03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1939

*Þorsteinn Briem:

Hv. þm. S.-Þ. mun hafa verið sendur hingað upp í ræðustólinn síðast til þess að gegna hlutverki hinnar afdönkuðu leikkonu, sem hann nú er. Hann mun hafa verið látinn tala nú, til þess að mér gæfist ekki tími til að svara hæstv. ráðh. fyrr en með nokkrum mínútum eftir miðnætti. Bændafl. mun ekki kippa sér upp við það, þótt hv. þm. S.-Þ. tyggi nú enn upp þetta sama, sem framsóknarflokksráðh. hafa alltaf sagt á hverju þingi, að Bændafl. sé dauður. Þeir lifa lengst, sem með orðum eru vegnir. Á meðan Framsfl. er í sæng með sósíalistum og hefir Kommfl. sér til fóta, þá mun Bændafl. eiga góð lífsskilyrði, því að stefna hans á framtíðina fyrir sér. Svo lífskröftug er stefna Bændafl., að hv. þm. S.-Þ. er nú horfinn frá villu síns vegar, þegar hann fordæmdi boðskap Bændafl., að framleiðendur yrðu að fá kostnaðarverð. Hv. þm. er nú farinn að taka annað slagið undir kjörorð Bændafl., að framleiðslan verði að bera sig. Ég fagna þessum framförum hv. þm. S.-Þ. Ég harma það, að hann skuli nú vera svo forsmáður í sínum flokki sem hann er. Það er leiðinlegt, að flokkur hans skyldi, þegar þurfti að kjósa mann í mesta virðingarsæti þingsins, forseta Sþ., velja þá þann manninn, sem fyrirlitlegast allra hafði talað um hv. þm. S.-Þ. hér á þessu þingi. Þeir virðast hafa gert þetta svo sem til að staðfesta fyrir sitt leyti orðin, sem hv. þm. Seyðf. var búinn að segja fyrir fáum dögum um hv. þm. S.-Þ., að sér væri sama hvorumegin hryggjar hann lægi. Og fyrst að hans eigin þingflokkur hefir þannig staðfest þessi orð, þá get ég látið nægja að taka undir þessi sömu orð með honum. — Hv. þm. S.-Þ. þóttist hafa skilað þjóðinni 10 millj. kr. hagstæðum verzlunarjöfnuði 1932. Hann fór frá völdum um mánaðamótin maí og júní það ár. Á þeim degi var verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 10400000 kr. En þeir, sem við tóku, gátu haldið svo á málum, að þeir gátu skilað 10400000 kr. hagstæðum verzlunarjöfnuði í árslok. Svona er nú sannleikurinn í öllu, sem hv. þm. S.-Þ. sagði. Hann ætti ekki að gera samanburð á fjármálum hjá sér og öðrum, því að hann mun fara því verr út úr því, sem hann fer lengra inn á þá brauf. Ég þarf svo ekki að tala meira við hann.

