08.04.1938
Neðri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hafði ekki búizt við að þurfa að tala mikið meira um þetta mál við þessar umr., en ræða hv. þm. Ísaf. hefir gefið mér tilefni til að fara nánar út í málið. Eins og ég hefi skýrt frá, tala ég hér sem formaður Dagsbrúnar og í umboði þess félags.

Mér þykir það undarlegt, að hv. þm. Ísaf., sem er í Alþfl., skuli koma með þá yfirlýsingu, að hann leggi ekki kapp á að fá neinar breyt. á þessu frv., þegar búið er að viðurkenna það, að helmingur af þeim félögum, sem leitað hefir verið álits um málið, er því mótfallinn. Ég hygg nú, að það sýni sig, þegar málið kemur til allshn., að þetta sé meira en heimingur. Það er þess vegna harla undarlegt, að menn, sem eiga heima í sambandsstjórn, skuli líta svo á, að þeim beri engin skylda til að taka tillit til þess vilja, sem fram kemur hjá félögunum. Það er náttúrlega hægt að segja, að þetta sé í samræmi við þá rúmu samþykkt, sem gerð var á sambandsþinginu, en það er þó einn liður í þessu, sem hægt er að segja, að sé gengið berlega á móti samþykktum sambandsþingsins. Það er viðvíkjandi verkfallsréttinum. Og það er einmitt sá liður, sem verkalýðsfélögin leggja mikla áherzlu á. En í sambandi við það vil ég geta þess, að sumir menn á þinginu voru algerlega á móti hvers konar vinnulöggjöf, þó að endanlega yrði þetta samþ. Og meðal þeirra eru einmitt menn eins og sá maður, sem hv. þm. Ísaf. hefir mjög talað um í þessu sambandi, Hannibal Valdimarsson á Ísafirði. Hann var mjög á móti því á sínum tíma, að svona löggjöf yrði samþykkt. En hann hefir nú, m. a. vegna afstöðunnar gagnvart Framsfl., snúizt mjög einkennilega í þessu máli, eins og öðrum málum. Annars var þar talað um, einmitt í umr. viðvíkjandi vinnulöggjöfinni, allt önnur mál heldur en þessi launadeilumál.

Það er eins og hv. þm. geti aldrei skilið það, að þegar þeir sækja svo margt til fyrirmyndar við samningu þessarar löggjafar í erlend l. um svipað efni, þá taka þeir sér til fyrirmyndar löggjöf, þar sem allt öðruvísi stendur á um atvinnuhætti og annað, sem taka verður til greina í sambandi við setningu vinnulöggjafar, ef hún á að verða sanngjörn, heldur en hér á landi. Má í því sambandi m. a. nefna það, að jafnframt því, sem þar hefir verið samþ. vinnulöggjöf, að ýmsu leyti þröng gagnvart stéttarfélögunum, þá hefir einnig verið samþ. önnur löggjöf, sem hefir í sér fólgin mikil hlunnindi til handa verkalýðnum, svo sem ákvæði um ýmiskonar tryggingar, um vinnutíma o. fl. Þar sem slík löggjöf er hér ekki fyrir hendi, er ekki hægt að bera þetta saman, þ. e. setningu vinnulöggjafar þar og hér, eins skilyrðislaust og gert hefir verið af ýmsum hv. þm. hér á Alþ. Það er því óskynsamlegt af verklýðsflokkunum að leggja áherzlu á þann hluta þessa frv., sem leggur sérstaklega skyldur á herðar verkalýðsins, án þess að hann fái tilsvarandi hlunnindi á móti. Nú er rétt að geta þess, að á þeim till., sem samþ. eru á flokksþingi um þessi mál, er vitanlega það rétta og sjálfsagða að leita samþykkis Alþýðusambands Íslands, og æðsta vald þess er alþýðusambandsþingið. En þegar þetta frv. er sent út til verklýðsfélaga til umsagnar, er sent út með því bréf, undirritað af forseta og ritara alþýðusambandsstjórnarinnar. Og það er ekki elnu sinni búið að bera þetta bréf upp til endanlegrar samþykktar í alþýðusambandsstjórninni, hvað þá heldur á alþýðusambandsþinginu. Það er því undirritað fyrir hönd alþýðusambandsþingsins í algerðu óleyfi, sem hefir blekkjandi áhrif á ýms verklýðsfélög úti um land. Og erindreki Alþýðusambandsins er sendur út til félaganna í þeim tilgangi, að fá þau undir öllum kringumstæðum til að samþ. frv. eins og það liggur fyrir og breytingalaust. Það er því ekki hægt að segja, að það sé „loyal“ framkoma gagnvart verklýðsfélögunum þetta, eða gagnvart verkalýðnum víðsvegar um land. Það er eins og það hafi átt undir öllum kringumstæðum að fá samþ. vinnulöggjöf á hendur verkalýðnum í landinu, hvað sem hagsmunum verkafólksins í landinu gat stafað mikið öryggisleysi af henni. Það er vegna þess, að sumir hv. þm. Alþfl. lögðu það mikið upp úr því, að eiga þátttöku í ríkisstjórninni, að þeir vildu svo að segja allt til þess vinna. Og þeir munu hafa álitið, að samþykkt vinnulöggjafarinnar væri einn þátturinn í því að tryggja þessa þátttöku. En það sýndi sig nýlega, eins og svo oft áður, hvað útreikningar þeirra eru vitlausir, að þeir í sambandi við löggjöf um vinnudeilumál nýlega misstu mann sinn úr ríkisstjórninni. Svo verður samþ. löggjöf um vinnudeilur, með eða án þeirra breyt., sem komið hafa óskir um frá verkamönnum. En ég skoða mig ekki bundinn við slíkt, heldur eingöngu það, sem ég hygg heppilegt fyrir verkalýðinn í þeirri faglegu baráttu, sem hann þarf að heyja, ef hagsmunaréttindum hans er stofnað í hættu. Ég mun koma með brtt. við frv., og afstaða mín til þess fer eftir því, hvernig þeim verður tekið.

