03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

57. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég tók það reyndar ekki fram í framsöguræðu minni, en vildi hafa mátt segja að þetta frv. er sérstaklega undirbúið af skipaskoðunarstjóra ásamt fulltrúum frá stéttarfélögum sjómanna. Þess vegna er mikið öryggi í því fólgið, og skipaskoðun mun verða nokkuð betur framkvæmd heldur en verið hefir. Það er alkunnugt, að ekki alls fyrir löngu var keypt til Ísafjarðar skip frá Akureyri, sem verið hafði fyrir nokkru mannað á síldveiðar. Og þetta skip reyndist alls ekki sjófært. Það voru fúnir í því viðir og bitar á dekki, og yfirhöfuð var skipið þann veg farið, að það var betur komið á þurru landi heldur en á sjó. Þetta er lítið dæmi um það, að skipaskoðun hefir verið mjög mikið ábótavant; á þessu skipi hefði vel getað orðið stórslys um sumarið og ríkissjóður verður fyrir nokkuð miklu tapi á því, að vera í ábyrgð fyrir skipskaupunum. Um brtt. hv. á. landsk. get ég verið stuttorður. Ég held, að brtt. hans séu næsta þýðingarlitlar, a. m. k. 2 fyrstu þeirra, því að skoðunarmaður getur ekki samkvæmt 7. gr., 4. og 5. málsgr., veitt neina undanþágu fyrir skip til að fara á flot, nema um minni háttar galla sé að ræða, sem hafi áhrif á haffæri skips; því er ekki nema réttmætt og sanngjarnt, að gefinn sé frestur til að kaupa það, sem til þarf. Það er t. d. um björgunarbelti eða þessháttar, að þau fást ekki á öllum stöðum úti um land, og þá er ekki nema sanngjarnt, að mönnum sé gefinn frestur til þess að kaupa þau o. fl. Vitanlega má það ekki vera of langur frestur. Enda er í lögum gert ráð fyrir því, að skipaskoðunarmaður skuli tafarlaust kæra, ef ekki er búið að ganga frá þessum göllum innan tiltekins tíma, og hann megi ekki framlengja frestinn nema með leyfi skipaskoðunarstjóra. Ég álít, að með þessu frv. sé fengin full trygging fyrir því, að þetta verði ekki misnotað.

Viðvíkjandi brtt. hv. 5. landsk. við 8. gr. virðist fullkomlega gert nægilega ráð fyrir því, að þeir, sem kynnu að kæra yfir göllum á skipi, verði ekki fyrir óþægindum, með ákvæði, sem er í lögunum. Þegar svo einnig á öðrum stað í frv. er gert ráð fyrir því, að hver geti snúið sér til síns stéttarfélags og fengið umkvörtun sína borna fram fyrir þess milligöngu. Ég álit þess vegna, að þessar till., sem hv. 5. landsk. boðaði við frv., séu í raun og veru óþarfar. — Viðvíkjandi því, að skipaskoðunarmaður megi í engum kringumstæðum vera skipaeigandi eða útgerðarmaður, af því að hann sé þá kominn í stétt útgerðarmanna og muni endilega falla fyrir þeirri freistingu að misbeita sínu valdi, þá vil ég benda á, að á mjög mörgum stöðum er hæpið, að hægt sé að fá nægilega kunnáttumenn til skipaskoðunar, sem ekki eru annað hvort skipaeigendur eða útgerðarmenn. En rétt væri þó, að gengið væri mjög fram í því, að sneiða heldur hjá slíkum mönnum til starfsins. En fari svo, að ekki sé völ á öðrum, verður að vera nægileg trygging fyrir, að þeir skoði ekki í neinum kringumstæðum sín eigin skip. Ég skal svo ekki fjölyrða um þessar brtt. Það verður tækifæri til þess, þegar þær koma fram.