09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Við 2. umr. sýndi ég fram á, að þetta frv. væri varhugavert og til vansæmdar fyrir Alþingi, ef það yrði samþ.

Í annað skipti á þessu þingi hefir mér nú tekizt að nokkru leyti að sannfæra hv. 1. þm. Reykv. um, að hann hafi á röngu að standa, og tel ég það mikið innlegg fyrir mig.

Áður en ég sný mér að brtt. á þskj. 479, sem ég flyt, vil ég leyfa mér að henda á þrjár staðreyndir úr hinu praktíska lífi. Ég skal fyrst benda á, að ég skil með orðinu útgerðarfyrirtæki hér sjálfstæð félög eða einstaklinga, sem sjá um rekstur, og ég ætla, að ekki sé hægt að skilja það öðruvísi. Menn sjá, hversu þetta er misjafnt um landið, þar sem sum útgerðarfyrirtæki, samhliða útgerðinni, reka verzlun, skipaafgreiðslu, iðnað og landbúnað. Allur þessi rekstur á að vera skattfrjáls. Hvort hv. flm. hafa ætlazt til þessa, skal ég láta ósagt, en mér þykir sennilegt, að svo hafi ekki verið. Nú eru þeir sjálfir, hvað Patreksfjörð snertir, búnir að sjá, að ef þeir svipta hreppinn hér um bil 3/5 hlutum af útsvörunum, muni hann eiga æði erfitt uppdráttar, og þegar þetta fyrirtæki, sem þar er um að ræða, hefir borið sig sæmilega, sé engin ástæða til þess. Og það eru til útgerðarfyrirtæki víðar en á Patreksfirði, sem samhliða útgerðinni reka iðnað og verzlun og eiga útibú hér og þar á landinu. Kveldúlfur hefir síldarverksmiðju á Hjalteyri og borgar þar útsvar sem er talsverður hluti af öllum útsvarstekjum hreppsins. Hvernig fer með það? Hann á annað útibú í Glæsibæjarhreppi og hefir þar iðnrekstur. Á ekki að leggja á það? Eftir ákvæðum frv. eiga fyrirtækin á báðum þessum stöðum að vera útsvarsfrjáls og skattfrjáls. Bæði í Hafnarfirði og Reykjavík eru til fyrirtæki, sem samhliða útgerðinni reka verzlun, og það talsvert viðtækari verzlun. Á hún að vera undanþegin skattgreiðslu til bæjar og ríkis? Ég held þess vegna, að það litla, sem hv. 1. þm. Reykv. er búinn að sjá í raunveruleikanum í þessu máll, eigi eftir að víkka dálítið meir fyrir honum, þegar hann fer að athuga, hversu staðhættirnir eru ólíkir. Hv. þm. er að hugsa um útgerðina — og látum það vera —, en eins og það kemur fram hjá honum, er ekki sjáanlegt annað en hann sé líka að hugsa um annan rekstur, sem þessi útgerðarfélög hafa.

Hér kemur enn eitt. Til eru útgerðarfélög, sem reka togara, þar sem eru fáir hluthafar, kannske ekki nema ein fjölskylda. Eiga slík fyrirtæki, sem öll þessi ár hafa borgað svolítinn tekju- og eignarskatt, og þó áður verið búin að draga frá 6–10 þús., sem þau hafa greitt í útsvar, að vera skattfrjáls? Afkoman hefir ekki verið verri en það, að fyrirtækin hafa getað borgað þetta útsvar, og þó haft afgang til að borga tekjuskatt. Hvaða ástæða er til þess að gefa þetta eftir, en pína aðra til að borga, sem eiga miklu verra með það? Ég fæ ekki skilið það. Á þessum forsendum eru brtt. mínar byggðar. Þær eru fáar og smávægilegar hvað fyrirferðina snertir, en gera mikinn mismun á frv. Fyrsta brtt. er við 1. gr. Legg ég til, að í stað „þeirra“ komi: útgerðarinnar, — því annars er ekki hægt að skilja þetta á annan veg en hér sé átt við allan þann rekstur, sem viðkomandi útgerðarfyrirtæki hefir. En till. sniðin með það fyrir augum, að látið sé liggja á milli hluta, hvort það er iðnrekstur, verzlun, landbúnaður eða skipaafgreiðsla, sem fyrirtækið hefir með höndum. Ég hefi látið 90% eiga sig, enda þótt ég viti vel, hvað sum útgerðarfyrirtæki snertir, að þar er ein fjölskylda eigandinn, og því enginn varasjóður, sem myndast, en eignirnar vaxa. Slíkt fyrirtæki er vitanlega engin þörf á að þiggja undan skatti.

Þá hefi ég orðað 2. gr. um og legg þar til, að útsvarsfrelsið verði fyrst og fremst heimild, og í öðru lagi heimild, sem nái aðeins til útgerðarinnar, en ekki til annars rekstrar, sem félögin kunna að hafa með höndum.

Í samræmi við þetta flyt ég þá brtt. við 3. gr., að í stað orðanna „fyrir tapinu“ komi: fyrir tapi útgerðarinnar. Auk þess legg ég til, að aftan við 3. gr. bætist nýr stafl., og með honum vil ég reyna að fyrirbyggja það, sem því miður er mjög títt, að þegar um ágóða er að ræða, séu laun framkvæmdarstjóra, stjórnenda eða endurskoðunarmanna hækkuð, sem e. t. v. eru allir hluthafar í félaginu, og ágóðinn þannig látinn hverfa.

Ráðh. er ætlað að setja nánari reglur um þetta. En mér hefir skilizt, að allar reglugerðir þyrftu að eiga stoð í l. Nú er ekkert það til í íslenzkum l., sem getur gefið ráðh. stoð hvað þetta snertir. Ef stendur í l., að útgerðarfyrirtæki eigi að vera undanþegin skatti, þá getur ráðh. ekki, þótt hann vilji, látið nokkurn hluta af rekstri útgerðarfyrirtækja vera skattskyldan.

Brtt. mínar hafa í sér fólgnar nokkrar umbætur á frv., en þó að þær verði samþ., álít ég samt órétt, að frv. gangi fram. En með því að samþ. þær er frv. komið nokkurn veginn í það horf, sem mér skildist vaka fyrir flm., sem sé að styrkja útgerðina, en ekki útgerðarmennina til annars rekstrar en útgerðar.