22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. þm. Ak. sagði, að hann hefði búizt við, að við tækjum upp í brtt. okkar við mjólkurl. eina brtt., sem hann hefði flutt. Í stað 3000 l. mundi vera hægt að fallast á 2600 l. Eins og kunnugt er, var 3000 l. hámarkið sett á sínum tíma, því að meðalársnyt hér var meiri en það, og ég hefi ekkert við það að athuga, að farið sé eftir meðalársnyt á hverju sölusvæði.

Það gladdi mig, að hv. þm. G.-K. sagðist mundu taka með mikilli varfærni öllum nýmælum, sem kæmu fram í þessu máli, því að ég veit ekki til, að hingað til hafi komið annað frá honum í málinu en fljótfærni og ofstopi. Hann hefir sannarlega aldrei verið varfærinn og því fagna ég þessum miklu sinnaskiptum, sem hann virðist nú hafa tekið. Hv. þm. benti á nokkur atriði, en hafði ekkert til síns máls. Hann sagði, að öðru máli væri að gegna um ísl. staðhætti en erlenda. Þetta er rétt, en ég vil benda hv. þm. á, að samkv. 1. gr. mjólkurl. takmarkast verðjöfnunarsvæði að jafnaði við það, að hægt sé að koma mjólkinni daglega á sölustaðinn. Samgöngur hafa batnað hér svo mjög á síðustu árum, að engin tormerki eru á, að hægt sé að framkvæma þetta. Hitt er annað mál, að það geta komið fyrir flutningateppur. T. d. var síðastl. vetur ekki hægt að flytja mjólk ofan úr Mosfellssveit, þó að engin vandkvæði væru á flutningnum austan yfir Hellisheiði. Það hefir líka komið fyrir, að ekki hefir verið hægt að flytja mjólk á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, þó að það sé sjaldgæft. Þessi mótbára hv. þm. verður því lítils virði.

Önnur mótbára hv. þm. var sú, að bændur vestanfjalls hefðu stofnað búskap á dýrari grundvelli og þyrftu því hærra verð. Þetta er einkennileg kenning. Bændur, sem ráðast í dýrar framkvæmdir, eiga að fá hærra verð fyrir afurðirnar. Hvernig yrði verðið, ef ætti að miða við þetta? Samkv. þessari kenningu ætti t. d. að vera misjafnt verð á saltfiski eftir efnahag framleiðenda. Sér er nú hver vitleysan.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri öruggt, að hægt væri að fullnægja mjólkurþörf Rvíkur á þennan hátt. En það hefir verið svo t. d. í haust, að aðeins hefir verið hægt að fá 2/3 af neyzlumjólk bæjarbúa í Rvíkurumdæmi. Alla aðra mjólk hefir orðið að sækja upp í Borgarfjörð og austur yfir fjall.

Það liggur í hlutarins eðli, að þeir, sem hafa aðeins neyzlumjólk til sölu, eiga mest á hættu. Það er hægt að benda á eitt þorp hér í nágrenni Reykjavíkur, Akranes, þar sem mjólkurl. eru ekki framkvæmd. Þar er verðið komið niður í 17–18 aura. Ég er viss um, að Rvíkurverðið væri komið miklu lengra niður, ef ekki væru mjólkurl. Ég er sannfærður um. að sú endurbót, sem ætluð er með þessu, er nær eingöngu fyrir þá, sem næst búa sölustað.