06.05.1938
Efri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Mál þetta hefir verið nokkurn tíma í fjhn., og stafar það af því. að bæði flm. þess og öðrum var ljóst, að það gæti því aðeins náð afgreiðslu, að um það yrði samkomulag milli flokka, og það hefir nú farið svo, að öll n. hefir orðið sammála um að afgr. það með þeim breyt., sem tilgreindar eru á þskj. 438, sem eru allmiklar breyt. á frv. sjálfu.

Um. var ljóst, að ekki var heppilegt að undanþiggja þessi fyrirtæki alveg tekju- og eignarskatti, þar sem líta mætti svo á, að einskonar skarð væri höggvið í l. um tekju- og eignarskatt, ef ákveðin fyrirtæki væru algerlega undanþegin tekju- og eignarskatti, heldur yrði að finna fyrir þau eitthvert eðlilegt form, sem hentaði beinlínis botnvörpuútgerðinni sem slíkri, og sýndi sig að vera eingöngu af því að þessum mjög svo nauðsynlega atvinnuvegi yrði borgið eða hann örfaður, eins og allir viðurkenna nú að þurfi, eins og árferðið hefir verið. N. leggur því til að gera þá breyt. á l. gr., að í staðinn fyrir að undanþiggja botnvörpuútgerðina alveg tekju- og eignarskatti á þeim árum, sem til greina kæmu eftir frv., þá er nú svo til ætlazt, að reglan í tekjuskattslögunum um, að slík fyrirtæki megi draga frá tap 2 undanfarinna ára, sé víkkuð út þannig, að reikna megi frá það tap, sem þau hafa orðið fyrir eftir 1. jan. 1931, enda liggi fyrir skjallegar sannanir um það, hvernig þetta tap er gert upp. Þetta hefir þann kost, að með því kemur greinilega í ljós, að hér er um bjargráðaráðstöfun að ræða, þannig að þau fyrirtæki, er harðast hafa orðið úti, fá mesta ívilnun. Á hinn bóginn er ekki grundvallarreglan um tekju- og eignarskattslögin brotin, heldur er aðeins sú heimild, sem fyrir er í l., færð út. Þetta er bundið við árin 1938–1942, þannig að svo er litið á, að fyrirtækin geti á þeim árum unnið upp þau töp, sem þau hafa orðið fyrir frá 1. jan. 1931.

Þá er önnur ívilnun, sem sé sú, að sömu fyrirtæki megi draga frá skattskyldum tekjum sínum 90% af því, sem þau leggja í varasjóð, í stað þess, að samkv. frv. eiga þau nú að vera skattfrjáls. Með þessu er ekki brotin nein regla tekju- og eignarskattslaganna, því að eins og hv þm. vita, mega hlutafélög og önnur félög, sem nánar eru tilgreind í tekju- og eignarskattslögunum, draga frá helming þess, sem þau leggja í varasjóð, eftir nánari skilyrðum, sem þar eru sett. Með þessari breyt. hefir þá það náðst, að ekki er brotin á neinn hátt nein regla tekju- og eignarskattslaganna, og í öðru lagi að þeim fyrirtækjum, sem harðast hafa orðið úti, sérstaklega rétt hjálparhönd.

Þá er önnur brtt., og er hún fullkomin umorðun á 3. gr. frv., en í sjálfu sér er það ekki jafnmikil breyt. eins og á 1. gr. frv., heldur er þar undir 3. stafl. búið nákvæmlega um þá hluti, sem 1. gr. frv. ræðir um, sem sé að þessi fyrirtæki verji ekkí ágóða sínum til útborgana á óeðlilegan hátt, meðan þau njóta þeirra ívilnana frá ríkinu og bæjar- og sveitarfélögum, sem 1. og 2. gr. frv. ákveða. Ég hygg, að ekki þurfi að útskýra nánar fyrir hv. þdm. þær ráðstafanir, sem þar eru gerðar, til þess að þetta verði ekki á neinn hátt misnotað.

Þá er 3. brtt. Hún er um það, að inn komi ný gr., þar sem svo er ákveðið, að fjhmrh. setji nánari reglur um framkvæmd þessara l. Það er sennilegt, að hann hefði heimild til þess, þó að ekkert væri tekið fram um það hér, en við flm. hefðum að sjálfsögðu tekið upp þetta ákvæði, ef okkur hefði hugkvæmzt það, því að við framkvæmd slíkra l. koma fram mörg atriði, sem ekki er ástæða til að setja l. um, en ráðh. setur þá reglur um eftir till. þeirra manna, sem um þetta eiga að fjalla.

Um þessar brtt. og frv. með þessum breyt. náðist sem sé samkomulag í fjhn., og skal ég ekki tefja tímann með fleiri orðum um þetta, og því síður málið í heild, heldur láta í ljós þá ósk, að þeir flokkar, sem standa að þeim mönnum, sem skipa fjhn., geti fylgt málinu í því formi, sem n. hefir afgr. það í.