30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Það er eins og hv. síðasta ræðumanni sé ekki ljóst, hvernig verkamenn gera verkföll. Þeir gera það á móti auðvaldinu. Þess vegna gera verkamenn í Rússlandi ekki verkföll. Þar eiga þeir framleiðslutækin.

Hæstv. forsrh. var að tala um það áðan, að verkalýðsfélögin hefðu ekki kynnt sér nægilega vinnulöggjafarfrv., áður en þau mótmæltu því. Þetta er rangt hjá honum. Þau félög, sem kynntu sér þetta bezt, mótmæltu hvað skarpast. Ég hefi hér tvö tölublöð af Þjóðviljanum, þar sem prentuð eru mótmæli frá verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði og Bílstjórafélagi Akureyrar, og höfðu bæði félögin undirbúið nefndir, sem skipaðar voru til þess að athuga þetta mál. Var sú athugun mjög ýtarleg, og hver einasta grein tekin fyrir. Hæstv. forsrh. dugir ekki að skjóta sér bak við þetta, einmitt af því að verkalýðurinn skilur, að þetta frv. er byrjun á þrælalögum. Þess vegna mótmælir hann því. — Þá talaði hæstv. forsrh. um, að Septembersættin svo kallaða væri fyrirmyndin að þessari vinnulöggjöf, og fannst það hart, að við dirfðumst að kalla hana þrælalög, en í sömu andránni viðurkenndi hæstv. ráðh., að danski verkalýðurinn hefði gengið að þessari sætt, af því að hann hefði verið píndur til þess af hungri. Hvílík sætt! Það eru laglegir samningar, þegar afstaðan er þannig. Það er von, að hæstv. ráðh. finnist það fyrirmynd.

Íslenzkur verkalýður vill ekki frekar en danski verkalýðurinn ganga inn á svona sætt, nema hann sé beygður til þess af hungri. En það er ekki fyrir hendi nú, og þess vegna er hann á móti þessari vinnulöggjöf í anda septembersættarinnar, sem er tákn hungursins.

Þá talaði hæstv. forsrh. um vinnulöggjöfina á Norðurlöndum. Veit hann ekki, að verkalýðurinn þar hefir barizt á móti vinnulöggjöf, en það hefir ekki enn tekizt að afnema hana, því að þó að sósíalistar fari að vísu með völd á Norðurlöndum, þá er það samt auðvaldið, sem ræður í raun og veru.

Þá hélt hæstv. forsrh. því fram, að kommúnisminn skapaði nazismann. Þetta er vitanlega alrangt. Í þessu sambandi vil ég benda á, að nazisminn hefir ekki komið upp, þar sem kommúnisminn hefir komizt til valda. Í Rússlandi er nazismi t. d. ekki til. En aftur á móti, þar sem lýðræðið ríkir á þann hátt sem hæstv. ráðh. virðist álíta heppilegast, þar hefir nazisminn því miður náð tökunum, eins og t. d. í Þýzkalandi og Austurríki. Gerðardómurinn, sem búið er að samþ. hér, og vinnulöggjöfin, sem verið er að samþ., eru áfangar á brautinni til fasismans, og á þeirri braut viljum við kommúnistar láta snúa við og vonum, að Framsfl. átti sig og geri það, áður en það er of seint.

Hv. þm. N.- Ísf. var að tala um hlutfallið milli löggjafar og valds. Hann reyndi að halda því fram, að við kommúnistar værum á móti endurbótum með löggjöf. Þetta er firra, sem hv. þm. S.-Þ., JJ, hefir útbúið, og er það sláandi dæmi um, hvað djúpt sokkinn hv. þm. N.-Ísf. er, að hann skuli taka þetta upp.

Annars er það svo, að vald alþýðusamtakanna hefir meiri og minni áhrif á löggjöfina, og því sterkari sem samtök verkalýðsins eru, því meiri verða þau áhrif. Vald hans endurspeglast í lögunum. Aukið vald verkalýðsins knýr fram meiri endurbætur, þó að hann sé ekki í stjórnaraðstöðu, vegna þess að þjóðfélagið tekur þá meira tillit til hans. Þannig hefir verkalýðurinn með valdi sínu knúð fram almennan kosningarétt og aukningu á þeim kosningarétti. Það hefir einnig farið þannig í þeim löndum, sem fasisminn hefir lagt undir sig, að verkalýðurinn hefir misst kosningaréttinn, vegna þess að hann var ekki nógu sterkur utan þings til þess að vernda réttindi sin. Þar hjálpa engin lög. Þar hrynur lýðræðisbyggingin eins og spilaborg, ef vald verkalýðsins er ekki nógu sterkt. Og hvað sannar reynslan frá Þýzkalandi og Austurríki í þessum efnum? Þar trúðu sósíalistar á almætti lagabókstafsins og fyrirlitu aðvaranir okkar kommúnista. 1921 gerðu hervaldssinnar í Þýzkalandi uppreist og tókst að ná völdunum. Verkalýðurinn mótmælti þá með allsherjarverkfalli og knúði þannig hervaldssinna til þess að leggja niður völd á þriðja degi. Árið 1933, þegar Hitler varð kanslari, var sami möguleikinn fyrir hendi fyrir því, að hrinda honum úr veldisstóli. Kommúnistar buðu sósíalistum upp á, að gert yrði sameiginlegt allsherjarverkfall, en sósíalistar neituðu að nota þetta eina vald, sem gat verndað frelsi þeirra og lýðræðið. Þess vegna fór sem fór. Hv. þm. N.-Ísf., VJ, fer með hreinar blekkingar, þegar hann er að tala um þessa afstöðu, og þær blekkingar eru hættulegar. Ástæðan til þess, að hann og flokksmenn hans fara með þessar blekkingar, er sú, að þeir trúa ekki á baráttuvilja, fórnfýsi og kraft verkalýðsins. Hv. þm. N.- Ísf., VJ, trúir á almætti þingvaldsins og blessun hrossakaupanna og hefir ekkert á móti því, að takmarka frelsi verkalýðsins fyrir tilverknað þessara afla. En verkalýðurinn hefir lært af reynslunni og beitir öllum áhrifum sínum til þess að varðveita frelsi sitt og knýja fram kjarabætur fyrir sig. Þess vegna sendi hann okkur kommúnistana á þing til þess að bera fram frv. um hagsmunabætur. Verkalýðurinn veit, að öll hans réttindi og frelsi byggist fyrst og fremst á valdi hans sjálfs og vilja til þess að verja þessi réttindi með öllum þeim ráðum, sem duga. Og þetta vald mundi verkalýðurinn vernda, og verja með því lýðræðið og þingræðið, sem að miklu leyti skapast af þessu valdi.

