09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 482 við sjálft frv., og þegar ég hafði lagt hana fram, var útbýtt brtt. frá fjhn. á þskj. 486. En til þess að vera samkvæmur sjálfum mér — gangandi út frá því, að brtt. n. kynni að falla þingheimi betur í geð, — varð ég líka að koma með brtt. (þskj. 497) við brtt. á þskj. 486.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um þetta mál. Ég er því fyllilega samþykkur, að gera þurfi ráðstafanir til að styrkja útgerðina. Hefir staðið í nokkru vafstri m. a. um það mál nú meðan þing hefir setið. Ég hefi verið í n., sem hefir átt tal við ríkisstj. um málið og einnig form. flokkanna. Og þegar svo var komið, að þessi litla tilslökun var gerð, sem mér finnst mæta óþarflega mikilli mótspyrnu af sumum hér í d., þá virtist mér hóflegt, þótt farið væri fram á, að nokkur hluti af þessu næði einnig til annara útgerðarfyrirtækja landsmanna. En ég vil taka fram strax, að mér datt aldrei í hug að fara fram á, að önnur útgerðarfyrirtæki heldur en botnvörpuskipa yrðu leyst undan útsvarsskyldu. Ég álít sérstaka þörf á að taka þetta fram vegna þess, að hv. 1. landsk. þm. virðist hafa misskilið minar brtt. Ég vil ráðleggja honum að lesa brtt. og bera saman við frv., og mun hann þá sjá, að hann fer villur vegar, ef hann heldur, að ég sé að mælast til þess, að útgerðarfyrirtæki þau, sem um ræðir í mínum brtt., séu leyst undan útsvarsskyldu. Með þessum brtt. hefi ég sem sagt farið fram á, að 1. gr. frv. kæmi þeim og til góða, eða þau væru einnig leyst undan því að borga tekju- og eignarskatt. Hér koma að sjálfsögðu þau sömu rök til greina og hjá botnvörpuskipaeigendum, því þótt segja megi, að það hafi ekki mikla þýðingu fyrir ríkissjóð né þessa menn, hvort þeir eigi að greiða tekjuskatt eða ekki, og sama gildi um smáútgerðina, getur það haft þýðingu í framtiðinni, hvort smáútgerðin má hagnýta sér þessi fríðindi líka eða á að standa utan við þau.

Ég þarf ekki að rökstyðja frekar, hvers vegna ég hefi komið fram með þessar brtt., og ég vona, að hv. þm. skilji, að ég hefi hreint og beint talið mér skylt að gera það. Hinsvegar skal ég taka fram, að ég vil ekki, að þær verði til þess að spilla framgangi málsins yfir höfuð, og þótt þær falli, mun ég greiða frv. atkv., því mér er ljóst, að það er okkur smáútvegsmönnunum enginn akkur, að ekkert sé gert heldur fyrir stórútgerðina.

Ég hefi borið þessar brtt. fram til þess að benda á jafnrétti í þessum sökum, en ekki til þess að spilla eða tefja fyrir hinu atriði málsins.