Þegar ég heyri hv. þm. S.-Þ. og hæstv. fjmrh. tala um fjármál landsins undir sinni stjórn, þá kemur mér í hug útlendur maður, sem veitti einu sinni íslenzku verksmiðjufyrirtæki forstöðu. Menn vissu, að fyrirtækið var að tapa, og sumir héldu, að það væri á heljarþröminni. En þegar hluthafarnir spurðu, þá var alltaf sama svarið hjá forstjóranum: „Það gengur bara gott“. Og annað svar var ekki að hafa hjá honum fyrr en fyrirtækið var komið á hausinn. Allt til síðustu daga a. m. k. hefir fjmrh. haft svipuð ummæli. Daginn, sem hann lagði lántökufrv. fyrir þingið, lækkaði að vísu risið dálítið rétt sem snöggvast. En nú virðist hann vera kominn á það lagið aftur að segja „það gengur bara gott“, og útlit fyrir, að hann haldi svo áfram, þangað til landið er komið á hausinn. Þeir hv. þm. S.-Þ. og hæstv. fjmrh. reyna nú sem fyrr að slá sér upp á því að deila á fyrrv. samsteypustjórn. Hún hafi ekki verið nógu dugleg að pína tolla og skatta af landsfólkinu. Hún hafi ekki ráðizt í stórræði, meðan heimskreppan var ægilegust, heldur reynt að fleyta þjóðinni yfir erfiðleikana án bægslagangs og yfirborðsháttar. Nú held ég, að þessari stjórn hefði verið eins gott að hafa lægra ris og lægra fali heldur er. nú er komið á daginn. Nú veit Framsfl. ekkert annað sér til bjargar en slá sér 12 millj. kr. lán. Árlega hafa fjárlögin hækkað. Og árlega hafa vaxið örðugleikarnir, þangað til nú er svo komið, að fáir sjá út úr þeim. Og sjálfur fjmrh. er nú orðinn eins og braskari, sem verður að velta því fyrir sér, hvar og hvernig hægt verði að fá nýtt lán til að fleyta sér yfir næsta misseri. svo að ekki verði gengið að honum sem vanskilamanni fyrir hönd landsins. Skal ég nú víkja að þessari lántöku. Ef á að taka þetta nýja lán, og reyndar hvort sem er, þá tel ég nauðsynlegt, að gerð sé gangskör að því að rannsaka allt fjármálaástandið og alla fjárhagsafkomu lands og þjóðar, til þess að komizt verði að öruggri niðurstöðu um, hvernig unnt sé að ráða fram úr vandræðunum. Það á ekki að velja til þeirrar rannsóknar þá, sem fremstir eru á oddi í flokkadeilum. Það á að velja til hennar glöggustu fjármálamennina eða menn með hagfræðilegri reynslu og þekkingu eftir tilnefningu eða í samráði við stærstu flokka þingsins. Ég tel rétt að taka mennina fremur utan þings en innan. Segjum t. d. að Framsfl. veldi Jónas Þór og Jón Árnason, sjálfstæðismenn hagstofustjórann og einhvern reyndasta og glöggasta mann á fjálmálasviðinu í sínum flokki, og alþýðuflokksmenn veldu einnig glöggan og gætinn mann úr sínum flokki. Og svo fengi þessi fjármálanefnd einn reyndan hagfræðing eða fjármálamann sér til aðstoðar frá einhverri af þeim þjóðum. sem við eigum mest viðskipti við og oss þætti mest undir komið, að eiga traust hjá. Og þessari fjármálanefnd væri svo falið að rannsaka ástandið ofan í kjölinn og komast að niðurstöðu um, hvernig hagað verði fjármálastjórninni hjá ríkisstjórn, bönkum og þingi, til þess að komizt verði aftur á réttan kjöl. Ég geri ráð fyrir, að eftir þá rannsókn yrðu það að vera óskrifuð lög hér á þingi, að rekstrarútgjöld fjárlaga mættu aldrei fara fram úr tiltekinni fjárhæð árlega, sem miðuð væri við gjaldþol þjóðarinnar og atvinnuveganna og þær afborganir fastra lána og lausaskulda og vexti, sem greiða þarf, til þess að þjóðin öðlist viðskiptatraust sitt aftur. Hitt yrði stjórnin og þingið að taka ákvörðun um í hvert sinn, hvernig þessum tilteknu rekstrarútgjöldum yrði skipt. En jafnframt yrði auðvitað að hafa þann hemil á stj., að umframgreiðslurnar yrðu sem minnstar. Það kynni að þykja hart aðgöngu fyrir þingið að handjárna sig þannig sjálft. En af tvennu er það þó betra, að setja sér af frjálsum vilja reglur, heldur en að þingið og stjórnin og öll þjóðin verði handjárnnð af erlendum skuldheimtumönnum. Það blessast aldrei lengi að hafa það eins og hv. þm. Ísaf. vildi hafa með ríkisbrennivínið og tóbakið í gærkvöldi, að slá sér fyrst út tóbak og brennivin, og láta svo vera að borga það á gjalddaga. Annaðhvort verður að láta vera að taka út brennivin og tóbak, sem auðvitað væri bezt, eða þá að borga það skilvislega eins og heiðarlegur borgari. Eins er með lánið. Annaðhvort verður að láta vera að taka nýtt stórlán, eða við verðum að athuga möguleikana á því að geta borgað það.

