10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

138. mál, mæðiveiki

*Emil Jónsson:

Ég get verið mjög stuttorður, bæði vegna þess, að mér er ekki ætlaður langur tími, og vegna þess, að hv. meðnm. mínir hafa lýst afstöðu n. til málsins, en henni er ég í höfuðatriðum samþykkur. Það, sem málið hefir snúizt um hjá n., er ekki, hvort haldið skuli uppi sömu vörnum og áður, né heldur, hvort þeim, sem orðið hafa fyrir tjóni, skuli það bætt, heldur, hvort nú þegar skuli gerðar ráðstafanir til niðurskurðar. Um þetta er fyrst og fremst deilt, en n. hefir fallizt á að láta niður falla niðurskurði, og fagna ég því.

Ég fékk hér á sínum tíma ákúrur fyrir, að ég taldi, að málið væri svo illa undirbúið, að ekki væri hægt að fylgja eftir neinum till., sem gerðar voru til að hefta veikina. Mér finnst lítið hafa aukizt á þekkingu manna síðan, nema hvað allir eru sammála um, að girðingarnar hafi tafið útbreiðslu veikinnar. Það er rétt, sem í grg. stendur, að allar varnarlínur eru niður fallnar, og er sorglegt til þess að vita, en hinsvegar verður því ekki neitað, að ef engar varnarlínur hefðu verið, hefði veikin borizt örar. Þess vegna vil ég halda uppi vörnum áfram og reyna allt til þess að hindra, að veikin berist ört um sveitir landsins. Það er ekki gott að segja, hvort það tekst, en það er mikill ávinningur, að veikin fari hægar um.

Við erum allir sammála um að reyna að einhverju leyti að bæta tjón bænda úr ríkissjóði. — Eins og ég sagði áðan, var aðalágreiningurinn um það, hvort leggja skyldi út í niðurskurð. Nú hefir náðst sá árangur, að þetta skuli ekki gert. Hv. þm. Borgf. leggur samt til að reyna niðurskurð í Borgarfirði, og hv. þm. N.- M. vill fara svipaða leið. En ég vona, að á meðan við höfum ekki öðlazt betri þekkingu um það, hvernig veikin hagar sér, og ekki eru reyndir þeir möguleikar til lækninga, sem hv. þm. Ak. er að boða hér, verði ekki samþ. brtt. hv. þm. Borgf. Ég er fylgjandi því, að reynt verði á allan hátt að nota allar upplýsingar til að reyna að hefta útbreiðsluna eða lækna veikina, og þar sem fleiri hv. dm. hafa lýst sig því hlynnta, vona ég, að dýralæknunum verði ekki lengur haldið fyrir utan málið, en meðan þessar tilraunir og athuganir standa yfir, verði ekki horfið að frekari aðgerðum en að tefja svo sem hægt er fyrir útbreiðslunni.