losa sem flesta af kaupstöðum landsins við hinn erlenda hitagjafa, kolin. Það er vitað, að hér í grennd er víða góður mór, en ekki gerðar tilraunir til að hagnýta hann, svo að neinu nemi. En það mætti verða til þess að spara mikinn innflutning kola.

Þá er XX. liður á sama þskj. um nýjan lið við 17. gr. 7, 10 þús. kr. til dagheimila og sumardagheimila fyrir börn, og er þannig fyrir mælt, að ráðh. úthluti styrknum til þeirra félaga, sem um hann sækja og sanna, að þau séu fær um að reka slík heimili. Flest dagheimilin og dvalarheimili, sem stofnuð hafa verið, eru rekin frá Reykjavík. Það hefir sýnt sig, að heimilin eru til ómetanlegs gagns og auka hreysti og þroska þeirra barna, sem annars ekki komast í sveit yfir sumarið.

Þá er það síðasta brtt. mín á þskj. 428, XXXVI. liður, við 22. gr. XIV, og vil ég lesa hana með leyfi hæstv. forseta:

„Að ábyrgjast fyrir félög útgerðarmanna, sjómanna eða bæjarfélög lán til kaupa á nýjum dieselmótorskipum, 75–150 smálesta, er séu útbúin þannig, að á þeim megi stunda allar algengustu fiskveiðiaðferðir hér við land. Ábyrgðina má veita fyrir allt að 2/3 kostnaðarverðs skipanna, gegn 1. veðrétti í þeim, og fari ábyrgðir á árinu 1938 eigi fram úr 700 þús. kr.“.

Á þessu þingi hefir verið lýst með ómildum og ófögrum litum ástandi sjávarútvegsins. Úrbótatillögur, sem fram eru bornar, eru — að undanskildum frv. og hótunum um gerræðislegar breytingar á rekstri síldarverksmiðjanna, til að svipta sjómenn hluta af verði aflans, og um vinnulöggjöf — mestmegnis tillögur um skattalétti, bygging nýrra verksmiðja til hagnýtingar á afla og möguleika til togarakaupa. Inn á hitt hefir of lítið verið komið, að bæta veiðiflotann þannig, að sem mestur afli fáist með viðráðanlegum stofnkostnaði útgerðar. Að mínu áliti eru togarar mjög óheppileg veiðiskip, eins og nú er málum komið. Í erlendum veiðiskipum hér við land eru langmest notaðar dieselvélar. Því fylgir sá höfuðkostur, að miklu minna lestarrúm fer undir olíuna en kolin, svo að skipið rúmar þeim mun meiri afla eða má vera þeim mun minna. Ég er sannfærður um, að það er eins óheppilegt og það er óeðlilegt að flytja kolin hingað 4–5 daga sigling til að knýja með þeim fiskiskip, sem kolanámuþjóðirnar sjálfar eru að gefast upp við að kynda með kolum. Enda getur afstaða okkar versnað margfalt frá því, sem nú er. Kolaþörf hvers togara nemur nálægt 2300 smálestum á ári að meðaltali, eða þörf þeirra allra h. u. b. 80 þús. smálestum á ári. Ef við gerum ráð fyrir, að það komi til Evrópustyrjaldar, getur kolaverðið orðið 300 kr. smálestin, eins og í síðasta stríði. Það gerir 24 millj. kr. útgjöld á ári á þessari einu vörutegund til útgerðar. Og ekki nóg með það, heldur gæti orðið ógerningur að ná kolunum frá nágrannalöndunum. Aftur á móti mundi ef til vill vera hægt að flytja olíu og benzín í stórum tankskipum frá Ameríku.

