04.05.1938
Efri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

99. mál, iðnaðarnám

*Magnús Jónsson:

Það er nú náttúrlega ekki mitt hlutverk að bera sáttarorð á milli stjórnarflokkanna, en ég verð að játa, að ég hefi ekki fylgzt svo með gangi málsins, að ég geti andmælt því, sem hv. 11. landsk. sagði, að Framsfl. væri að knýja þetta mál í gegn gegn vilja Alþfl., en ég hefi hér fyrir mér nál. á þskj. 376, sem ég sé, að er undirritað af fulltrúa Alþfl. í hv. iðnn. Nd., þar sem hann er meira að segja frsm. fyrir því að mæla með því, að frv. verði samþ. Mér sýnist þess vegna, eftir því sem þetta skjal lítur út, að sæmilegt samkomulag sé um þetta mál, og það gerir mitt hjarta rólegra að sjá á þessu skjali, að stjórnarsamvinnan sé nú ekki í neinni hættu. Annars er það svo um þetta mál, að það er eitt af þeim málum, sem er talsvert mikill vandi að skipa. Handiðnaðurinn er að því leyti nokkuð sérkennilegur, að hann á sína merkilegu sögu frá fyrri tímum, þegar hver iðngrein var svo að segja lokuð inni í þröngum félagsskap, sem enginn lifandi maður mátti komast inn í frekar en í Hið allra helgasta í musterinu í Jerúsalem. Menn lokuðu sig þar inni, og hver iðngrein var eins og eitt heimili.

Þetta uppleystist svo meira og minna með þeim frjálsu viðskiptum, sem tekin voru upp í heiminum um stund. En iðnaðurinn sýnir þessa sömu tilhneigingu aftur um leið og sú tilhneiging fer að aukast, að menn skipi sér í stéttarfélög til að vernda sína hagsmuni. Þess vegna er mjög áriðandi fyrir löggjafann að hafa vakandi auga á því, án þess þó að skerða rétt manna til félagsskapar um sín hagsmunamál, að samtök á þessu sviði séu heldur ekki misnotuð.

Ég hefi skilið þetta frv. svo, að það sé tilgangurinn með því að girða fyrir eina misnotkun sem virðist hafa verið farið að bera dálítið á, sem sé þá misnotkun, að tryggja fyrst ákveðinni stétt, að hún ein megi vinna verk fyrir þjóðfélagið, og hún síðan útiloki menn frá því að komast inn í stéttina og geti þannig skapað öllum almenningi þau kjör, sem henni sýnist. Iðnaðarmenn vinna svo mörg nauðsynjastörf fyrir almenning, að það er fullkomin skylda löggjafarvaldsins að vernda almenning fyrir allri óeðlilegri þvingun frá hendi þessara manna. Þeir eru verndaðir af löggjafarvaldinu, og því hefir löggjafarvaldið líka fullkominn rétt til að grípa inn í, ef því finnst, að sú vernd ætli að snúast gegn almenningshagsmunum í landinu.

En það, sem hér er um að ræða, er, að það hefir borið á þessu sérstaklega í einni iðngrein. Mér virðist, að þeir tveir hv. þm., sem tekið hafa til máls, tali eins og það sé meiningin með þessu frv., að setja allt í rústir aftur. Nú eigi að fara að hrúga inn í iðngreinarnar einhverjum dæmalausum sæg af nemendum og henda sveinunum út á kaldan klakann. Ég sé ekki, að það sé tilgangurinn með frv., heldur sé tilgangurinn sá, að þarna komi inn aðili, sem vegna atvinnu sinnar hafi ekki beina hagsmuni af því, hvort nemendur séu of margir eða of fáir, og skapi skilyrðin fyrir því, hversu margir nýliðar séu teknir inn í iðngreinarnar, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir, sem sjálfir eru í iðngreinunum, séu ekki dómbærir á þetta. Þeir geta verið ágætir menn fyrir því.

Ég hefi þess vegna litið svo á, að með þessu fyrirkomulagi sé einmitt verið að reyna að sneiða hjá því, að hallað sé á annanhvorn aðiljann, en að tilgangurinn sé alls ekki sá, að gefa t. d. meisturunum fullkomið vald í þessum efnum, því að þessir iðnaðarfulltrúar eiga að ákveða þetta, og að það sé ekki nokkur minnsta ástæða til að ætla, að þeir yrðu á nokkurn hátt vilhallari meisturunum frekar en sveinunum. Það yrðu sennilega stærstu pólitísku flokkarnir á Alþ., sem myndu ákveða þetta, og í langflestum tilfellum myndu verða skipaðir einhverjir alþekktir menn, sem væru kunnugir iðnaðarmálum, án þess að þeir hefðu hagsmuna að gæta í þessu efni.

Ég vildi bara segja þessi fáu orð, af því að ég vildi ekki láta fylgja þessu máli eingöngu andmæli og þann skilning á því, að það væri sett til höfuðs einhverjum ákveðnum mönnum, t. d. sveinunum, því að ég þykist vita, að það sé ekki tilgangurinn; og ef það væri tilgangurinn, þá væri honum á engan hátt náð með þessu frv.