21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

21. mál, bændaskólar

*Jón Pálmsson:

Ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál hér fyrir löngu síðan, þegar það var til umr., í tilefni af ræðu, sem hv. 9. landsk. hélt. Satt að segja undrast ég það, hvað hv. Ed. hefir gert þetta að miklu kappsmáli, eins og í pottinn er búið. Því að ég fæ ekki betur séð en það byggist á furðulegri vanþekkingu að andæfa þeirri till., sem landbn. hefir samþ. Það, að fara fram á, að teknir séu í búnaðarskóla menn, sem aldrei hafa komið í sveit og aldrei unnið sveitastörf, er sama og fara fram á, að menn læri sögu án þess að hafa lært að lesa, eða hlutfallareikning án þess að hafa lært að leggja saman. Þess vegna er það gersamlega út í hött, sem hv. 9. landsk. var að tala um, að gengið sé að einhverju leyti á rétt meiri hl. landsmanna með þessari till. Og að þetta atriði hafi nokkur áhrif á það, að fólk sé að hópast úr sveitinni til kaupstaðanna, eins og nefnt hefir verið, — ég held, að þessum hv. þm. og öðrum flokksmönnum hans væri nær að líta á aðra hluti, sem hafa meiri áhrif í þessu efni en till. sú arna. Því að það er sannarlega ekki langt gengið í þessari till., að það megi veita undanþágu frá þessum ákvæðum, er sérstök ástæða er til. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta reki sig neitt á; a. m. k. hefir aðsóknin ekki verið það mikil fram að þessu. En ef hún fer að verða mikil, tel ég fullkomlega sanngjarnt, ef visa þarf frá einni eða fleiri umsóknum, að þá séu teknir fram yfir þeir, sem eru uppaldir í sveit eða hafa unnið landbúnaðarstörf. Þess vegna er undarlegt, ef valda þarf svo miklum ágreiningi um þetta mál, hvort þessi meinlausa till. er samþ. eða ekki samþ.