Það hefir komið fram frv. hér á Alþingi í þá átt að reyna að byrja á endurnýjun togaraflotans með því að kaupa tvo nýja togara. Ég mun ekki mæla móti því, að sú leið verði reynd. En ef velja ætti milli dieselmótorskipa og togara, þá teldi ég dieselmótorskipin tvímælalaust hagkvæmari. Ef hagskýrslur eru athugaðar, sést, að dieselmótorskip 75–150 smálestir að stærð eru ekki til í íslenzka veiðiskipaflotanum. Skip, sem eru 75 smálestir, gætu hæglega flutt ísaðan fisk til Bretlands. Og vegna þess, hve miklu minna lestarrúm þyrfti fyrir eldsneyti, gæti slíkt skip flutt 1000–1200 vættir fiskjar, eða jafnmikið og togari er vanur að flytja. En hver túr togarans kostar kringum 800 pd. sterling, en hver túr dieselmótorskips kostar ekki nema 250–300 pd. sterling. — Samkv. skýrslum, sem sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefir birt opinberlega, hefir meðalafli á hvern togara á síldveiðum verið 15–16 þús. mál, en rekstrarhagnaður ekki nema rúmlega 8 þús. kr. En af rekstri mótorbáta á síldveiðum varð miklu meiri ágóði, þó að á þeim væru borguð allt að því tvöfalt hærri laun til sjómanna. Og bezt báru sig þau skipin, sem nálguðust þessa stærð, en þó var ekkert þeirra fyllilega af þeirri gerð, sem hér er lagt til að útvega.

Þá ætla ég að drepa á þær veiðiaðferðir, sem stunda má með þessum skipum. Á þessum skipum er hægt að stunda allar veiðiaðferðir, síldveiðar með herpinót og reknetum og þorskveiðar með netum og lóð, og einnig til botnvörpuveiða. Það hafa að vísu ekki verið gerðar hér miklar tilraunir með veiðar á mótorskipum með léttri botnvörpu. En slíkar tilraunir hafa verið gerðar í stórum stíl í Bandaríkjunum og gefizt vel. Slík skip má hafa til veiða allan ársins hring, og auk þess geta þau flutt fiskinn millí landa. Mótorbátarnir eru of litlir til að vera verulega arðbærir.

Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda gerði líka áætlun um rekstur vélbáta við Faxaflóa og í Vestmannaeyjum, og gaf út skýrslu, sem sýndi rekstrarafkomu vélbáta á þessum stöðum tvö til þrjú síðustu árin. En mynd sú, er skýrslan gefur, er ekki rétt. Þar er ekki tekið meðaltal, heldur eru teknir bátar, sem höfðu sérstaklega slæma rekstrarafkomu. Auk þess verður að taka tillit til þess, að afli hefir brugðizt tvö síðustu árin hér á suðvesturlandi. En viðhald og endurnýjun mótorbátaflotans er miklu betri en togaraflotans. Stöðugt bætast við nýir mótorbátar, en engir nýir togarar. Gert er ráð fyrir, að togararnir, sem kaupa á í tilraunaskyni, eigi að kosta 700–800 þús. kr. En verð diesel-mótorskipa, eins og þeirra sem ég hefi lýst, er aðeins ca. 100000 kr., sé sætt beztu kjörum. Atvinnu á einum togara fá ekki nema 35–40 manns, en á mótorskip, eins og þau, sem ég hefi lýst, þarf alltaf 20 sjómenn á hvert, atvinnuaukningin mundi nema 200 sjómönnum. Þess má einnig geta, að togara yrði að kaupa frá erlendum skipasmíðastöðvum. Mótorskipin mætti smíða hér heima. Enginn efi er á því, að ef samið er um tíu skip í einu, má fá verðið svo niður, að það muni ekki miklu, hvort skipin séu smíðuð hér eða erlendis. Atvinnuaukning af smíði skipanna hér heima mundi verða svo hundruðum þúsunda króna skipti.

Þessi tillaga um viðreisn sjávarútvegsins er seint fram komin, en það er vegna þess, að rannsókn á skilyrðum slíks veiðiflola stendur enn yfir. Áhætta ríkissjóðs af þessari ábyrgðarheimild yrði ekki mikil, þar sem ríkissjóður á að fá 1. veðrétt í skipunum. Og hv. alþm. ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir leggjast á móti tillögu sem þessari.