Hv. þm. lauk ræðu sinni með því, að aumka hv. 3. þm. Reykv., HV. Ég held, að hv. þm. N.-Ísf. ætti að gráta sínum krókódílatárum yfir sjálfum sér og flokksbræðrum sínum hér í þinginu, sem standa uppi fylgislausir og verða að grípa til þeirra vandræðaráða sem raun ber vitni um. Hv. þm. sagði, að sum verkalýðsfélögin hér í Reykjavík, sem hefðu mótmælt vinnulöggjöfinni, hefðu verið stofnuð af fjandmönnum Alþýðufl. til þess að mótmæla nú(!).

Svo eru þessir menn að tala um, að Héðinn og kommúnistar séu sérstaklega einangraðir í Dagsbrún, — þessir vesalingar, sem stóðu uppi með 27 atkv., þó að þeir tefldu fram sínum beztu ræðumönnum, eins og hv. þm. Seyðf., HG. Einnig halda þeir því fram, að í sjómannafélaginu hafi ekki skort vilja sjómannanna til þess að samþ. vinnulöggjöfina, en það hafi bara ekki unnizt tími til þess. Það var margsinnis skorað á Sigurjón Á. Ólafsson að ræða málið í félaginu. Hann kom sér hjá því að ræða við sjómennina um þetta. Það eina, sem hægri mennirnir hafa með sér, er pappírinn í Alþfl., og hans þolinmæði er ekki hægt að ofbjóða, en þolinmæði fólksins er hægt að ofbjóða, og þess vegna yfirgefur fólkið hægri mennina í alþýðusamtökunum, enda mun sá dagur koma, að þessir menn verða fyrir miklum vonbrigðum, þrátt fyrir það þótt þeir reyni að blekkja sjálfa sig. Ég er hræddur um, að það verði ekki langt þangað til, að hv. þm. N.-Ísf., VJ, og hans fylgifiskar komi til með að sjá, að vonbrigði þeirra verði einhver þau hörmulegustu, sem foringjar nokkurs stjórnmálaflokks hafa lent í, og ég hygg, að þeir muni sjá hilla undir þau vonbrigði í dag, 1. maí, þegar verkalýðssamtökin munu sýna vald sitt og vilja.

Það var rangt, sem hv. þm. Seyðf., HG, lauk ræðu sinni með áðan, að alþýðuflokksmenn og kommúnistar héldu þennan hátíðisdag ekki sameiginlega. Víða á landinu halda þeir sameiginlegar skemmtanir og fundi, t. d. á Siglufirði, Norðfirði, hér í Reykjavík og víðar á landinu. Hér hefir Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur, sem er hið löglega stjórnmálafélag Alþýðufl. hér í Rvík, 15 verklýðsfélög og Rommfl. tekið saman höndum um að halda sameiginlega hátíð 1. maí og fara sameiginlega kröfugöngu. Það er ekki reiknað með því af fjöldanum, þó að nokkrir hálaunaðir embættismenn skeri sig út úr og fari sérstaka grafargöngu með það flokksbrot, sem er á leiðinni til grafar. Verkalýðurinn á Íslandi ætlar að sameinast. Þess vegna „marsérar“ hann fjölmennur út á göturnar 1. maí, ekki sízt í Reykjavík. Hann gerir það til þess að mótmæla vinnulöggjöf, hann vill verja sitt frelsi — til þess að mótmæla atvinnuleysinu, sem alltaf er að færast í aukana, til þess að mótmæla afturhaldinu, sem er að færa sig upp á skaftið hér í þinginu og annarsstaðar. Þess vegna skora ég í nafni Kommfl. á verkalýðinn hér í Reykjavík að fjölmenna þúsundum saman á Lækjargötu kl. 2 og síðar á Austurvelli. Takið þátt í kröfugöngu Alþfl. og Rommfl. Það er nauðsynlegt á þessum tímum, að verkalýðurinn sýni, hvað fjölmennur hann er, því að í fjöldanum liggur hans kraftur.

1. maí er byrjaður. Til baráttu öll þið, sem viljið vernda frelsi verkalýðsins fyrir þeirri skerðingu, sem ætlazt er til, að á því verði gerð með því frv., sem hér er til umræðu. Öll eitt, 1. maí!