19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

*Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Frv. þetta er nátengt því, sem rætt var hér næst á undan, og ef það frv. nær samþykki, vonast bæjarstj. Hafnarfjarðar til, að þetta verði líka að l. Bæjarstj. Hafnarfj. er meðmælt efni þess frv., sem lá hér fyrir næst á undan, að leysa togarana undan útsvarsgreiðslu til bæjarins. En þó getur bærinn ekki misst þessar tekjur, án þess að fá eitthvað í staðinn, og því er bæjarstj. þess hvetjandi, að sú leið sé farin, sem bent er á í frv. mínu.

Bæjarstj. Hafnarfjarðar hafði orðið að leggja svo mikið á hin gjaldvana eða gjaldþrota togarafyrirtæki, að það nam um 1/4 af því, sem notað var í bænum, og þó að vanhöld hafi orðið á um innheimtuna, hafa þó um 3/4 hlutar þessa fjár komið í bæjarsjóð. Og þó að slík fjárhæð, ef út er strikuð, muni ekki Reykjavíkurbæ miklu, þá munar um hana fyrir Hafnarfjörð. Auk þess er bæjarstj. Hafnarfjarðar fýsandi þess af þeirri ástæðu, að mikið ósamræmi hefir verið milli útsvarsgreiðslu togara í Reykjavík og Hafnarfirði. Hefir jafnvel verið erfitt að fá togara til að halda kyrru fyrir í Hafnarfirði, þar sem þeim hafa boðizt betri skilyrði annarsstaðar. En eins og hv. þm. er kunnugt, byggist afkoma Hafnarfjarðar algerlega á útgerðinni.

Til þess nú að fá tekjur í staðinn fyrir það, sem hyrfi á þennan hátt, ákvað bæjarstj., eftir ýtarlega athugun, að fara þá leið, sem bent er á í frv. mínu.

Það er auðvitað, að þegar nýr skattur, eins og þessi, er lagður á nokkurn hluta manna, þá má búast við talsverðri óánægju meðal þeirra. En þessu til réttlætingar bendir bæjarstj. Hafnarfjarðar á, að af þeim ferðum, sem farnar eru milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, er mikill hluti lúxusferðir. Fólk fer yfirleitt skemmtiferðir milli bæjanna, og er það réttlætanlegt að leggja þennan skatt á, þar sem þessar ferðir eru að miklu leyti ónauðsynlegar.

Eins má geta þess, að viðhorf manna í Hafnarfirði til þessa máls er misjafnt. Þess vegna eru margir Hafnfirðingar því meðmæltir, að þessi skattur verði lagður á, ef það yrði að einhverju leyti til að hlúa að aukinni verzlun innan bæjarins. Sá skattauki, sem þarna er farið fram á, mun láta nærri, að sé svipuð upphæð og útsvörin, sem lögð hafa verið undanfarið á togarana í Hafnarfirði, ef engin vanhöld hefðu orðið á þeim greiðslum. Af þessum greiðslum verða engin vanhöld, þær koma fyrir greidda farseðla. Nú má búast við, að ferðirnar minnki milli Hafnarfj. og Reykv., og svo er langt liðið fram á yfirstandandi ár, sem ætlazt er til, að þessi tekjuöflun nái til, ef frv. verður að l., að þess vegna er varla hægt að búast við, að þessar tekjur vegi upp á móti þeim útsvarsálögum, sem annars verða lagðar á togarana í ár, þótt farið sé fram á 50% af fargjöldum milli bæjanna.

Það hefir verið minnzt á það, og má vera, að það verði til umr. í þeirri hv. n., sem málið fer til, að ekki sé réttlætanlegt að leggja skattinn á þá, sem fara ekki alla leið frá Reykjavík til Hafnarfjarðar, t. d. í Kópavog eða Vífilstaði. Þá ætti að hafa sama fargjald og nú er til þessara staða, en hækka aðeins gjöld fyrir ferðir beina leið til Hafnarfjarðar. Þessa vildi ég geta vegna radda, sem fram hafa komið í þessa átt, en því er til að svara, að ef fargjöldin verða ekki hækkuð alstaðar á leiðinni, þá mundi þetta misnotað. Menn myndu þá spara sér með því að ganga nokkurn hluta leiðarinnar en bærinn myndi missa tekjurnar af fargjaldinu. Vegna þessa hefir það beinlínis verið tekið fram í frv., að þessi skattur væri lagður á alla, sem ferðuðust á þessari leið, hvar sem þeir færu úr bílnum.

Að lokum vil ég geta þess, þótt ég hafi þegar minnzt á það í þessari framsöguræðu minni, að yfirleitt eru það Hafnfirðingar, sem ferðast þarna á milli. Fyrir nokkru síðan hefir verið talið, hvernig hlutföllin mundu vera milli Hafnfirðinga og annara utanbæjarmanna á þessari leið, og það kom í ljós, að 4 af hverjum 5 mundu vera Hafnfirðingar. Þess vegna kemur skatturinn eingöngu niður á Hafnfirðingum og þeim Reykvíkingum, sem fara til Hafnarfjarðar til að skemmta sér, því að yfirleitt munu Reykvíkingar ekki sækja mikið annað til Hafnarfjarðar en skemmtanir, eða þá að þeir fara þangað til innheimtu, og af því hvorutveggja gætu þeir vel borgað skatt.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég veit, að öllum hv. þdm. er ljóst, að þetta frv. verður að fylgja frv. því, er síðast var til umr. hér á undan, og vil ég mælast til, að því verði vísað til sömu n., að lokinni þessari umr., og vona, að það njóti sömu velvildar og ég vona, að fram komi í hv. n. gagnvart hinu frv. Eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði í framsögu sinni um það frv., eru þetta mál, sem nauðsynleg.: þurfa að afgreiðast á þessu þingi. Það hefir sýnt sig, að útgerðin hefir ekki getað borið álagða skatta undanfarin ár, og eftir því, sem útlitið er með árið í ár, eru ennþá minni líkur til, að svo verði nú.