09.05.1938
Neðri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti! Fjhn. hefir athugað þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka lán og ekki náðst samkomulag í n. um afgreiðslu þess. Meiri hl. fjhn. leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en hinsvegar hafa 2 nm., hv. þm. G.- K. og hv. 4. landsk., ekki getað fallizt á frv. Nú er komið nál. frá hv. þm. G.-K. á þskj. 481. Ég tel rétt að segja nokkur orð um leið og meiri hl. fjhn. leggur til, að ríkisstj. verði veitt þessi heimild til að taka allt að 12 millj. kr. lán erlendis. Það er meiri ástæða til þess að ræða þetta mál nú vegna þess, að ekki náðist samkomulag í fjhn. um þetta frv. Ég hygg, að þetta sé í fyrsta skipti, þegar íslenzka ríkið tekur erlent lán, að ekki hefir náðst samkomulag um það milli helztu flokka þingsins. Af þeim ástæðum er eðlilegt, þótt dálítið sé um þetta rætt, jafnvel þó að tími þingsins sé nú orðinn naumur.

Það er þegar tekið skýrt fram í þeirri grg., sem fjmrh. lét fylgja frv., að hér er um lántöku að ræða til þess að mæta gjaldeyrisvandræðunum, til þess að greiða að nokkru leyti afborganir af erlendum lánum. Undanskilin er þó sú millj., sem á að nota til þess að reisa síldarverksmiðju á Raufarhöfn. Það er öllum kunnugt, að gjaldeyrisvandræðin eru mikil nú, og það hafa verið uppi raddir hjá öllum flokkum, að þau yrði að leysa. Þetta hefir verið skýrt áður af hæstv. fjmrh., og skal ég láta þær skýringar að mestu nægja um það, hvaða orsakir til þess liggja. Ég skal aðeins drepa á það, sem þó hefir verið nefnt hér áður, að á síðustu árum hefir innflutningur lánsfjár verið því nær enginn til landsins. Hinsvegar hefir áður, allt frá árinu 1920, verið flutt inn fjármagn í stórum stíl. Eftir skýrslum hagstofunnar ættu ríkisskuldirnar að hafa vaxið á árunum 1925–34 úr 39,5 millj. upp í 83,5 millj. Í árslok 1934 voru ríkisskuldirnar 83,5 millj., í árslok 1935 91,3 millj. og í árslok 1936 90,3 millj. Hækkun ríkisskuldanna síðustu árin stafar eingöngu af því, er varið var til Sogslánsins. Þetta eru mjög eftirtektarverðar staðreyndir, einkum þegar þess er gætt, hversu mikla erfiðleika atvinnuvegir þjóðarinnar hafa átt við að stríða þessi sömu ár og innflutningur lánsfjár hefir verið stöðvaður. Nú er það svo, að upphæð sú, sem fer til afborgana á skuldum erlendis, mun árlega nema um 41/2 millj., samkvæmt þeim skýrslum, er fyrir liggja. Getur íslenzka ríkið hækkað skuldir sínar um þessa upphæð árlega eins og atvinnurekstri vorum er háttað? Þetta er aðalatriði þessa máls og það sem hið háa Alþingi verður að taka afstöðu til.