Ef menn líta á þetta mál óhlutdrægt, án þess að taka fyrir fram flokksafstöðu til þess, þá get ég ekki séð, hvernig flokkur eins og Framsfl., sem á ekki að vera óvinveittur verklýðssamtökunum í landinu, gæti ekki samþ. þær brtt.

Þá vil ég víkja að frv. sjálfu.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ég vildi lítið gera úr þeim réttindum, sem þar væru bókfærð. Ég skal að vísu játa, að á pappírnum eru þarna ýms réttindi. En ég met meira, hvaða réttindi verklýðsfélögin hafa í raun og veru, heldur en hvaða réttindi þau hafa á pappírnum. Og ég held, að með samþykkt þessa frv. væri ekkert það lögfest, sem a. m. k. meiri hluti verklýðsfélaganna hefir ekki nú, að því er réttindum þeirra félaga við kemur. Það er auðvitað ekki hægt að vera á móti því, að lögfest séu réttindi fyrir verkalýðinn. Það er ekki annað hægt að segja en að það sé plús fyrir hann. En ég álít, að það, að samþ. fyrir verkalýðinn á pappírnum þau réttindi, sem hann annaðhvort þegar hefir eða eru ekki annað en pappírsréttindi, eigi ekki að meta svo mikils, að fyrir það eigi að fórna þeim réttindum, sem verkalýðurinn hefir nú þegar unnið sér á löngum tíma og með mikilli baráttu og festu.

Það hefir verið getið um réttinn til þess að mynda stéttarfélög í sambandi við þetta frv. Því neitar enginn, að sá réttur er nauðsynlegur. En hann er reyndar veittur í stjórnarskránni. En það er annað, sem ekki hefir verið talað um, sem er það, að þeir, sem í stéttarfélögunum eru, séu skyldir til þess að lúta samþykktum þeirra félaga, og að þeir séu látnir sæta ábyrgð fyrir að brjóta verkföll. Það gæti verið gott að hafa þetta í löggjöf. En þetta er mest komið undir stéttarfélögunum sjálfum og þeirra starfsemi. Og a. m. k. er ekki mest hættan á, að félagarnir bregðist í því efni. Fremur geta þeir, sem utan við félögin standa, gert þeim félagsskap óleik með verkfallshrotum. Það er hægt að fara lagaleiðina gagnvart verkfallsbrjótum innan verklýðsfélaganna. T. d. er það svo í Dagsbrún, að ef menn brjóta lög félagsins í þessu eða öðru, eru menn skaðabótaskyldir. Og það er mín skoðun, að hægt væri að sækja mál á hendur þeim fyrir dómstólunum, ef þeir rjúfa skyldur sínar gagnvart félaginu í þessum efnum. Sammála mér um þetta eru ýmsir lögfræðingar, sem ég hefi borið þetta undir. Þetta er því ekkert nýtt atriði, þó að það sé tekið saman á þessum stað, nefnilega í þessu frv.

