09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

32. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

Vilmundur Jónsson:

Ég held, að það sé alveg tvímælalaust, að allar ljósmæður, sem nú njóta persónulegs styrks á fjárl., komi undir ákvæði þessara væntanlegu laga, þannig að þær fái sömu eftirlaun greidd úr sjóðnum sem til þessa hafa fengizt greidd úr ríkissjóði. Sjóðurinn tekur því næst að sér að greiða þeim ljósmæðrum eftirlaun, sem, eftir að þessi l. ganga í gildi, hætta störfum af gildum ástæðum og hafa starfað nægilega lengi eftir ákvæðum l. Loks í 3. lagi geri ég ráð fyrir, að sjóðurinn verði að taka að sér að greiða þeim ljósmæðrum eftirlaun, sem til þessa hafa fengið greidd eftirlaun samkv. ákvæðum ljósmæðralaganna. En hinsvegar koma ekki til greina eftirlaunagreiðslur úr sjóðnum til þeirra ljósmæðra, sem þegar hafa látið af störfum eða láta af störfum, eftir að þessi l. ganga í gildi, og hafa engin eftirlaun fengið sér ákveðin. hvorki af sýslunefndum samkv. ljósmæðral. né á fjárlögum sem persónulegan styrk. Það má vera, að fyrir liggi umsóknir um eftirlaun frá ljósmæðrum, sem þannig stendur á fyrir, og að fleiri slíkar umsóknir munu berast á næstu árum. Ef þeim á að sinna, yrði að gera það sérstaklega með ákvæðum í fjárl., því að sjóðurinn er ekki miðaður við, að hann taki að sér slíkar kvaðir. Og það hygg ég, að hafi alls ekki verið athugað, hvað þær ljósmæður kunna að vera margar, sem þannig er ástatt um

Ég vil taka það fram, jafnvel þótt ég muni hafa getið þess við 1. umr., að þótt ég sé flm. að frv., ber ég ekki ábyrgð á útreikningum þeim, sem frv. byggist á. Ég hefi rannar nokkuð tortryggt þá, því að mér virðist ríkissjóður sleppa ótrúlega vel, ef hægt er að komast af með þessi útgjöld. Brynjólfur Stefánsson tryggingafræðingur hefir fyrir nokkrum árum reiknað þetta úr. Ég skaut því að fjhn., að nauðsyn bæri til að endurskoða þessa útreikninga, vegna þess að nokkuð er um liðið, og ráðlagði n. að snúa sér til tryggingarstofnunarinnar. Geri ég ráð fyrir, að þetta hafi verið gert. og séu útreikningarnir þar með staðfestir. En ef þetta er rétt, þá er samþykkt þessa frv. reglulegur búhnykkur fyrir ríkissjóð, þar sem gert er ráð fyrir, að hann borgi ekki meira en nú er borgað ljósmæðrum til eftirlauna þeirra samkv. fjárl., og um leið tryggi hann sig gegn þeim kröfum í framtíðinni, þótt nokkrar undantekningar kunni að verða vegna þeirra ljósmæðra, sem þegar hafa látið af starfi, eða láta af starfi áður en l. ganga í gildi, en engin eftirlaun hafa fengið sér ákveðin.