26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Vilmundur Jónsson:

Ég mun ekki ræða hér afstöðu Alþfl. til vinnulöggjafar almennt. Hún er þegar nokkuð kunn, meðal annars af ályktun, sem gerð hefir verið á þingi Alþýðusambandsins. Auk þess kom hún líka fram við 1. umr. þessa máls, og enn gefst þess kostur við 3. umr. að lýsa málinn frá þeirri hlið. Ég skal aðeins geta þess, að orð hv. þm. Snæf. um afstöðu Alþfl. til vinnulöggjafar voru fjarri öllum sanni. og misminnir hann það eða ruglar saman, eins og sjálfstæðismönnum er títt, afstöðu Alþfl. til þeirra vinnulöggjafarfrv., sem flutt hafa verið af hálfu Sjálfstfl. fyrr og síðar hér á þingi. og afstöðu Alþfl. til vinnulöggjafar yfirleitt. Ég vil minna hann á, að það er ekki lengra síðan en 1929, að flutt var hér af hálfu sjálfstæðismanna frv. um að lögbjóða gerðardóm í vinnudeilum, sem ákvæði verkamönnum kaup og kjör. Og þessi dómur átti að vera þannig skipaður, að í hverju lögsagnarumdæmi átti héraðsdómari að vera forseti dómsins. Flm. lét þess getið, að sér lægi í léttu rúmi, hvernig hinir tveir, sem í dómnum sætu, yrðu skipaðir, og gaf það þess vegna á vald bæstaréttar! Þessir menn skyldu hafa fullt vald til að ákveða kaup alls verkalýðs. Það voru slík og þvílík l., sem Alþfl. kallaði kúgunarlög og þrælalög. En með því var ekki felldur dómur um vinnulöggjöf, eins og hún getur þolanleg verið, og sízt um þá vinnulöggjöf, sem er verkamönnum verulega góð, sem vinnulöggjöf getur líka verið.

Það er fróðlegt að lesa hér upp úr Alþt., hvernig aðalflm. þessa gerðardóms — (TT: Hver var hann?) Jón Ólafsson — hugsaði sér hann skipaðan, sem ég er raunar búinn að skýra frá. Með leyfi hæstv. forseta: „Við höfum í fyrsta lagi gert ráð fyrir, að héraðsdómarinn í hverju héraði yrði dómstjóri eða oddamaður dómsins. Það er álit okkar, að enginn maður hafi aðstöðu til að þekkja betur hag almennings í sinu héraði en hann. Til þess að sjá honum fyrir rólegri aðstoð, viljum við láta hæstarétt skipa 2 menn í dóminn og 2 til vara. Teljum við, að þá sé sæmilega séð fyrir ró í dóminum “Þetta var svo sem ekki gert af fjandskap við verkamennina, því að þessi sami flm. sagði á þá leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þess vegna gleðjast verkamenn yfir hverri tilraun, sem gerð er til þess að leysa af þeim þær viðjar, er forsprakkarnir hafa hneppt þá í, og lýsa ánægju sinni yfir því, að frv. eins og þetta skuli borið fram. Svona er nú hugur verkamanna undir niðri.“! Ég hirði ekki að lesa meira upp úr þessum umr., þó að það væri fróðlegt. En þetta er að eins til að mínna á það, að sú afstaða, sem hv. þm. Snæf. sagði, að Alþfl. hefði haft til vinnulöggjafar, var gagnvart slíkri og þvílíkri löggjöf.

Hin sérstaka afstaða Alþfl. til þessa frv., sem hér liggur fyrir, er líka nokkuð kunn, þegar fyrir það, hvern þátt hann hefir átt í að undirbúa það, þar sem það er samið af tveimur mönnum, sem skipaðir voru til þess af hálfu Alþfl., og ennfremur af því, að það er kunnugt, að Alþfl. styður núverandi ríkisstj., vitandi það, að sú sama ríkisstj. leggur áherzlu á, að vinnulöggjöf verði sett á þessu þingi, og einmitt samkv. þessu frv. Enn hefi ég í nál. allshn. gert grein fyrir minni afstöðu, sem um leið er afstaða Alþfl. til þessa máls. Og hún er sú, að eftir atvikum sættum við okkur við samþykkt þessa frv. Ekki fyrir það, að við kynnum ekki að óska ýmissa breyt. á því- þeirra mundum við óska —, heldur fyrir það, að ekki eru miklar líkur til, að slíkar breyt. séu fáanlegar. Því að það er nú svo, að þegar afstaða tveggja stærstu flokka þingsins til vinnulöggjafar er á þann hátt ráðin, að þeir ætla að samþ. vinnulöggjöf á þessu þingi og veita þar engan frest, þá verður það ekki fyrirbyggt, hvorki af 7 þm. né 10. Hv. þm. hafa heyrt, að það stendur ekki á Sjálfstfl. til samvinnu við FramsfI. um afgreiðslu vinnulöggjafar. En ef til vill gera þeir ráð fyrir því, hv. 3. þm. Reykv. og hv. kommúnistar hér í d., að slík vinnulöggjöf, sett af Framsfl. með aðstoð Sjálfstfl., yrði aðgengilegri en þessi vinnulöggjöf. Ég hygg það ekki. Og ég hefi nokkuð gilda ástæðu til að ætla svo. Eg hefi meðal annars starfað í þeirri n., sem um frv. hefir fjallað í þinginu. Hv. 3. þm. Reykv. og kommúnistar hafa talað hjartnæmum orðum um nauðsyn á áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna. En það er bezt að segja hverja sögu eins og hún gengur, að einn liðurinn til að tryggja það samstarf í heild, er, að ekki slitni upp úr samvinnunni milli Alþfl. og Framsfl.