Ég skal játa, að það er plús að fá það viðurkennt, að atvinnurekendur eigi ekki að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna eða afstöðu þeirra til vinnudeilna með aðstöðu sinni sem vinnuveitendur. En þetta er eins og hvert annað fagurt málverk og ekki annað í raun og veru. Því að það er svo ákaflega erfitt að gæta þess, að þetta ákvæði verði framkvæmt. Samskonar ákvæði þessu eru til í kosningal., Þó er í hverjum einustu kosningum um allt land notað ýmislegt þesskonar af flokkum, sem við þekkjum vel til, til þess að hafa áhrif á kosningu manna. Þetta ákvæði er til þess meira að sína siðferðilegan rétt manna heldur en hægt sé að segja, að með því sé í raun og veru hægt að klekkja á þeim, sem slíkum áróðri beita í sambandi við ákvarðanir verkamanna. Til þess, að koma í veg fyrir slíka starfsemi atvinnurekenda verða verkalýðsfélögin að vinna saman, sem þau líka gera, þó að þetta sé ekki lögfest.

Þá er hér talað um það í réttindakaflanum, að stéttarfélög eigi að bera ábyrgð á samningsrofum og því um líku með eignum sínum. Þarna er tekið fram ákvæði, sem ekki hefir verið tekið fram í l. hingað til og ekki hefir verið dæmt eftir um brot félaga. Hér er ekki um réttindi að ræða til handa verkalýðnum, heldur skyldur, sem honum eru lagðar á herðar. Með þessu ákvæði mætti sjálfsagt taka af verkamönnum þær eignir þeirra, sem þeim er ákaflega sárt um. Við skulum segja t. d., að verkamenn og félagsskapur þeirra sé skaðabótaskyldur með sínum félagssjóði. Og eftir þessum ákvæðum frv. virðist helzt svo vera. að verklýðsfélög séu skaðabótaskyld með öllum eignum þeirra, tryggingarsjóðum, atvinnuleysissjóðum, samkomuhúsum og öðrum eignum. En sumsstaðar í löndum eru ýmsar þessar eignir félaganna undanskildar, þannig að ekki megi taka þær upp í skaðabótakröfur. Þessar eignir tel ég nauðsynlegt að undanþiggja gersamlega skaðabótakröfum á hendur félögunum. Því að þetta er líka svo ranglátt, ef maður tekur atvinnurekendurna annarsvegar, sem ekki hafa neina slíka menningarstarfsemi eða sérstaka sjóði utan við sínar persónulegu eignir og sem þess vegna er ekki hægt að leggja í á þennan hátt.

Það hefir verið fellt niður úr 9. gr. ákvæði viðvíkjandi því, að félagsdómur gæti dæmt samning úr gildi, og ég álit gr. líka eins og hún var mjög varhugaverða. en betri eins og hún nú er. Hinsvegar álit ég, að rétt væri að hafa einhver ákvæði um það, ef um mikla verðlagsröskun væri að ræða, sem stafaði t. d. af ófriði, gengisbreytingum eða öðru slíku. Mætti kannske skoða það sem óviðráðanlegt atvik, sem félagsdómur gæti tekið upp, þó að ekki væri í l. sérstaklega tekið fram um það.

Þetta nægir til þess að benda á það, sem ég gæti náttúrlega farið um miklu fleiri orðum, til þess að skýra nánar, en ég geri nú, að réttindin, sem hægt er frá vissu sjónarmiði að segja, að hér sé verið að kaupa fyrir þær takmarkanir á réttindum verkalýðsins, sem eru í II. kafla frv., eru í raun og veru ekki mikils virði sem gjöf til verkalýðsins, þó að segja megi, að þessi ákvæði séu heldur til hins betra, flest. Það er t. d. ekki mikils virði ákvæðið um trúnaðarmenn á vinnustöðvum; þeirra aðstaða er eftir frv. ákaflega illa tryggð. En nú hefir t. d. Dagsbrún sína trúnaðarmenn í vinnustöðvum, án þess l. segi neitt fyrir um það. Með ákvæðum þessa. frv. eru þeir sem trúnaðarmenn ekki tryggðir á neinn annan eða meiri hátt en félagið sjálft tryggir þá með stuðningi sinum. Aðstaða þeirra er ekki tryggð hér í þessu frv., því að atvinnurekandi gæti sagt upp slíkum trúnaðarmanni, þrátt fyrir ákvæði þessa frv., án þess að segja, að honum líki illa við hann, heldur af því, að hann hafi ekki þörf fyrir hans starf. Það þarf að setja ákvæði um þetta atriði, sem tryggi aðstöðu trúnaðarmannanna.

