09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Jón Pálmason:

Ég þykist nú vita, að það sé meiningin að gera þetta frv., sem hér liggur fyrir, að l. á þessu þingi með þeim breyt., sem fyrir liggja frá meiri hl. n. En þrátt fyrir það vil ég ekki láta málið fara svo út úr þessari d., að ég ekki segi um það nokkur orð almennt séð. — Það hefir nú gengið svo til með þetta mjólkurmál, að síðan ég komst á þing hefir það legið fyrir á hverju einasta ári í einhverri mynd, og mætti því ætla, að við, sem setið höfum á öllum þessum þingum, værum farnir að kynnast nokkuð þeirri deilu, sem um það hefir staðið. Hvað mig snertir, þá stend ég vel að vígi með að tala um þetta mál sem almennt landsmál, því að mínir hagsmunir og minna kjósenda hafa fram til þessa verið utan við þær deilur, sem um það hafa staðið, og vildi ég því fara um það örfáum orðum frá því sjónarmiði, því að hér er auðsjáanlega til þess ætlazt, að gengið sé lengra en áður inn á þá braut, sem byrjað var á með mjólkurlögunum, þegar þau upphaflega voru sett.

Það hefir oft verið að því vikið, og nú seinast töluvert við 2. umr. þessa máls, að við sjálfstæðismenn á Alþ. hefðum sýnt þessu máli andúð, en það er með öllu rangt. Deilan hefir aldrei staðið um það, hvort hér ættu að vera mjólkurlög eða ekki, hvort borga ætti verðuppbót til þess að jafna verðið o. s. frv., heldur um allt annað. Hún hefir staðið um það, hvernig ætti að haga stjórn þessara mála, og í annan stað, hvað langt ætti að ganga í því að jafna verðinu milli hinna einstöku framleiðslusvæða, en þó hefir deilan staðið fyrst og fremst og harðast um það, sem hafa verið framkvæmdaratriði á þessu sviði. Út í þetta skal ég ekki fara miklu nánar, en ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að mótmæla því sem algerlega röngu, að við sjálfstæðismenn höfum sýnt því andúð að koma heilbrigðu skipulagi á þessa hluti.

En það er eitt slagorð, sem upp hefir verið tekið í sambandi við þá deilu, sem staðið hefir á þessu og hinum síðustu þingum um enn frekari verðjöfnun en áður hefir verið, sem sé það, að sama verð skuli vera á sömu vöru á sama stað. Og ég hefi heldur engan heyrt mótmæla því, að þetta ætti svona að vera, enda held ég, að deilan standi alls ekki um það. Deilan hlýtur eðlilega að standa aðallega um hitt, hvaða breytingar eru gerðar, þegar vara, sem unnin er úr mjólk, kemur í allt annari mynd á markaðinn heldur en hún upphaflega var í. Nú kemur það í ljós samkv. grg. þessa frv., að síðan þessi l. voru sett, hafa hlutföllin milli vinnslumjólkur annarsvegar og neyzlumjólkur hinsvegar raskazt svo gífurlega, að verðjöfnunargjaldið hrekkur ekki líkt því til þess að skapa fullan jöfnuð. Líkur eru til, að þetta hlutfall breytist meira, ef lengra er farið inn á þá braut að hafa verðuppbótina misjafna. Þó sjálfsagt sé að hafa verðjöfnunargjaldið hærra á þá mjólk, sem hefir hagkvæma markaði, þá er samt vafasamt, hve langt á að ganga. Líklegt er, að eftir að neyzlumjólkin hefir minnkað í hlutfalli við vinnslumjólkina, verði verðjöfnunargjaldið hærra, og þá eru meiri líkur til, að búskapur, sem byggir á neyzlumjólk, geti ekki Horið sig. Það er þýðingarmikið að hugsa þá hugsun til enda, hvaða afleiðingar það hefði í framleiðslu okkar í heild, ef þessi regla yrði upp tekin. Ég sagði áðan, að mér væri það ljóst, að ef þessi reglu yrði upp tekin, yrði hún að vera viðtækt notuð. Segjum nú, að sú regla yrði tekin upp, að greiða framleiðendum sama verð fyrir mjólkina, í hverri mynd sem hún er sett á markaðinn, hvort sem unnið er úr henni eða hún seld beint sem neyzlumjólk. Þá getur endirinn ekki orðið annar en sá, að þetta fyrirkomulag hljóti að ná um allt landið. Ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að þetta verður afleiðingin, ef framkvæmdin á að geta orðið sjálfri sér samkvæm. En þá vaknar sú spurning, hvort ekki sé eins sanngjarnt að færa þetta fyrirkomulag yfir á aðrar framleiðsluvörur, t. d. að hafa sama verð á kjöti, hvar sem það er framleitt á landinu og í hvaða mynd það er sett á markaðinn, og verðinu jafnað milli þess, sem nýtt er selt, og þess, sem er selt niðursoðið. Það yrði sama fyrirkomulagið og hér á að setja á mjólkursöluna. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu heppilegt slíkt skipulag væri. En mér finnst fullt samræmi í því, eigi að bæta úr verðminni mjólkurvörum með því að taka af þeim verðmeiri. Það væri réttast, að þeir, sem sitja að Reykjavíkurmarkaðinum, borguðu svo hátt verðjöfnunargjald til okkar hinna, sem seljum á erlendum markaði, að hægt væri að jafna verðinu um allt land.

Ef farið verður inn á þá braut, sem frv. fer fram á, væri athugandi, hvort skipulagið ætti ekki líka að ná yfir þá mjólk, sem seld er í smærri kauptúnum; annars gætu þeir seljendur fengið hærra verð en aðrir fyrir sína mjólk.

