13.04.1938
Neðri deild: 48. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

99. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Mér skilst á frv., að tilgangur þess sé að opna iðngreinirnar hér í Rvík fyrir meiri fjölda manna en áður, og í grg. frv. er talað um, að of mikið hafi þótt að því kveða, að takmarkaður hafi verið aðgangur ungra manna inn í iðngreinarnar. Og undanfarið hefir því verið haldið á lofti í blöðum, einkum blöðum Framsfl., að verið væri að loka iðngreinunum fyrir fólki. Aðalatriði þessa frv. er að svipta sveinafélögin rétti og valdi til að hindra offjölgun nemenda í iðngreinum og þar með hindra vaxandi atvinnuleysi. Það er alveg rétt, að það er hart að horfa upp á það, að fjölda manna langar til að læra einhverja iðngrein, en getur ekki komizt að. Það er sama fyrirbrigðið og að fjölda ungra manna langar að komast í skóla, en komast það ekki, og að fjöldi manns, sem vill vinna. fær enga vinnu. En það er bara alveg rangt, að úr þessu yrði bætt með því að breyta iðnnáminu og opna iðngreinarnar. Það er langt frá því, að gildandi lög um iðnaðarnám séu orsökin til þess, að atvinnuleysi skuli vera hér. Það er auðvaldsskipulagið sjálft, sem er undirrót atvinnuleysisins, og aðgerðir sveinafélaganna er ein af þeim ráðstöfunum, sem verkalýðurinn reynir, til að verja sig. Hver yrði afleiðingin, ef farið væri að stefna í þá átt, sem frv. bendir til? Afleiðingin yrði sú a. m. k., að skammsýnustu meistarar mundu reyna að fjölga iðnnemum. Og út frá hvaða sjónarmiði? Til að gera þeim færara að læra? Nei, heldur með tilliti til þess að geta fengið ódýran vinnukraft á kostnað þess, að segja sveinunum upp. Svo að loknum námstíma er iðnnemunum sagt upp. Núna tíðkast þetta nokkuð, en ef frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði að l., mundi þetta verða algengt. Sveinarnir yrðu atvinnulausir, iðnnemum mundi fjölga, kaupið yrði pint niður, afköstin yrðu minni, vinnan lélegri og kennslan verri. Þannig yrði fjöldi verkamanna látinn ganga undir nafninu „iðnnemar“, og meistararnir einir mundu hagnast — í bili.

Ef á að ráða bót á því, að fjöldi manna gengur atvinnulaus, verður að auka atvinnuna. Sjá til þess, að verkefnum verði fjölgað. Ég skal viðurkenna, að það eru til iðngreinar, þar sem takmarkanirnar hafa gengið mjög langt, en eflaust er alltaf hægt að komast að samningum, eins og t. d. hjá prenturum.

Ég álít því, að stefnt sé í öfuga átt með þessu frv. Það eina, sem getur bætt ástandið, er að auka atvinnuna, en ekki að skapa meiri samkeppni í vinnunni. Ég er því eindregið á móti frv.