Það er að mínum dómi aðalatriðið, hvort mögulegt er að lækka erlendar skuldir svona mikið árlega, eins og ástandið hefir verið. Væri það unnt. þá myndum við greiða allar okkar erlendu skuldir á rúmlega 20 árum. Það væri æskilegt, að þetta væri hægt, en ég hygg, að þegar hv. þm. fara að athuga þessi mál, muni þeir hljóta að viðurkenna með sjálfum sér, að þetta sé alveg óhugsandi, að við getum til lengdar greitt svona mikið af skuldum okkar erlendis. Þetta verður vilanlega því ljósara, ef við athugum, hvernig ástatt er með aðalatvinnuvegi okkar einmitt þessi árin. Fiskveiðarnar eru sá atvinnuvegur, sem færir okkur mest af erlendum gjaldeyri, en megin hluti af landbúnaðarvörum er notaður til fæðis og klæðis í landinu sjálfu. Saltfisksútflutningurinn hefir minnkað stórkostlega á síðustu árunum. Hann færði okkur 41 millj. kr. árlega á árunum 1924–1927, rúmlega 39 millj. kr. árlega á árunum 1928-1931, 27,4 millj. kr. að meðaltali á árunum 1932–1934, en eftir það hrapaði verðmæti hans svo mjög. að á árunum 1934– 1937 verð það aðeins 17 millj. kr. að meðaltali, eða innan við helming þess, sem það var 10 árum áður. Þetta út af fyrir sig sýnir, hvílíka óhemjuerfiðleika hér hefir verið við að stríða. því er oft svarað, að hér hafi aðrir atvinnuvegir komið í staðinn, síldariðnaðurinn veitt mörgum atvinnu og flutt mikinn gjaldeyri inn í landið. Þetta er rétt, það sem það nær, en aukning síldarframleiðslunnar svarar ekki til rýrnunar saltfisksmarkaðarins. Auk þess hefir gífurlegur tilkostnaður orðið við eflingu síldariðnaðarins, og í hinum nýju verksmiðjum hefir verið bundinn höfuðstóll svo millj. kr. skiptir, auk annars kostnaðar, sem vissulega getur ekki nema með löngum tíma fært okkur það fé, sem í það hefir verið lagt. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það, þótt nú í tvö síðastliðin ár hafi landbúnaðurinn líka orðið að berjast við þá ægilegu drepsótt, sem heimsótt hefir kvikfénað þessa lands nú um langan tíma, og ástandið sé þannig, að bæði saltfisksmarkaðurinn og fiskveiðarnar hafa algerlega brugðizt á síðari árum, hefir tekizt að ná betri verzlunarjöfnuði nú síðustu árin heldur en á ýmsum árum áður, þegar um meiri gjaldeyri virðist vera að ræða. Þetta hefir vitanlega náðst öðrum þræði með því að beita innflutningshöftum, en hinum þræðinum með því að veita fé til atvinnuveganna í stærri stíl en gert hefir verið áður. Stjórnarandstæðingar temja sér að tala um, hve stórkostlega fjárl. hafi hækkað? Það er af því einu, að aldrei hefir verið veitt meira fé til atvinnuveganna heldur en hin siðari ár. Þetta hefir orðið að gera vegna þess, hve atvinnuvegir landsmanna hafa verið aðþrengdir, og það stafar að mestu leyti af óviðráðanlegum orsökum, svo sem markaðsbresti, aflaleysi, drepsótt, sem gengið hefir í kvikfénaði landsmanna, svo að ég nefni aðeins einstök dæmi, án þess að rökræða það frekar. Nú er það vitað, að einmitt þrátt fyrir það, þótt náðst hafi bættur verzlunarjöfnuður, hafa þó gjaldeyrisvandræðin aukizt. Þetta veldur að nokkru leyti, að verzlunarhalla fyrir árin 1934 –1935, hefir ekki lánazt að vega upp, og á síðastl. ári bættist við þann halla vegna þess, að innstæður erlendis hafa ekki komið okkur að gagni eins og nú stendur.

Meiri hl. fjhn. virðist vera full ástæða til þess að veita þessa umbeðnu lánsheimild. Það er tekið skýrt fram í grg. frv., til hvers eigi að verja þessu láni. Þetta lán er, að frátekinni 1 millj. til síldarverksmiðju á Raufarhöfn, eingöngu tekið til afborgana á erlendum lánum. Meiri hl. fjhn. telur, að það sé einmitt þessi notkun lánsfjár, sem réttlæti það, að þessi heimild verði veitt. Meiri hl. fjhn. lítur á grg. frv. og þá yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gefur þar, að hún jafngildi beinu lagaákvæði, enda er það venja, þegar um erlendar lántökur er að ræða, að þar standi ekki annað en að lánið skuli tekið, en ekki til hvers eigi að nota það. Meiri hl. fjhn. treystir ríkisstj. til þess að nota lánið aðeins á þann hátt, sem þar er fyrir mælt. Ég skal í sambandi við þetta geta þess, að eins og grg. ber með sér, er það ekki eingöngu ríkið, sem á að fá þetta lán til afnota til þess að greiða afborganir af sínum skuldum, heldur líka ýms bæjar- og sveitarfélög og bankarnir, sem skulda stórfé og miklu meira hlutfallslega heldur en það, sem ríkið sjálft skuldar. Vitanlega er engu síður ástæða fyrir þessa aðilja þjóðfélagsins að fá lántökuheimild heldur en ríkið sjálft.