Ég vil þá minnast á þau aðalatriði, sem uppi hafa verið í sambandi við þetta mál, og þá fyrst og fremst það, hverjir eigi að stjórna þessum málum. Sjálfst.menn hafa alltaf haldið því fram. að það væru framleiðendur sjálfir, sem ættu að stjórna þessum málum. Það er nú svo, að ég er samvinnumaður, hvað sem öðrum þóknast að kalla mig, og einn af merkari þáttum samvinnunnar hér á landi er einmitt samtökin um vinnslu og sölu á framleiðsluvörum lands og sjávar. En hér hefir það gerzt á undanförnum árum í mjólkurmálinu, að farið hefir verið út fyrir takmörk hinnar eðlilegu samvinnu, og ríkisvaldið látið skipa málunum. Það er sama sagan og um fiskinn. Þar var sett upp stjórnskipuð nefnd til að segja þeim mönnum fyrir verkum, sem framleiðendur sjálfir höfðu kosið sem forsvara sína. Þetta er mjög óheppileg aðferð að mínum dómi.

Ég skal þá víkja að þeirri brtt., sem ég og hv. þm. Borgf. flytjum við þetta frv. Ég skal taka það fram, að mín afstaða til frv. er sú, að það eigi ekki að ná fram að ganga. En með brtt. okkar tel ég þó, að það sé fært til betra horfs. Frsm. meiri hl., hv. þm. Mýr., sagði, að þessi brtt. væri léttvæg. Ég skal ekki svara því með mörgum orðum, en víkja að því, sem vakir fyrir okkur flm. með till. Hvað það snertir, sem sagt hefir verið um fyrstu brtt. okkar, um að ekki megi ákveða verðjöfnunargjaldið svo hátt, að það ofbjóði greiðslugetu gjaldenda, og að við ákvörðun gjaldsins eigi að taka tillit til mismunandi framleiðslukostnaðar innan sama verðjöfnunarsvæðis, skal ég viðurkenna, að það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að framleiðslukostnaður getur verið mismunandi í sömu sýslu, en ekki er hægt að gera ráð fyrir, að löggjöfin geti tekið til greina svo nákvæman mismun á framleiðslukostnaðinum. Þegar nú á t. d. að leggja þungan skatt á bændur hér í Gullbringu- og Kjósarsýslu til verðjöfnunarsjóðs, þá yrði að miða við það, sem ætla mætti, að væri meðaltalsframleiðslukostnaður í þeim sýslum. Það gefur svo verið upp og ofan, hve réttlátt það meðaltal er. En Búnaðarfélagi Íslands, sem hér á að fjalla um, er vel trúandi til þess að fara sem næst sanni. — Hv. þm. Mýr. sagði í þessu sambandi, að farið gæti svo, að verðjöfnunargjaldið færi niður í ekkert, og væri þá ofboðið aðstöðu þeirra manna, sem taka eiga við verðjöfnunargjaldinu. Samkv. lögunum má hafa þetta gjald 5–8%, og er það álitamál, hvort hægt er að hafa verðjöfnunargjaldið hærra en lög gera ráð fyrir. Um eins eyris uppbótina er það að segja, að það er efamál, hvort hún á nokkur að vera. En ef hún á að vera, þá er ekki sanngjarnt, að uppbót þessi nái bara til takmarka bæjarlóðar Reykjavíkur. Ég lít svo á, að það sé sanngjarnara að hafa það eins og við fórum fram á í brtt. okkar, og mér skildist á hv. þm. Mýr., að hann liti svipað á það mál. Þetta getur ekki orðið erfitt í framkvæmd, ef þær reglur verða um það hafðar, sem við leggjum til. Og réttast er að miða við það meðaltal mjólkurmagns, sem viðkomandi getur selt árið um kring.

Aðrar till. okkar eru um tekjuöflun í verðjöfnunarsjóð þann, sem hér er um að ræða. Ég get ekki fallizt á rök hv. þm. Mýr. hvað fóðurbætinn snertir. Það er tvímælalaust heppileg leið til þess að ná fé í verðjöfnunarsjóðinn, að leggja toll á innfluttan fóðurbæti, af þeim orsökum, að hið opinbera á ekki að ýta undir mjólkurframleiðslu, sem fyrst og fremst er byggð á erlendum fóðurbæti. Ég tel mjög heppilegt, að á þennan hátt verði aflað tekna í verðjöfnunarsjóð handa þeim mönnum, sem byggja framleiðslu sína á innlendu fóðri. Um framkvæmdaratriði þessa ákvæðis verður að fjalla í reglugerð, sem landbúnaðarráðh. gefur út. viðvíkjandi því, sem hv. þm. Mýr. sagði, að vel gæti farið svo, að þessi fóðurbætistollur lenti á þeim. sem nú eiga samkv. lögum að greiða hæst verðjöfnunargjald, er það að segja, að þetta mun verða mjög misjafnt í hinum einstöku sveitum, og algerlega fara eftir því, hvort hlutaðeigandi byggir framleiðslu sína á jarðrækt eða aðkeyptum fóðurbæti.

Viðvíkjandi brtt. um þurrmjólkina er það að segja, að líkur eru til, að á þessu þingi verði samþ. lög um þurrmjólkurvinnslu, og því vafasamt, hvort rétt er að blanda því ákvæði inn í lögin um meðferð og sölu mjólkur og rjóma. Ýmislegt mælir með því, en ýmislegt á móti. Með þessu móti er hægt að fá allmikið fé í verðjöfnunarsjóð, og það veitir ekki af miklu fé.

Ég mun þá ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég tel vafasamt, hvort rétt sé að samþ. frv. þetta eins og það er nú. Verði farið inn á þessa braut, má búast við, að það hafi viðtækar afleiðingar á allt skipulag afurðasölunnar innanlands.