Nú vil ég ekki telja það alveg óhugsandi, að koma megi fram einhverjum breyt. á þessu frv. til bóta frá sjónarmiði verkalýðsins. En þó því aðeins, að fylgi meiri hl. þings fáist fyrir því. Það ætti að vera alveg augljóst mál og eins hitt, að engar líkur eru til, að slíkar æskilegar breyt. nái fram að ganga, nema hægt sé að vinna fylgi Framsfl. fyrir þeim. Breyt. til bóta fyrir verkamenn á frv. fást ekki með atkv. sjálfstæðism. í þinginu, og ætti naumast að þurfa að segja hv. 3. þm. Reykv. það. Ég hefi látið þess getið við samnefndarmenn mína, að ég muni bera fram breyt. til samþ. við 3. umr., og leita enn eftir samkomulagi við þá. Ég get engu lofað um, að þetta takist, og hefi satt að segja ekki mikla von um það. E. t. v. minnist ég síðar á, hvar helzt er að vænta slíks samkomulags.

Afstaða kommúnista til þessa máls er mjög skilmerkileg og leggur ljóslega fyrir. Þeir vilja enga vinnulöggjöf. Náttúrlega vilja þeir ekki vonda vinnulöggjöf. En þeir vilja heldur ekki góða vinnulöggjöf. Í samræmi við þetta er það, að þegar þeir semja brtt. við frv., sem þeir leggja sig í líma við að gera, þá gera þeir það alveg án tillits til þess, sem við þykir þurfa í praktískum veruleika, þ. e. þeir semja till. með engu tilliti til þess, að unnt sé að pota þeim fram. Og það, sem meira er, þeir geta ekki hugsað sér að samþ. frv., hó að allar till. þeirra yrðu samþ., þeir segja þetta beinlínis. Þeir eru m. ö. o. hreinir anarkistar í þessu sambandi. Þeir vilja ekki ljá verkamönnum neitt lið löggjafarinnar í baráttu þeirra, alls ekki. Það, sem þeir vel vita, að er verkamönnum illt, í þessu sambandi, vilja þeir. að haldi áfram að vera illt, heldur en að laga það með löggjöf. T. d. geta þeir ekki hugsað sér að hafa sérstakan dómstól til að dæma um ágreining út af vinnusamningum o. þ. h., þó að verkamenn fái þau fríðindi, að skipa hann að nokkru leyti sjálfir. Þeir vilja heldur, að hæstiréttur, sem verkamenn hafa enga sérstaka aðstöðu til að ráða skipun í, dæmi um þessi mál. Þeir vilja ekki, að verkföll fái neina lagaviðurkenningu, jafnvel þó að verkföllin séu engum takmörkunum eða skilyrðum bundin. Sem sagt, þeir vilja alls ekki neina löggjöf. sem varðar verkamannamál, hvorki vonda né góða. Svo ákveðnir eru þeir í þessu, að jafnvel þótt þeir gætu, eins og farið er fram á í einni till. þeirra, gert verkamenn eina að dómurum í deilum sínum við atvinnurekendur, þá mundu þeir ekki vilja slíka löggjöf. Þeir flytja einnig brtt. um, að ef verkamenn leita samninga við atvinnurekendur, og atvinnurekendur vilja ekki ganga að þeim samningum, þá eigi atvinnurekendur að vera skyldir til að fylgja þeim taxta, sem verkamenn setja sér sjálfir. En jafnvel þótt hv. kommúnistar fengju þetta samþ., þá mundu þeir samt sem áður vilja fella frv. Því að þeir vilja ekki þiggja neina aðstoð — jafnvel ekki svona mikla aðstoð — löggjafans verkamönnum til handa. Ég geri ráð fyrir, að undan þeirra rifjum séu runnar till., sem hirtar voru í blöðunum nýlega í samhandi við atkvgr. verkalýðsfélaganna um þessa löggjöf. Þar var farið fram á, að ef atvinnurekendum og verkamönnum er að lenda saman í kaupdeilu, þá gildi hinir gömlu samningar þangað til nýir samningar nást. En þetta er raunar ekkí rétt vel athugað. Það gæti verið, að slíkt hallaði stundum á verkamenn; því að rökrétt afleiðing af þessu yrði sú, að sá aðilinn, sem vildi síður nýja samninga en gamla, myndi aldrei ganga að nýjum samningum. Og það kemur fyrir, að verkamönnum er þægð í nýjum samningum !