Ég vil ekki halda hér langa ræðu um þessi efni, en get þó ekki látið vera að segja örfá orð í sambandi við nál. minni hl. fjhn., jafnvel þó að hv. þm. G.–K. sé ekki búinn að tala fyrir sínu máli. Það má vel vera, að þetta verði til þess að flýta umr. Ég mun minnast á einstök atriði í grg. frv. og afstöðu hv. þm. G.-K. til þessa máls. Þá er það hið fyrsta, sem er eftirtektarvert, hvernig hv. þm. G.-K. byrjar sína grg. Þar segir svo: „Hér er því um lántöku að ræða, sem er að því leyti sérstaks eðlis og frábrugðin fyrri lántökum, að lánsfénu á einvörðungu að verja til afborgana á erlendum skuldum, ef og að svo miklu leyti sem þjóðin ekki með öðrum hætti aflar gjaldeyris til þeirra þarfa“. Hér viðurkennir þessi hv. þm., að þetta lán eigi að nota eins og fjmrh. hefir lagt til. En mér kemur það dálitið einkennilega fyrir sjónir, þegar Sjálfstfl. ætlar að beita sér gegn því, að greitt verði úr gjaldeyrisvandræðunum, en hér viðurkennir formaður þess flokks, að lánið sé eingöngu tekið í því skyni. En þessi flokkur hefir langmest kvartað um gjaldeyrishömlur. Það mætti því gera ráð fyrir, að Sjálfstfl. væri þessu frv. fylgjandi, en væri það tilætlun hans, að rýmkað yrði á þeim, yrði það mögulegt, þegar lántökuheimildin er notuð, eins og gert er ráð fyrir í frv. Þessi tvískinnungur kemur mjög ákveðið fram, þegar Sjálfstfl. vill ekki ljá fylgi sitt til þess að greiða úr þessum hlutum.

Þá segir í grg. minni hl., að gjaldeyrisskorturinn stafi sumpart af þeim sjálfskaparvítum, að núverandi stuðningsflokkur ríkisstj. hafi stofnað fjármála- og atvinnumálum þjóðarinnar í beint óefni. En hvar eru þær till., sem komið hafa frá Sjálfstfl. um aðra stefnu í fjármálum? Hér er aðeins bent á, að fjárl. hafi hækkað, en þeir finna ekkert annað árásarefni. Ég hefi ekki orðið þess var, að Sjálfstfl. sem aðalandstöðuflokkur stj. hafi borið fram rökstuddar till. um aðra stefnu í fjármálum þjóðarinnar. Það hafa aðeins komið órökstuddar ádeilur um að fjárlögin væru of há, en það hafa ekki komið fram till. frá þessum flokki um leiðir til þess að lækka þau, heldur hefir Sjálfstfl. borið fram till. til hækkunar til jafns við aðra flokka, og stundum miklu meira en aðrir, a. m. k. áður fyrr. Ég get því ekki skilið það, að hægt sé fyrir Sjálfstfl. að vera móti þessari lántöku á þessum grundvelli, enda kemur það fram í sjálfri grg. minni hl. n., að í raun og veru er Sjálfstfl. með lántökunni. Það má heita, að það sé sagt þar skýrum orðum, en hinsvegar vill hann ekki taka þá ábyrgð á sig. Ég verð því að segja það, að mér virðist þetta álit hv. þm. G.- K. og afstaða Sjálfstfl. til þessa máls vera sú, að hann, sem er annar stærsti flokkur þingsins, þorir ekki að taka afstöðu til málsins. Hún er a. m. k. ekki neitt stórmannleg. Hún minnir mig á afstöðu Víga-Styrs, þegar hann barðist móti Snorra goða og drap fyrst menn úr hópi Snorra, en hljóp síðan í flokk hans og drap annan mann úr liði Steinþórs á Eyri. Ég ber það að vísu ekki á Sjálfstfl., að hann ætli að stofna til mannvíga í eiginlegri merkingu, en þeir berja hart í skjöldu. Þeir þora ekki frekar en Styr að taka afstöðu. Þeir játa að vísu, að það þurfi að greiða fram úr gjaldyrisvandræðunum, leiðin til þess er að taka lán, en þeir þora ekki að taka afstöðu til þessa máls, heldur haltra áfram og aftur mitt á milli.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en það. sem ég hefi hér sagt, er samkvæmt því nál., sem meiri hl. fjhn. hefir hér flutt á þskj. 488. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það er nú.