05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

88. mál, þilplötur o. fl. úr torfi

Flm. (Einar Árnason):

Með frv. þessu er farið fram á að veita Kaupfélagi Eyfirðinga einkaleyfi til nokkurra ára til þess að framleiða byggingarefni úr íslenzkum jarðvegsefnum. Á undanförnum árum hefir mikið verið rætt og ritað um það, hve mikla nauðsyn bæri til þess, að reyna yrði að framleiða íslenzkt byggingarefni til að spara hinn mikla gjaldeyri, sem þarf til þess að flytja inn allt það byggingarefni, sem við Íslendingar þurfum til að byggja upp hús í landinn. Hingað til hefir lítið orðið úr framkvæmdum í þessum efnum. Þó hafa ýmsar uppástungur komið um það, að framleiða mætti ýms byggingarefni hér á landi. Í þessu frv. er farið fram á að veita Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri einkaleyfi til að framleiða byggingarefni úr íslenzkum jarðvegsefnum. Kaupfélag Eyfirðinga hefir í undanfarin tvö ár gert allmiklar tilraunir til þess að fá rannsóknir á því, hvort hægt væri að framleiða þilborð úr íslenzkum jarðvegsefnum, sérstaklega úr svokölluðu reiðingstorfi. Þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið, á íslenzku reiðingstorfi, hafa aðallega verið framkvæmdar af sérfræðingum í Svíþjóð, og gefa þær mjög góðar vonir um, að úr reiðingnum megi vinna fleiri en eina tegund af byggingarefni. Það jarðvegsefni, sem hér er um að ræða, er einkum að finna í Staðarbyggðarmýrum í Eyjafirði, sem eru allmikið flæmi og Kaupfélag Eyfirðinga hefir gert nokkrar ráðstafanir til þess að fá umráð yfir, ef til þess kæmi, að hægt væri að koma upp verksmiðju til að vinna úr þessu efni. Sérstaklega hefir verið unnið að því, að búa til þilplötur eða þilborð, en auk þess önnur efni, t. d. einangrunarefni og pappa. Ég hefi hér fyrir framan mig sýnishorn af þessari framleiðslu, sem ég fékk fyrir viku síðan frá Svíþjóð, og sýnir þrennskonar efni: Þilborð, sem líkjast mjög því byggingarefni, sem nefnt er „masonit“, einangrunarefni, sem nota má í staðinn fyrir „kork“; og þriðja efnið er „Cellulose“, er hafa má til pappírsgerðar o. fl.

Ég vil gjarnan, að hv. dm. sjái þessi sýnishorn, til þess að þeir fái nokkra hugmynd um þá framleiðslu, sem hægt er að fá úr þessu efni. Þessar tilraunir, sem hafa verið gerðar. hafa vitanlega kostað mikið fé, og þeim er ekki lokið enn. Og það þarf að halda þeim áfram, og sérstaklega rannsaka það, hvort það borgaði sig fjárhagslega að reisa slíka verksmiðju, því að það er víst, að hún yrði mjög dýr og kostaði mikið stofnfjárframlag. Og það er þess vegna, að hér er farið fram á tuttugu ára einkaieyfi til að framleiða slíkt efni. Því að hugsazt gæti, að fleiri tækju fyrir að koma slíkum iðnaði á fót, sem krefðist í byrjun mikils stofnkostnaðar og óvíst um, að hægt væri að rísa undir.

Ég geri ráð fyrir því, að ýmsum kunni að finnast þetta nokkuð langur tími. En þess ber að gæta, að hér er lagt út í nokkuð mikinn kostnað. Ef slík verksmiðja sem þessi yrði sett á fót, verður hún vitanlega að vera í nánd við þann jarðveg, sem tekið er upp úr til vinnslu. Sú verksmiðja yrði rekin með rafmagni, og það er hugsað í sambandi við þá væntanlegu rafvirkjun fyrir Akureyrarkaupstað við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, og slík verksmiðja gæti veitt mikinn stuðning til þess að gera það fyrirtæki arðvænlegt. Ég sé í raun og veru ekki, ef á að vinna að þessu máli, að til séu nema tvær leiðir til framkvæmda. Önnur er sú, að veita einhverjum framtaksmönnum einkarétt um nokkurra ára bil til þess að koma þessu á fót. Hin leiðin er sú, að ríkið sjálft taki að sér þessar framkvæmdir. Og þegar um þessar tvær leiðir er að ræða, þá er ég á þeirri skoðun, að það sé miklu réttara að einstakir menn, sem líklegir eru til að hefja þessar framkvæmdir, fengju að ríða á vaðið og hrinda málinu áfram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. En mér hefir gefizt sérstakt tilefni til að minnast hér á ummæli í grg. frv., er svo hljóða:

„... Þar sem ekki er vitað, að neinn annar en Kaupfélag Eyfirðinga hafi haft með höndum tilraunir í líka átt og hér er um að ræða, virðist félagið eiga sanngirniskröfu til þess, að löggjöfin veiti því þann stuðning, sem nauðsynlegur er, til þess að mál þetta verði rannsakað og því komið í framkvæmd, ef lokatilraunir bera þann árangur, sem nú er búizt við, að slík framleiðsla hér geti orðið sett á stofn á fjárhagslega heilbrigðum grundvelli“.

Út af þessum ummælum átti húsameistari ríkisins tal við mig og skýrði mér frá því, að hann hefði áður látið sér detta í hug slíkt fyrirtæki, og að yfirhöfuð væri hægt að framleiða eitthvað því um líkt úr þessum jarðvegsefnum, og að hann hefði hafizt handa um tilraunir í þessa átt, áður en K. E. A. byrjaði sínar framkvæmdir. En þegar þessi grg. var samin, var ekki kunnugt um neinar framkvæmdir í þessu efni, og þess vegna álitum við, að það væri Kaupfélag Eyfirðinga, sem hefði átt frumkvæðið að þessu. Og það er langt frá því, að það sé ætlun okkar flm. frv. að fara að taka neina viðurkenningu frá húsameistara ríkisins, sem hann kann að eiga, fyrir að hafa fyrstur hugsað sér, að hægt væri að framleiða slíkt úr íslenzku torfi. Það er heldur ekki aðalatriði málsins. Við flm. erum heldur ekki að halda því fram, að engum öðrum hefði dottið slíkt í hug. Aðalatriðið er að koma hugmyndinni í framkvæmd, ef hún sýnist þannig vaxin, að hún geti borgað sig. Við teljum, að það sé miklu meira um það vert, ef hér er um þjóðhagslegt mál að ræða, að eitthvað sé gert í málinu til framkvæmda. Ég vil svo leggja til, að málinu verði vísað til n. að lokinni þessari umr. Það gæti verið að ræða um iðnn. og jafnvel allshn., og get ég gert tilI. um iðnn. En ef aðrir óska eftir einhverri annari n., get ég að sjálfsögðu fallizt á það.