Það er ekki nóg með það að kommúnistar líti þessum augum á löggjöf um vinnudeilur. Þeir hafa — eftir því sem kom fram við 1. umr. þessa máls — þessa sömu afstöðu til löggjafar yfirleitt, þar sem verkamenn eru annarsvegar. Þeirra kenning er þetta: Ef samtök verkamanna eru nógu sterk, þá þurfa þeir á engri aðstoð löggjafans að halda. En ef samtök verkamanna eru veik, þá gagnar þeim engin stoð löggjafarinnar, því að þá verða þeir sviknir um framkvæmd hennar. Mér er spurn: Til hvers eru þessir hv. þm. að sitja hér á hv. Alþ.? Hv. 5. þm. Reykv. lét ekki við það sitja, að lýsa þessari kenningu með almennum orðum, heldur vitnaði hann í ákveðna löggjöf máli sínu til sönnunar og nefndi lögin um verkamannabústaði. Það er alveg satt, að framkvæmd þeirrar löggjafar hefir verið mjög slæleg upp á síðkastið. Það hefir ekki fengizt það fé til þeirra framkvæmda, sem þurft hefði. En að verra sé að hafa þá löggjöf heldur en enga, og að verkamenn gætu með samtökum sínum, ef þau væru nógu sterk, byggt verkamannabústaði, eins þótt þeir hefðu enga aðstoð í löggjöfinni til þess, það skil ég ekki að hv. 3. þm. Reykv. vilji samþ. með kommúnistunum. Togaravökulögin hafa þá eflaust líka verið alveg óþörf. Því var verið að veita verkamönnum réttarbætur þeirra í l.? Ef samtök þeirra voru nógu sterk, þá gátu þeir tekið sína hvíld sjálfir! En ef þau voru veik, þá eru þeir sviknir um framkvæmdina! Hið sama mætti segja um fátækralöggjöfina og kosningal. Hið sama mætti einnig segja um tryggingalögin o. s. frv. o. s. frv. Þessi afstaða er skemmtilega skýr og gerir það að verkum, að það er ákaflega fljótlegt að afgr. þessa hv. þm. Við svona þingmenn er ekki hægt að ræða hér á hv. Alþingi. Og mér skilst í rauninni, að hér ættu þeir alls ekki að vera.

Hv. þm. Snæf. vil ég til viðbótar því, sem ég sagði áður, segja það, að saga hans og þeirra flokksmanna hans í þessu máli liggur ákaflega ljós fyrir, þó að hún sé ekki með miklum heilindum. Þeir byrja á því fyrir nokkuð löngu síðan, sem honum þykir ekki skemmtilegt að rifja upp, að flytja frumvörp til vinnulöggjafar, mjög fjandsamleg verkalýðnum, frv. um lögþvingaðan gerðardóm í kaupdeilum og þess háttar. En þeir sáu fljótlega, að slíkt hafði ekki fylgi hér á hv. Alþ. Ef þeir hefðu haft nógan styrk á þessum tíma til að setja slíka löggjöf, þá væri hún fyrir löngu komin á. En þeir höfðu ekki þann styrk, og þeir sjá nú, að enn hallar undan fæti fyrir þeim og að þess vegna er þýðingarlaust að hampa slíkri löggjöf um sinn. Þegar þeir þannig hafa áttað sig á veikleika sínum, skynja þeir, að líklega geti þeir komizt lengst með því að taka saman frv. til vinnulöggjafar, sem þeir geti að einhverju leyti kennt við vinnulöggjöf á Norðurlöndum. Það er mjög sterk aðstaða að geta bent til þeirra landa, þar sem verkamannasamtökin eiga jafnmikið undir sér og í Danmörku, Noregi eða í Svíþjóð. Það mundi vera erfitt fyrir framsóknarmenn að hafa á móti því að samþ. slíka vinnulöggjöf. En hvernig semja þeir svo frv.? Þeir taka upp það versta, sem, þeir finna í löggjöf hvers þessara landa. Stundum leggja þeir tvennt vont saman, ef þeir finna það. En þeir gæta náttúrlega ekki að því, sem er höfuðatriðið í þessu sambandi, sem sé því, að það, sem er viðunandi í einu landi, getur verið alveg óviðunandi í öðru landi. Að þessu sé svo farið, verður einkum ljóst, ef Norðurlöndin, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, eru borin saman við land eins og Ísland. Þar, sem verkalýðssamtökin eru sterk, faglega og pólitískt, að ég ekki tali um þar, sem verkalýðurinn á sína eigin ríkisstjórn og hefir mikla stoð í öllu framkvæmdarvaldi, þar getur vinnulöggjöf verið viðunandi, þó að óviðunandi sé þar, sem verkalýðurinn er lítils megnugur bæði faglega og pólitískt. Það þýðir þess vegna ekki að flytja þá kenningu, að sú vinnulöggjöf, sem Danir geta unað við, hljóti að vera viðunandi fyrir okkur Íslendinga. Hún getur verið alveg óviðunandi frá sjónarmiði verkamanna séð. Það er vitanlega svo,að Danir geta óhræddir búið við ýms vafasöm ákvæði í trausti til sinnar vinsamlegu stjórnar og framkvæmdarvalds í garð verkamanna, þótt óviðbúandi væri fyrir okkar verkalýð undir flestum kringumstæðum.