Við verðum með óvilhallri rannsókn og kaldri og rólegri yfirvegun að komast að niðurstöðu um það, hverju þarf að breyta í afgreiðslu fjárlaga, stjórn gjaldeyrismálanna og í öllum fjármálum lands og þjóðar, til þess að geta staðið sem heiðvirðir og ábyrgir menn að þessari 12 milljóna lántöku, í stað þess aðeins að sökkva enn dýpra og stofna til enn meiri óreiðu. Mér finnst framkoma fjármálaráðh. í öllum þessum málum vera næsta fálmandi og óljós. Hann hefir sett sér það sem aðalverkefni að koma á svo hagstæðum greiðslujöfnuði, að vér gætum fullkomlega staðið í skilum við útlönd. Hann hefir margsagt og lagt á það áherzlu, að þessi greiðslujöfnnður hafi náðst bæði árin 1936 og 193 7, þó að nú sé orðið nokkurt hik á.

Árið 1935 var tekið lán, og af því hefir fjármálaráðh. sjálfur sagt, að hálf 4. millj. hafi verið flutt inn eða verið sem raunverulegt gjaldeyrislán. Gerum nú ráð fyrir, að það hafi gengið upp í halla ársins 1934. En 1935 var líka nokkur hluti Sogslánsins fluttur inn fyrir innlendum kostnaði. og er sá hluti lánsins því gjaldeyrislán, sem kom upp í greiðsluhalla þess árs. 1936 er enn flutt inn af Sogsláninu fyrir hérlendum kostnaði, og er það því líka gjaldeyrislán. og ætti það þá að hafa bætt upp til fullnustu halla ársins á undan. En 1936 og 1937 hefir tekizt að ná fullum greiðslujöfnuði, eftir því sem hæstv. fjmrh. hefir sagt sjálfur.

Hvað er þá eiginlega að, ef treysta má orðum hæstv. fjmrh.? Er ekki allt í lagi. Eða skilst mér það ekki rétt, sem hæstv. fjmrh. hefir sagt og er enn að reyna að segja, að það „gangi bara gott“. Jú, ef orðin ein væru nóg. En svo koma bara staðreyndirnar, sem sýna, að komið er í baklás. Og mér skilst, að þó að hæstv. fjmrh. kannist ekki við þessar staðreyndir í orði, þá hafi hann viðurkennt þær svo sem bezt má á borði með þessari 12 milljóna lántöku, þar sem öll von er gefin upp um greiðslujöfnuð á næstu 3 árum. Hæstv. fjmrh. hlýtur að sjá, að hann er hér kominn í lokaða kví milli sinna eigin orða og ólukku staðreyndanna. Öðru megin hefir hæstv. ráðh. sín eigin orð: „Allt í lagi. Það gengur bara gott“. Hinum megin er staðreyndin: vanskilaskuldir ríkisstofnananna og hinar innifrosnu erlendu skuldir, sem safnazt hafa í bönkunum.

Mér fær ekki skilizt, hvernig hæstv. fjmrh. hyggst að komast úr þessari sjálfheldu. Hitt skilst mér betur. hvernig hann er í hana kominn. Hann er svo í hana kominn, að hann veit ekki eða hefir ekki vitað, hvað hinar duldu greiðslur eru miklar. Og því hefir hann alveg rennt blint í sjóinn um það, hvað hægt væri að leyfa mikinn innflutning, til þess að fullur greiðslujöfnuður næðist. Þetta staðfestist af orðum hæstv. fjmrh. sjálfs, því að þau eru ekki á einn veg um þetta atriði.

