20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Páli Zóphóníasson):

Herra forseti! Ég skal ekki lengja fundinn mikið. En það eru nokkur atriði, sem ég held ég verði að taka fram, og skal ég þá aðallega snúa mér að brtt. þeim, sem fyrir liggja.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 383, þá vil ég benda hv. flm. á það, að þetta ákvæði um ½ lítrann er hreinn vinningur fyrir framleiðendur mjólkur í bæjunum frá því, sem áður var. (GL: Það er of litið). Of lítið, segir hv. flm. Ég skal í því sambandi benda henni á það, að það eru til 2 litlir bæir á Þýzkalandi, sem nota meira en ½ lítra á mann á dag, en ekki einn einasti bær á Norðurlöndum, sem gerir það. Þetta er því fyrir ofan það meðaltal, sem notað er í nokkrum bæ á Norðurlöndum. Ég held því, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, fái í þessum ½ lítra töluverða réttarbót frá því, sem áður var; a. m. k. bygg ég, að hv. flm. muni telja það, og það er réttarbót, sem er það mikil, að hún er fyrir ofan þá meðalmjólkurneyzlu, sem á sér stað í bæjunum.

Um 2. brtt. vil ég segja það, að það er litill munur á því, hvort heldur er. Það leiðir af sjálfu sér, að það verður ekki talið heimildarleysi, ef einhver kona kemur með ½ lítra af rjóma til þess að gefa kunningjakonu sinni. Það verður talið sem heimild.

Það, sem mér þótti annars sérkennilegt í ræðum hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Hafnf., var það, að þeir óttast báðir, eða virðast báðir óttast, að af þessu frv. hljóti óhjákvæmilega að leiða hækkun. Nú skal ég ekki spá neinu um það. En ég er alveg viss um, að þegar mjólkurverðlagsnefnd á sínum tíma ræðir um það, þá talar hún ekkert um það í sambandi við þetta frv. Hún talar um það, hvað vöruverð hafi almennt hækkað. Hún talar um það í sambandi við það, hvort tilkostnaður við búskapinn hafi hækkað. Hún talar yfirleitt um það, hvaða réttlæti mæli með því, að mjólkin sé í þessu eða hinu verðinu, séð frá sjónarmiði bóndans og neytendanna. En hvað frv. sjálft snertir, þá verður aldrei á það minnzt. Þess vegna geta hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Hafnf. verið með frv., því það út af fyrir sig ræður engu um það, hvort mjólkurverðlagsnefnd hækkar verð á mjólkinni eða ekki. Það verður allt annað, sem þar verður lagt til grundvallar, enda er ekkert réttlæti í því, að þetta frv. komi neitt við það mál.

Annars er það dálítið gaman að heyra, hvað hv. 1. þm. Reykv., sem ég verð að telja einn aðalfulltrúa Sjálfstfl. í þessari d., segir um þetta frv. Hann virðist aðallega — líklega fyrir flokksins hönd — vera á móti þessu frv. af því það muni hækka mjólkurverðið, en í Nd. voru fulltrúar þessa sama flokks ákveðnir í því, að það næði ekki nokkurri átt annað en láta bændur sjálfa fá öll yfirráðin um að ákveða mjólkurverðið, því með því að hafa fulltrúa frá neytendunum, þá væri mjólkurverðið aldrei sett nógu hátt. Fulltrúar flokksins í annari d. vilja láta bændur ráða, hvað mjólkurverðið sé, því ef hinir ráði, þá sé mjólkurverðið of lágt, en í hinni d. talar fulltrúi Sjálfstfl. um það, að ef þetta frv. verði samþ. og þó neytendur hafi sömu áhrif á mjólkurverðið og þeir hafa nú, þá verði mjólkurverðið alltaf ot hátt. Mér finnst lítið samræmi í þessu hjá sjálfstæðismönnum. Ég geri ráð fyrir, að það séu tveir klofningar í flokknum, sem vilja sitt hvað, Eða hvort á frekar að trúa þeim, sem tala í Nd., eða þeim, sem tala í Ed. frá flokksins hálfu?