21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

57. mál, eftirlit með skipum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Við 2. umr. þessa máls hér í hv. deild gerði ég grein fyrir brtt. þeim, sem ég flyt á þskj. 116.

1. brtt. mín er um það, að fella niður þá brtt. hv. meiri hl. sjútvn., að skipaskoðunarstjóri megi ekki hafa launuð aukastörf með höndum, nema með leyfi ráðh. Hvers vegna ég hefi flutt brtt. þessa, hefi þegar skýrt áður. Þá legg ég og til, að við b. lið nefndrar brtt. hv. meiri hl. verði gerð breyt., að því er snertir laun skipaskoðunarstjóra. Þar vil ég, að farinn verði millivegur á milli þess, sem mþn. leggur til, og till. hv. meiri hl., sem sé, að launin verði ákveðin 6 þús. kr., hækkandi upp í 8 þús. kr. Hinsvegar gerir mþn. ráð fyrir, að þau verði 10 þús. kr., en hv. meiri hl., að þau verði 5 þús. kr., hækkandi upp í 6 þús. Till. mína byggi ég á því, að hér er um ábyrgðarmikið starf að ræða, sem launa verður sómasamlega, svo að hlutaðeigandi starfsmaður þurfi ekki að hafa aukastörf á hendi, eins og eftirlit fyrir sérstök útgerðarfélög; allt slíkt tel ég, að geti rýrt álit hans. Með því að ákveða kaup skipaskoðunarstjóra 8 þús. kr., tel ég því mjög í hóf stillt, og til samanburðar má t. d. benda á að 1936, þegar lögin um matstjóra voru sett, voru honum ætluð þessi laun, og þó að starf hans sé án efa þýðingarmikið, þá er það þó síst þýðingarmeira en starf þessa manns. Og án þess að ég ætli að fara út í launajöfnuð eða samanburð, þá má þó benda á, að við margar ríkisstofnanirnar eru greidd hærri laun en hér er farið fram á, að verði greidd, og það þó fyrir miklu ábyrgðarminni störf.

3. brtt. mín er þess efnis, að fjölgað verði á skrifstofu skipaskoðunarstjóra um einn mann, sem verði aðstoðarmaður hans. Um þessa brtt. býst ég við, að hv. meiri hl. sjútvn. verði mér sammála. Það var nfl. upplýst fyrir n., að starf skipaskoðunarstjóra væri orðið svo erfitt og umfangsmikið, að hann gæti ekki rækt það fyllilega eins og til er ætlazt, nema með því að fá þessa aðstoð. Þá er það og tvímælalaus nauðsyn, sem ekki verður í móti mælt, að jafnan beri að hafa við hlið skipaskoðunarstjóra mann, sem sé vel kunnugur starfinn og geti því gripið inn í það, ef nauðsyn krefur, því að sjálfsögðu getur það komið fyrir, að skipaskoðunarstjóri forfallist frá störfum, eins og aðrir, og það mun einmitt vera þetta, sem hv. meiri hl. sjútvn. er fáanlegur til þess að taka til greina í sambandi við 3. brtt. mína.

Að sjálfsögðu legg ég mikla áherzlu á, að till. mínar verði teknar til greina, því að ég er ekki í efa um, að þær miða allar til góðs, miða að því að auka öryggi sjómannastéttarinnar.

Hvað snertir liðinn, 1800 kr. til skrásetningar, þá tel ég álitamál, hvort hann megi ekki falla niður. Kostnaðaraukinn af till. mínum myndi því ekki verða mjög tilfinnanlegur, rúmar 9 þús. kr. alls, sem áreiðanlega myndi ekki varið til ónýtis, heldur koma margfaldur aftur í auknu öryggi til handa sjómönnunum okkar. Ég teldi því Alþingi það mikinn heiður, ef það skæri ekki mjög við neglur sér fjárveitingar til þessara starfa.