12.03.1938
Efri deild: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

57. mál, eftirlit með skipum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og sýnt er fram á hér í grg., skrifaði ráðuneytið 16. des. skipaskoðunarstjóra það bréf, sem sagt er frá í grg. á bls. 8. Sama dag var Alþýðusambandinu skrifað og send sú þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi, og óskað eftir, að það hlutaðist til um, að tilnefndir væru menn af sjómannafélögum í landsfjórðungunum til þessa starfs. Frá Ísafirði kom, að ég ætla, Árni Magnússon, frá Vestmannaeyjum Páll Þorbjörnsson, og frá Austfirðingafjórðungi kom enginn, en Alþýðusambandið tilnefndi í hans stað Sigurð Ólafsson, og Bjarni Stefánsson var tilnefndur af sjómannafélögunum í Reykjavík og í Hafnarfirði, svo að ég fæ ekki betur séð en að það hafi verið gert, sem hægt var í þessu efni, að svo miklu leyti sem unnt var að koma því við, þegar tillit er tekið til þess, hvað tíminn var stuttur og samgöngur örðugar. Frá sambandi farmanna- og fiskimanna var tilnefndur Ásgeir Sigurðsson, og til vara Konráð Gíslason og Guðbjartur Ólafsson.