Í fjárlagaræðunni 1935 segir hann: „Greiðslur okkar til útlanda aðrar en fyrir vörur, eru 7–8 millj. meiri en innborganir frá útlöndum, aðrar en fyrir andvirði vara“. (Alþt. 1935. B. 30).

Hér telur hann þá duldar greiðslur vera 7–8 millj.

1936 segir hann enn í fjárlagaræðu:

„Fullum greiðslujöfnuði hefir ekki verið náð á árinn (þ. e. 1935). Til þess að slíkt takizt, þarf verzlunarjöfnuðurinn sennilega að vera hagstæður um 8 millj.“ (Alþt. 1936. B. 28–31). 1938 segir hann í Nýja dagbl. 24. febr.:

„Mér virðist allt benda til þess, að hallinn á duldu greiðslunum muni nema allt að 10 millj., ef afborganir af föstum lánum eru taldar með“. — En þær eru taldar vera 5 millj.

Fyrir fáum dögum bað ég hæstv. fjmrh. þess, að þingið fengi vegna þessa ósamræmis í umsögnum hans að vita um álit Landsbankans um, hvað þessar duldu greiðslur hefðu verið t.d. nú síðustu ár. Hann svaraði því ekki, en lét sér nægja að lýsa því yfir fyrir þingheimi, að hann sjálfur gæti vel ímyndað sér, að þær væru í kringum 10 milljónir.

Þarna er ástæðan til þess, að hæstv. fjmrh. er nú kominn í þessa sjálfheldu, sem hann situr nú fastur í, — að hann hefir ekki vitað um duldu greiðslurnar nema það, sem hann á hverjum tíma gat ímyndað sér. Í þessa sjálfheldu hefði hann ekki þurft að komast, ef hann hefði í tíma, eða um leið og hann hóf gjaldeyrisráðstafanirnar, aflað sér þeirra gagna, sem hann hefir sem fjmrh. allra mann bezt aðstöðu til að afla, um duldu greiðslurnar. Ég efast ekki Um, að svo töluglöggur maður sem fjmrh. er hefði með aðstoð bankanna getað komizt að nokkurn veginn niðurstöðu um þetta, í stað þess að ímynda sér eitthvað og eitthvað, svo að notuð séu hans eigin orð á þinginu fyrir fáum dögum. Þetta hefir hæstv. fjmrh. vanrækt, og það þótt hann vissi, að við þessar duldu greiðslur yrðu allar gjaldeyrisráðstafanir að miðast.

Hæstv. fjmrh. hefir því farið eins og manni, sem þekkir ekki það mark, sem hann vill stefna að, og lendir því í ógöngum. Og þegar hann sér, hvernig hann er staddur, þá verður hann eins og villtur maður. Það kemur fát á hann, svo að hann gerir ýmist að tala eins og hann hefir áður talað um að allt sé í lagi og gangi bara gott, eða hann gefur algerlega upp vonina og slær því föstu, að þjóðin geti ekki staðið við skuldbindingar sínar út á við nema með 12 millj. lántöku erlendis. Ég vil halda því fram, að það sé ekki einhlítt að búa við forsjá hæstv. fjmrh. eins í þessum málum. Ég vil halda því fram, að hér þurfi fleiri menn, og það menn, sem meira traust er í um þessi mál, að fjalla með honum. Og ég tel hæstv. fjmrh. mann að meiri, ef hann kannast við þetta.

Það kann að þykja harkalegt af Alþingi að handjárna fjármálaráðh. sinn. En það er þó bæði honum og þjóðinni betra en láta erlendan lánardrottinn handjárna hann aftur.