En jafnvel slíku frv., sem sjálfstæðismenn semja þannig að nokkru leyti með hlíðsjón af Norðurlöndum, því koma þeir ekki fram. Og hvað gera þeir þá? Þá reyna þeir að komast eins langt og þeir geta með brtt., en haga sér að öðru leyti eins og sigraðir menn í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að þeir einu menn hér í hv. Alþ., sem í raun og veru hatast við þetta frv., sem liggur fyrir, það eru sjálfstæðismenn. Það eru ekki kommúnistarnir, og því síður hv. 3. þm. Reykv., er ég kann að koma betur að síðar, sem er verst við frv. Það eru sjálfstæðismennirnir, þó að þeir sjái sér leik á borði, úr því að þeir eru sigraðir menn í málinu, að láta sem minnst á því bera, og grípi nú hvert tækifæri til að nudda sér upp við okkur, sem að frv. stöndum. Hv. 3. þm. Reykv. tekur þessu mjög vel hjá sjálfstæðismönnum, enda er það gert með sérstöku tilliti til hans og kommúnistanna. Hann er nógu brjóstheill til að segja, að í raun og veru séu sjálfstæðismennirnir á sama máli og við alþýðuflokksmenn, eða að munurinn sé sama sem enginn á þeirra afstöðu og okkar til vinnulöggjafarinnar. Það var einmitt þetta, sem honum var ætlað að segja. Ég sé hann tekur það eins og til var ætlazt. En þar sem hann kveðst vorkenna mér mína afstöðu í þessu máli, með því að ég yrði að mæla með samþykkt þessa frv. — mér skildist hann vilja láta menn halda, að ég gerði það ákaflega nauðugur —, þá verð ég að lýsa yfir, að ég er ekki siður brjóstgóður en hann. Ég hefi einlægustu samúð með honum. Það má vera mjög erfitt og vandræðalegt fyrir hann að standa hér frammi fyrir mér og lýsa afstöðu sinni til þessarar löggjafar á þann hátt sem hann lýsir henni. Það er ekki langt síðan að við sátum samherjar við sama borð og töluðum um þessa löggjöf. Hann veit, að ég veit, að hann er sá af okkur, sem óþolinmóðastur hefir verið að bíða eftir, að yfir lyki um setningu þessarar vinnulöggjafar, sem hann vissi manna bezt, að ekki yrði umflúin. Hann veit líka, að þegar verið var að semja frv., þá var leitað til hans um till. og uppástungur viðvíkjandi þessari löggjöf, en gersamlega án árangurs. Hann hafði þar ekkert til málanna að leggja. Við sátum saman, þar sem frv. var lesið upp fyrir mér og honum og mörgum öðrum. Ég hreyfði nokkrum aths., og ég ætla, að ég hafi verið sá eini, sem það gerði. M. a. spurði ég ýtarlega um ákvæðin um pólitísk verkföll. Það eina, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði þá, var þetta: „Haldið þið virkilega, að Framsfl. gangi að þessu frv.?“ Að öðru leyti hafði hann engar aths. við það að gera.

Það þarf ekki að segja mér, að afstaða hv. 3. þm. Reykv. til þessa frv. markist af öðru en því, hvernig hið pólitíska ástand er í kringum hann. Ef það væri ekki eins og það er, þá væri það hann, sem væri einn af aðalflm. þessa frv. Þetta segi ég ekki út í bláinn, heldur vegna þess að á síðasta þingi var hann kominn á fremsta hlunn með að flytja þetta sama frv. eins og það nú er, og þó að sumu leyti miklu verra frá sjónarmiði verkamanna, enda var það ekki eins vel undirbúið þá og það er nú. Hv. þm. telur sig marka afstöðu sína til þessa máls með þeim brtt., sem hann flytur við frv. En þegar brtt. hans eru athugaðar, er ómögulegt að láta sér skiljast, að hann sé andvígur frv. Það er hann heldur ekki. Hann er í höfuðatriðunum samþykkur því. Hann flytur nokkrar brtt. við frv., sem raska í engu grundvelli þess og réttlæta alls ekki þá afstöðu hans, að ef þær nái ekki samþykki, sé hann á móti frv., sem hann titlar þá þræla- og kúgunarlög á verkalýðinn. Hávaðinn af þessum till. eru hreinn og beinn hégómi. Að vísu væru nokkrar þeirra til bóta, ef þær yrðu samþ., en langflestar hafa sáralitla þýðingu frá eða til. Og hvernig eru svo þessar brtt. til komnar? Það er sama sem ekkert frumlegt við þær. Það eru till., sem fulltrúar Alþfl. höfðu uppi, a. m. k. allar þær, sem nokkra þýðingu hafa, en ekki tókst að ná samkomulagi um í vinnulöggjafarnefnd. (HV: Hvers vegna voru þá fulltrúar Alþfl. á móti þessum till. á öllum verklýðsfélagafundum hér í bænum og nágrenninu? — GÞ: Já!).

