11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Sigurður Kristjánsson:

Ég held að menn geri of mikið úr þeim ágreiningi, sem hér virðist vera um að ræða, því að sjálf heimildin til að gefa eftir tekjuskatt og útsvör er takmörkuð við það, að verið sé að vinna upp tap, sem orðið hefir eftir 1. jan. 1931, a. m. k. að því er snertir skattinn. Þetta er a. m. k. áreiðanlegt að því er eignarskattinn áhrærir. Ég viðurkenni, að nokkuð er öðru máli að gegna um útsvarið. Ef um sama fyrirtæki er að ræða, yrði auðvitað að taka tillit til þess, ef það tapar á útgerð, þó að það græddi á verzlun. Og eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið held ég, að heimildin myndi verða notuð þannig, að fyrirtækið fengi eftirgjöf að því er útgerðina snertir, en ekki annað. En ég vil ekki vera að leiða hér inn í umr. það, sem í tal hefir borizt milli okkar fjhn.manna, og hefi ég því ekki þessi orð fleiri.