Þá var það, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um verkföllin í sambandi við þetta mál, alls ekki rétt. Það eru sem sé nú, fyrir utan þær leiðir, sem samkvæmt þessu frv. er hægt að gera vinnustöðvanir eftir, tvær leiðir, sem verklýðsfélög nota almennt við vinnustöðvanir, og þær eru alveg útilokaðar með þessu frv. Önnur er með félagsfundum, hjá minni félögum sérstaklega. Þau geta fremur mætt á fundum heldur en tekið þátt í allsherjaratkvæðagreiðslu, sem átt er við, að taki 24 klst. Og slík atkvgr. getur ekki orðið framkvæmd á félagsfundi. Og fyrir utan það tekur svo þessi atkvgr. miklu lengri tíma en 24 klst. Í Dagsbrún mundi hún taka a. m. k. vikutíma, nema með mjög miklum kostnaði. Það er því mjög óheppilegt, hvort sem er um að ræða að hefja eða ljúka deilu, að þurfa að hafa svona langa atkvgr.

Í öðru lagi segir hv. þm. Ísaf., að hægt sé að gefa verkalýðsfélagsstjórn allsherjarumboð til þess að gera vinnustöðvanir, t. d. fyrir eitt ár í einu. Þetta er alrangt og sýnir bara, að hv. þm. Ísaf. hefir ekki lesið frv. Það stendur hér í 15. gr., að vinnustöðvun af hálfu verklýðsfélags sé því aðeins heimil, að ákvörðun um hana hafi verið tekin, af samninganefnd eða félagsstjórn, sem gefið ,hefir verið umboð til að taka ákvörðun um vinnustöðvunina með almennri atkvgr., sem farið hefir fram á sama hátt og greint er undir a-lið.“ Þarna er átt við þá sérstöku vinnustöðvun, sem um er að ræða í hvert sinn. En það er alls ekki hægt eftir ákvæðum frv. að gefa neitt sérstakt umboð til þess á þann hátt, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um, svo að félagsstjórnir geta alis ekki haft slíkt umboð til þess, sem þær hafa nú til vinnustöðvana. Yfirleitt er því almenna vinnustöðvunarumboði, sem félagsstjórnir hafa til vinnustöðvana, hagað þannig, að félagsstjórnir leggja ekki út í stórdeilur án þess að fá það samþ. í félögunum. Hinsvegar, ef brotnar eru reglur, sem settar hafa verið af félaginu, getur stjórnin orðið að grípa inn í, án þess að fundarsamþykkt liggi fyrir um það sérstaklega. Hún er framkvæmdastjórn í félaginu, sem verður að hafa framkvæmdavald innan vissra takmarka. En með þessum ákvæðum er hún alveg svipt því, en í staðinn á að koma trúnaðarmannaráð, sem geti fengið almennt umboð til vinnustöðvana. En í þessu trúnaðarmannaráði er ekki haldið þeirri reglu, að hafa lýðræðislegan meirihluta, heldur er þarna gert ráð fyrir, að ráði aðeins sá meiri hl., sem sé 3/4 hl., sem getur í ýmsum tilfellum verkað mjög skaðlega.

Í öðru lagi hafa þeir, sem hafa mælt með þessu frv., sagt, að það væri hægt að ganga fram hjá ákvæðunum um, að félagsstjórnir gætu ekki stöðvað vinnu með því að skipa trúnaðarmenn, þannig að það væru ekki nema örfáir menn, kannske svo sem 2 eða 3, sem gerðu ákvarðanir um vinnustöðvanir. Þá er fyrst og fremst um það að segja, að ég geri ráð fyrir, að verklýðsfélögin kysu ekki að hafa hjá svo fáum mönnum meiri völd heldur en félagsstjórnir almennt hafa nú. Í öðru lagi tel ég vafasamt, hvað félagsdómur segði um það, þar sem þar væri verið að ganga framhjá félagsstjórnunum en verið að skapa aðrar félagsstjórnir í staðinn. Þar væri verið að skapa ákvæði til þess að geta farið í kringum l.

Ég get ómögulega skilið, að hv. þm. Ísaf., sem fulltrúi verkamanna á Ísafirði, geti talið það kost að taka þennan rétt af félögunum og félagsfundunum, sem þau hafa haft frá því þau hafa verið stofnuð.