Nú skal rekja lítið eitt nánar þessar brtt. Um það er engum blöðum að fletta, þegar ákvæði 5. gr. frv. eru borin saman við 7. gr., að samningar verklýðsfélags eru skuldbindandi fyrir alla verkamenn í starfsgreininni á félagssvæðinu. Ég ætla, að hv. frsm. hafi tekið þetta greinilega fram, enda er það meiningin. Ef til vill mætti orða þetta skýrar, og það væri að vísu skýrar orðað eins og hv. 3. þm. Reykv. fer fram á að orða það, en hefði ekki í för með sér neina breyt. í framkvæmd. Það stendur nægilega skilmerkilega í 7. gr., að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir, að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekanda. Verkamaður þarf ekki að vera meðlimur í stéttarfélaginu. Samningur þess er jafnskuldbindandi fyrir hann án tillits til þess. En vel má vera, að hv. þm. hafi ekki athugað þetta nógu vel, vegna þess að breyt. var gerð á þessu, frá því sem frv. var birt í nál. þeirrar n., sem undirbjó frv.

Það kann að vera, að einhver ávinningur sé að fá samþ. ákvæði um, að iðgjöld félagsmanna í verkalýðsfélögum megi innheimta hjá atvinnurekendunum. Það er annars einkennileg röksemdafærsla, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir lært af kommúnistum hér í hv. d. nú upp á síðkastið, enda situr hann oft nærri þeim, þegar talað er um eitthvað, sem er jákvætt í frv., þá þurfa verkalýðsfélögin ekki á því að halda, af því að þau eru svo sterk, en ef eitthvað er fremur neikvætt, hversu lítilfjörlegt sem það er, þá eru þau svo veik, að þau fá ekki staðizt það. Ef verkalýðsfélögin eru svo sterk, að þau þurfa ekki að halda á neinu því, sem er jákvætt í frv., þá ættu þau að vera svo sterk, að þau gætu innheimt félagsgjöld hjá meðlimum sínum án sérstakrar aðstoðar löggjafans.

Það kynni líka að vera til bóta, að taka upp ákvæði úr brtt. hv. 3. þm. Reykv., um gildi kauptaxta verkalýðsfélaga. Honum má vera kunnugt um, að þessi krafa var uppi í vinnulöggjafarnefnd af hálfu fulltrúa Alþfl., en fékkst ekki samþ. fyrir það, að þá kom upp á móti krafa um gildi taxta, sem atvinnurekendur settu. Við undirbúning slíkrar löggjafar sem þessarar koma upp kröfur á móti kröfum, þegar tveir semja, og ef ekki tekst að fá málamiðlun, verða báðar kröfurnar að jafnaði að falla niður. Fróðustu menn álíta, að ef löggilda ætti taxta, sem settir eru, og það næði bæði til taxta verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, þá mundi það ekki verða til góðs fyrir verkalýðsfélögin. Hitt er vitanlegt, að ef þetta fengist samþ. eingöngu fyrir verkalýðsfélögin, þá væri það ávinningur fyrir þau.

Þá kem ég að þeirri brtt., sem ég álít, að væri einna mestur ávinningur að að fá samþ., en það er, að sjóðir verkalýðsfélaga og húseignir þeirra séu ekki aðfararhæf. Ég vil geta þess, að þessi till. er ekki fundin upp af hv. 3. þm. Reykv., því að annar fulltrúi Alþfl. í vinnulöggjafarnefnd hafði þessa till. uppi, en náði ekki samkomulagi um hana. Að vísu er það ekki svo, að þetta eigi sér ekki fyrirmynd annarsstaðar. Hann hafði grafið þetta upp í margra ára gömlum kröfum frá Englandi, sem ekki fékkst framgengt og síðan hefir ekki verið hreyft. Ég kýs þó, að eftir þessu sé leitað, og vil mælast til þess við hv. þm. Reykv., að hann taki þessa till. aftur til 3. umr. um leið vek ég aftur athygli á því, að ómögulegt er að fá neitt í þessa átt samþ., nema samkomulag fáist um það milli þeirra flokka, sem styðja hæstv. stj. En hv. 3. þm. Reykv. finnst þetta kannske svo ófínir flokkar, að hann geti ekki lotið að neinu slíku. Ég er engan veginn alveg vonlaus um, að þetta fáist samþ., og vildi gjarnan mega fá tækifæri til að gera úrslitatilraun til að leita samkomulags um það fyrir 3. umr. Vil ég því síður, að till. sé sett undir öxina nú við 2. umr., með því að tími vinnst ekki til þess að ræða þetta atriði á milli flokkanna fyrir þá atkvæðagreiðslu.

