18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1938

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Það er aðeins lítil leiðrétting, sem ég vildi bera fram. Ég ætla raunar ekki að fara að blanda mér í deilu þeirra hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. Mýr. út af styrknum til stéttarbræðra minna. En hv. 1. þm. N.-M. kom fram með ásökun á okkur dýralækna, er hann sagði, að sá, sem hann vildi mæla með um að hljóta styrk, væri sá eini dýralæknanna, sem framkvæmt hefði ákvæði laga frá síðasta þingi. Það er mikil ásökun í garð okkar hinna dýral. að halda því fram, að við höfum sett okkur á móti landsl. Þetta væri vitanlega hart, ef satt væri. En sannleikurinn er sá, að þessi l. voru aldrei sett, eins og hv. þm. vill vera láta. Þau eru ekki til. Á síðasta þingi var borið fram frv. af hv. 2. þm. N.-M., og gekk það í þá átt, er hv. 1. þm. N.-M. vill vera láta, að orðið hafi að l. En frv. þetta dagaði uppi. Af þessu er ljóst, að við 4 embættisdýralæknar og Ásgeir Einarsson höfum hér ekki brotið í bága við nein l. Við getum ekki hafa brotið í bága við lagastaf, sem aldrei var til.