Þá segir hv. þm. Ísaf., að hægt sé eftir frv. að gera skyndiverkföll. Það er að vísu hægt að orða 16. gr. þannig, að það sé hægt. Og ég mun koma með brtt. um það efni, um það að 7 daga fyrirvarinn gildi aðeins um samninga. Í þeim tilfellum hefi ég ekki á móti 7 daga fyrirvara og jafnvel lengri. En aftur á móti, þegar um ýmsar ákvarðanir er að ræða aðrar, eins og alltaf geta komið fyrir í stærri bæjum, þá álit ég, að 7 daga fyrirvari geti verið mjög skaðlegur, og ætti því í þeim tilfellum alls ekki að koma til greina.

Því verður einnig að bæta inn í frv., að félagsfundur megi, þegar vel er mætt á honum, hafa rétt til þess að ákveða að gera verkfall, og félagsstjórnir, innan þess ramma, sem þeim er settur. Við skulum taka t. d., að hér ynni utanfélagsmaður á einhverri stöð, og nú vilji verklýðsfélagsstjórnin, eins og það gengur til, ganga út á vinnustaðinn og segja við manninn, að ef hann gangi ekki í félagið, verði vinnan stöðvuð. En hann vili ekki hætta vinnu og ekki heldur ganga í félagið. Þá er ekki hægt eftir þessu frv. að stöðva vinnu, nema með því að kalla saman túnaðarmannaráð eða með því að láta fara fram atkvgr., sem til þyrfti að kalla saman mörg hundruð manns. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt og er ekki til annars en að beina stórfelldri árás gagnvart verkalýðssamtökunum eins og þau starfa í landinu nú.

Til viðbótar þessu vil ég svo aðeins benda á það, að ég get ekki séð, að það geti verið áhugamál fyrir fulltrúa verkamanna á neinn hátt að berjast fyrir því, að verkamenn verði sviptir réttinum til pólitískra verkfalla. Þessi réttur þeirra hefir verið álitinn einn af þeirra mestu réttindum. Verkamenn hafa ekki vopn a. m. k. nú ekki ríkisvald í sínum höndum. En þeir hafa þann rétt að neita að vinna, ef að þeirra kosti er þrengt. Og menn munu áreiðanlega ekki gera verkföll í pólitísku skyni, nema mjög mikið lægi við, ef réttur félaganna sjálfra eða einstaklinga þeirra væri í veði. En verklýðsfélögin vilja halda þessum rétti gagnvart vinnuveitendafélagsskapnum, sem styður að því, að löggjöf sé sett á Alþ., sem verklýðsfélögin eru mjög mikið á móti, og er skemmst að minnast gerðardómsl. í því sambandi. Verklýðsfélögin vilja halda þessum rétti, til að hreyfa sig. sem þau hafa haft. Pólitísk vinnuveitendafélög eru að færa vinnudeilurnar eins og þau geta allar yfir á sama tímatakmark, og vilja helzt hafa þær allar um miðjan vetur, þegar mest atvinnuleysi er, svo að allt þar að lútandi komi í eina bendu, í stað þess að verkalýðsfélögin og Alþýðusamband Íslands hafa hinsvegar haft þá stefnu að dreifa vinnudeilunum svo, að af þeim yrði ekki nema sem minnst vandræði. Með því að reyna að koma þessu öllu í eina bendu, stefna vinnuveitendafélögin að því, að geta notað gerðardómslögin sem mest. og ekki að öðru. En þá get ég ekki séð, hvers vegna menn vilja koma ákvæðum 17. gr. inn í frv. Það er að vísu ólöglega hægt að nota pólitísk verkföll. En fyrir því er verkalýðsfélagsskapurinn ábyrgur. Og er a. m. k. ekki hægt að saka Alþýðusamband Íslands eða félög þess um, að slík verkföll hafi verið gerð hér á landi.

Ég hefi svo ekki fleiru við þetta að bæta, nema sérstakt tilefni gefist til. Ýmsir kaflar þessa frv. eru sniðnir eftir vinnulöggjöf í okkar nágrannalöndum, og er ekki hægt að hafa neitt á móti sumum þeirra. En aftur eru aðrir kaflar í frv., sem ekki ná nokkurri átt, t. d. þessi aukni meiri hluti, sem aldrei hefir átt heima í vinnulöggjöf okkar nágrannalanda, en reynt er hér að koma inn í regiur fyrir atkvgr. á trúnaðamannaráðsfundi. Er furðanlegt, að þeir menn skuli vilja koma þessu ákvæði inn í þessi 1., sem vilja telja lýðræði sem sína stefnu í landsmálum.