Brtt. hv. þm. viðvíkjandi trúnaðarmönnunum geta ekki haft neina höfuðþýðingu. Hann vill færa þetta í sama horf og upphaflega var ætlazt til í frv., að trúnaðarmaðurinn sé einn, en það er gengið að því, gegn auknum fríðindum á móti, að verða við þeim kröfum framsóknarmanna, að félögin tilnefndu 2, en atvinnurekendur höfnuðu öðrum, og ég verð að segja, að það verklýðsfélag er illa statt, sem getur ekki tilnefnt 2 menn, sem það trúir fyllilega fyrir þessu starfi. Af því að ég ræði ekki sérstaklega brtt. hv. sjálfstæðimanna, vil ég geta þess, í þessu sambandi, að hv. þm. Snæf. misskildi gersamlega þetta atriði um trúnaðarmennina. Hann flytur brtt. um, að þeir skuli valdir af verkamönnum á vinnustöðinni. Að nokkru leyti er þessi misskilningur einnig uppi hjá kommúnistum. Það er ekki meiningin, að trúnaðarmennirnir séu fulltrúar verkamannanna á vinnustöðinni, heldur verklýðsfélaganna, líka gagnvart verkamönnunum, því að það er því miður ekki ótítt, að verkamenn gerist brotlegir við sitt eigið verkalýðsfélag — að þeim barnaskap slepptum, sem birtist í þessu hjá kommúnistum, að átta sig ekki á því, í hvílíkan vanda verkamenn hjá voldugum atvinnurekanda yrðu settir með því að gera þeim að velja trúnaðarmennina. Það mundi í mörgum tilfellum þýða sama og að fela atvinnurekandannm að gera það. Höfuðstyrkurinn í þessu eftirliti er það fyrst og fremst fyrir verkalýðsfélögin og um leið fyrir þá verkamenn, sem í hlut eiga, að verkalýðsfélögin velji þessa trúnaðarmenn. (EOl: Hv. þm. veit ekkí, hvað hann er að tala um viðvíkjandi okkar till.) Það þarf ekki að áskilja verkamönnum að velja sérstaka trúnaðarmenn fyrir sig, það bannar þeim enginn.

Hún er líka næsta hégómleg næsta brtt. hv. 3. þm. Reykv., að ef eitthvað ber út af á vinnustöð, þar sem trúnaðarmaður starfar, um að samningar séu haldnir, þá sé það tilkynnt viðkomandi verkalýðsfélagi. Skárri væri það nú trúnaðarmaðurinn, sem tilkynnti það ekki verklýðsfélagi sínu, ef verklýðsfélagið ætlast til þess. Verklýðsfélagið er ekki ákaflega sterkt, ef það getur ekki ráðið öðru eins og því. Ég er ekki að segja, að það spillti neinu, þó að þetta væri samþ., en hégómi er það, og enga höfuðþýðingu getur það haft.

Þá er 8. brtt., sem er viðvíkjandi vernd til handa trúnaðarmönnum. Ég játa, að það væri mikil bót að fá hana samþ., en ákvæði eins og þetta mundi ætið hafa takmarkað gildi, vegna þess að það yrði svo erfitt að koma slíkum rétti fram, og a. m. k. væri nauðsynlegt að orða þessa till. enn ljósar, því að það sést ekki greinilega af brtt., hver á að sanna, að viðkomandi trúnaðarmaður hafi leyst starf sitt svo illa af hendi, að hann sé fyrir það réttrækur. Ég geri ráð fyrir, að félagsdómur eigi að sker úr um það, og þá eftir á, eins og liggur í hlutarins eðli. Þetta kemur ekki nægilega ljóst fram, en ef það ætti að vera komið undir almennu mati, kannske jafnvel mati húsbóndans, þá fer ákvæðið að verða lítils virði að ég held. Ég reyndi í n. mjög mikið til að fá tilsvarandi ákvæði inn í frv., um að trúnaðarmenn að öðru jöfnu skyldu fá að halda vinnunni við uppsagnir, en mér tókst það ekki. Enn er ég þó ekki vonlaus og vildi mega reyna betur fyrir 3. umr. Þetta er önnur till., sem ég mælist til, að hv. þm. taki aftur til 3. umr. Það ætti þó að vera útlátalaust.

Það er vandalaust, þegar lagt hefir verið til, að einhver viss hundraðshluti félagsmanna skuli verða að sækja fund til atkvgr., að koma með yfirboð um að lækka þá hundraðstölu, eins og hv. þm. gerir í 9. brtt. sinni. Ég veit, að hv. þm. er nú þannig stemmdur gagnvart okkur þm. Alþfl., að ef við hefðum t. d. stungið upp á 20% fundarsókn, þá hefði hann komið með 15%. Þetta er alkunn aðferð hjá kommúnistum, samherjum hans, sem hann sjálfur hefir oft fengið að kenna á. Það er aldrei hægt að nefna svo tölu, að ekki sé mögulegt að nefna aðra lægri eða hærri, hvort sem vill.

Annars verð ég að segja, að túlkun þessa hv. þm. á ýmsum ákvæðum frv., sem hann veit að verða samþ., er næsta fjandsamleg verkalýðssamtökunum og gæti orðið þeim dýrkeypt og hættuleg, ef mark væri tekið á henni, og ef henni væri ekki kröftuglega mótmælt, sem ég geri hér með í öllum atriðum. Sá skilningur, sem hann leyfir sér að leggja í ýms ákvæði frv., er fram úr öllu lagi fjarstæður og allur á þá hlið, að gera þau sem erfiðust verkamannasamtökunum. Er bágt að sjá út yfir, til hvers leitt gæti, ef dómarar tækju upp á að hafa einhver a hliðsjón af því, sem hann heldur hér fram. Ég vil t. d. taka túlkun hans á ákvæði frv. um, að trúnaðarmannaráð megi ákveða um, hvort stofna skuli til verkfalla, að það hljóti að vera eitthvað ákaflega erfitt, að 3/4 hluta trúnaðarmannaráðsins þurfi þá til að gera slíka ákvörðun gilda. Hv. þm. bollaleggur um, að með þessu, og yfirleitt með ákvæðum frv. um atkvgr., séu öll skyndiverkföll útilokuð. Þetta er allt fjarstæða, hrein fjarstæða. Einmitt ákvæðið um, að fulltrúaráð megi gera út um öll verkföll, verður til þess, ef einhverrar forsjálni er gætt, að koma má við sem skyndiverkföllum þeim verkföllum, sem á annað borð eru heimil, án tilskilins 7 daga fyrirvara, en það eru öll verkföll nema þau, sem varða kaup og kjör, og með kjörum er aðeins átt við þau fríðindi, sem eru kaupsígildi, þ. e. þegar segja þarf upp samningum til að breyta kaupgjaldsákvæðum. Öllum öðrum verkföllum er hægt að koma á fyrirvaralaust með því að nota ákvæðið um úrskurðarvald trúnaðarmannaráðs. Með hæfilega fjölmennu eða fámennu trúnaðarmannaráði, sem falið er að gera út um verkföllin, er þetta auðgert. Og ef fáir menn eru í trúnaðarmannaráðinu, þá er ekkert vit í því fyrir sjálf verkalýðsfélögin að áskilja minni meiri hluta en 3/4.

10. brtt. hv. þm. er um það atriði, sem ég var að geta um, og tilgreinir nánar, hvenær hafa þurfi hinn tilskilda 7 sólarhringa fyrirvara fyrir verkfalli. En hún er, eftir þeim skilningi, sem lagður er í þetta ákvæði frv. og hv. frsm. hefir tekið af öll tvímæli um, algerlega óþörf. Hv-. frsm. litur svo á, og hið sama gerir meiri hl. n., að þótt till. hv. 3. þm. Reykv. væri samþ., þá mundi það engu breyta um framkvæmdir þessa atriðis. Þar sem rætt er um kjör í þessu sambandi, er eingöngu átt við þau fríðindi, sem eru kaups ígildi, og þau verkföll, sem tilkynna þarf með fyrirvara, eru eingöngu þau verkföll, sem snerta kaup og kjör og koma aðallega til greina þegar kaupsamninga á að gera að nýju eða eldri samningar renna út.

Þær brtt., sem hér koma á eftir, hirði ég lítt að ræða, enda hafði hv. þm. þar þann varnagla, að þær röskuðu ekki meiningu frv. Um ákvæði frv. snertandi atkvgr. um till. sáttasemjara er það að segja, að mér er ljóst, að reynsla undanfarinna ára hafi sýnt, að sú regla, sem ætlazt er til, að höfð verði, myndi aldrei hafa haft úrslitaþýðingu um niðurstöðu atkvgr.

Um það, hvernig heppilegast sé að skipa félagsdóm, má deila. Að skipa hann eins og ha-. þm. leggur til, kann að vera betra að einhverju leyti, en að öðru leyti verra. Mér er tjáð, að reynsla af gerðardómum erlendis hafi sýnt, að dómur, sem skipaður er af báðum aðiljum og einum oddamanni, sé veikur dómur, því að oddamaðurinn sé þá að jafnaði veikur fyrir gagnvart þeim aðiljanum, sem sterkari er, en það er að jafnaði atvinnurekandinn. Ég held, að trúa megi því, að dómurinn verði sterkari, ef oddamaðurinn er ekki einn, heldur komi í hans stað þrír menn, sem ekki eru tilnefndir af sjálfum deiluaðiljum. En þetta tel ég ekki skipta miklu máli.

Þá gerði hv. þm. mikið úr banninu við pólitískum verkföllum. Þetta er einber misskilningur. En að svo miklu leyti sem frv. gerir ráð fyrir, að 17. gr. frv. leggi bann við pólitískum verkföllum, gerir brtt. hans enga breytingu á því, því að þó að gr. þessi verði felld niður, hefir það engin áhrif á vinnustöðvanir, sem gerðar eru í því skyni að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim er ekki skylt að framkvæma l. samkvæmt, eða láta vera að framkvæma athafnir, sem . þeim ber að framkvæma að l. Því að slíkt eru raunar ekki verkföll, heldur uppreisnir, og uppreisn er bönnuð samkvæmt stjórnarskránni og hegningarl. En ég bið hv-. þm. að gæta þess, að því fer fjarri, að þetta gildi um öll pólitísk verkföll. Það er t. d. ekki bannað að gera mótmælaverkföll gegn ósettum l. Má einmitt segja, að nú fyrst séu pólitísk verkföll lögleyfð. En hitt, að ætla að þvinga stjórnarvöldin með ofbeldi til að láta vera að framkvæma 1. eða að framkvæma þau öðruvísi en vera ber, er ólöglegt, alveg án tillits til þessa ákvæðis, sem um það kunna að verða sett í væntanlegri vinnulöggjöf, og verður vonandi í lengstu lög ólöglegt í þessu landi.

Ég hefi þá tekið fram flest af því, sem nauðsynlegt er. Ég endurtek það, að ég vorkenni hv. 3. þm. Reykv-. hans leiðinlegu afstöðu til þessa máls, sem miðast eingöngu við það, í hvaða pólitískri afstöðu hann stendur nú gagnvart sínum fyrra flokki. Og sá ágreiningur, sem er um málið innan verklýðsfélaganna, miðast eingöngu við þetta sama. Hv. þm. veit, að ef ekki hefði tekizt svo til um afstöðu hans, þá hefðu öll verklýðsfélög greitt atkv-. með þessari vinnulöggjöf, og hann hefði sjálfur gengizt fyrir því í sinu stóra verklýðsfélagi, sem ljósast kemur fram í því, að á fyrra þinginu 1937 sóttist hann sjálfur eftir því að flytja þetta frv-. hér á Alþ. En um ágreininginn innan verklýðsfélaganna má annars segja það, að fleiri félög hafa samþ. frv. en mótmælt því. 30 félög hafa samþykkt það, en 15 mótmælt því. Ekki svo að skilja, að þessi félög, sem samþ. hafa frv., hafi ekki óskað breytinga á því. Það hafa þau gert nær undantekningarlaust. Við óskum allir breytinga á frv. En að tjá sig fylgjandi er að lýsa yfir því, að menn sætti sig við samþykkt frv., þó að breytingarnar fáist ekki fram. Um þennan umtalaða meiri hl. hins skipalagsbundna verkalýðs, sem á að vera á móti frv-., liggur ekkert fyrir, því að engar nákvæmar tölur eru komnar um fylgi málsins innan einstakra verkalýðsfélaga. Og að telja 1700 atkv-. á móti frv-. í Dagsbrún, sem er öll meðlimatala félagsins, þegar vitanlegt er, að ekki voru nema 200, sem greiddu atkv. á móti því — það nær engri átt. Ég hefi auk þess sannar fregnir af því, að þessi 200 mótatkv. voru fengin með því, að þeirri einkennilegu aðferð var beitt við atkvgr., að leita í skyndi mótatkv. gegn till. um að lýsa félagið andstætt frv. og telja síðan fólkið út úr fundarhúsinu. Mismunurinn — 200 — var talinn hafa verið með till.! Þvílík vinnubrögð hefir hv-. þm. lært af hinum nýju bandamönnum sínum, kommúnistum. Þarf hann ekki að gera því skóna, að ég eða aðrir kunnugir falli í stafi yfir þessháttar sigrum. Til þess hefi ég of oft séð hann koma sveittan á enni og illa til reika af Dagsbrúnarfundum, eftir að hafa glímt þar við kommúnista og stundum eftir að hafa orðið undir í upphlaupum þeirra. Það hefðu fleiri en hann getað unnið ámóta sigra og hann með því að stökkva yfir til andstæðinganna á þann hátt sem hann hefir gert.