11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

138. mál, mæðiveiki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Þetta mál, sem er eitt af stærstu málum þingsins frá fleiri sjónarmiðum séð, hefir legið fyrir landbn. beggja d. langan tíma af þessu þingi, og þær hafa í sameiningu haldið marga fundi um það, og nál., sem fyrir liggur á þskj. 483, er í raun og veru frá báðum landbn.

Á síðasta Alþ. rakti ég ýmislegt viðvíkjandi sögu þessa máls og þarf þess vegna ekki að fara langt út í þau atriði. En vegna þess, að fallið var frá öllum umræðum um málið við 1. umr., þá held ég, að ég verði að fara dálítið út í málið almennt.

Ég skal þá fyrst benda á það, að 1934, þegar talið er, að þessi veiki hafi fyrst komið upp, þá er hún aðeins á 3 bæjum, árið eftir á 29, næsta á 155, og núna í haust, er leið, á 421 bæjum. — Af þessu geta menn nokkuð markað útbreiðslu veikinnar, og þó ekki nema að nokkru, því að á svæðinu, sem veikin er nú talin vera meira og minna útbreidd á, eru hart nær 3 þús. bæir, þannig að hún er nú ekki komin á nema í kringum sjöunda hvern bæ á pestarsvæðinu, en er mjög misjafnlega útbreidd. Í þeim hreppum, sem hún lagði undir sig fyrst, er hún svo að segja komin á hvern bæ, en aftur á móti í þeim hreppum, sem hún ekki kom fyrr en á síðasta ári, er hún litið útbreidd enn. Þetta geta menn líka séð við að athuga skýrsluna, sem nál. fylgir, yfir sauðfjártölu hreppanna vestan Þjórsár og Héraðsvatna árin 1936 og 193i, og er talan fyrir árið 1937 víðast hvar tekin samkvæmt talningu fóðurbirgðaeftirlitsmanna í haust. Þarna geta menn áttað sig á því, hversu fjárfækkunin er misjöfn í hinum ýmsu hreppum, en þó ekki nema að nokkru leyti við fóðurskoðunarframtal, og þeim tveim framtölum ber yfirleitt ekki saman, enda þótt svo ætti að vera.

Ég þarf ekki að tala um það, hver vágestur þessi veiki er, og heldur ekki um það, hvernig hið opinbera hefir reynt að gera allt, sem í þess valdi hefir staðið, til þess bæði að þetta útbreiðslu veikinnar og eins til þess að finna eitthvert ráð til þess að lækna hana. Þetta er í fullum gangi enn, en hver árangurinn verður, er ekki hægt að fullyrða neitt um.

Hinsvegar vil ég taka það fram, að þeim útlínum, sem settar voru í fyrra, er haldið enn, því að út fyrir þær er ekki vitað, að veikin sé komin. Í fyrra var líka gengið inn á þá braut að hafa auk höfuðlínunnar, sem hér fyrir austan var Þjórsá, aðra línu nær, sem menn þá bjuggust við. að veikin mundi ekki vera komin yfir, sem sé Ölfusá og Brúará. En það sýndi sig, að veikin var komin yfir þessa línu, enda þótt hún sé ekki útbreidd á þessu belti, milli Ölfusár og Þjórsár, svo að vitað sé, nema í neðri hlutanum. Þess vegna er lagt til í frv. að halda enn uppi vörnum á báðum þessum stöðum, því að menn trúa því, sérstaklega bændur, sem á þessu belti búa, að mikill hluti þess sé enn laus við veikina. Þarna eru því tvöfaldar varnarlínur, fyrst Þjórsá og svo Brúarlínan, sem ætlazt er til samkvæmt 5. og 6. gr. frv., að ríkið kosti alveg. — Að norðanverðu hefir árið, sem leið, vörnum verið haldið uppi við Héraðsvötn og Blöndu, og þar á milli var einnig belti, þar sem veikin var mjög lítið útbreidd, og ýmsir höfðu trú á, að hægt væri að fyrirbyggja hana frekar. En nú sýndi það sig, að hún kom þar víðar upp heldur en menn höfðu búizt við, og vita menn nú, hvernig á því stóð. Þrátt fyrir þetta er enn lagt til að halda báðum þessum útlínum, samkvæmt 5. og 6. gr. frv., og er það gert með tvennt fyrir augum: annarsvegar að tefja fyrir útbreiðslu veikinnar á þessu svæði, og hinsvegar það, að ýmsir halda enn, að á framhluta þessa svæðis, fyrir framan Vatnsskarð, sé veikin enn ekki komin, og að hægt muni að hindra, að hún berist þangað.

Þegar við aftur komum að vesturkanti landsins, horfir þetta nokkuð öðruvísi við. Í fyrra vor var talið líklegt, að veikin væri ekki komin út fyrir Gilsfjarðar- og Bitrufjarðarlínuna. Þar var því sett upp girðing, og svo önnur til frekara öryggis milli Hvammsfjarðar og Borðeyrar, og myndaðist þannig þar á milli samskonar beiti eins og milli Þjórsár og Brúarár á Suðurlandi og milli Blöndu og Héraðsvatna á Norðurlandi. Þetta reyndist ekki koma að gagni, því að þá var veikin komin norður fyrir Bitru- og Gilsfjarðargirðinguna. Þetta er sem sé eina höfuðútlínan, sem veikin reyndist vera komin út fyrir, af þeim, sem sett var á sýslumörk Snæfeilsnessýslu, af því að menn þar í sýslunni töldu vist, að veikin væri ekki komin þar inn meðan ýmsir aðrir litu svo á, að öruggara væri að hafa girðinguna utar, en því miður var ekki horfið að því ráði, því að veikin hefir nú komið upp fyrir utan þá línu.

Nú hefir sú nefnd, sem starfað hefir að þessum málum að fyrirlagi ráðh., lagt fyrir landbn. Alþ. frv. um þetta efni í þrem höfuðköflum, þar sem hún m. a. leggur til, að höfuðlínurnar verði settar það utarlega, að vissa sé fyrir því, að veikin sé ekki komin út fyrir þær. Hún leggur til, að haldið verði við Þjórsá sem aðallínu. Yfir hana fóru á síðastl. sumri ekki nema 3 kindur, sem reyndust, þegar þær voru drepnar og skoðaðar, heilbrigðar. N. leggur einnig til, að haldið verði við Héraðsvatnalínuna. Yfir þá línu sluppu 14 kindur, sem einnig við rannsókn reyndust heilbrigðar. En þetta sýnir, að þessar varnir þarf að treysta á báðum stöðunum, svo að öruggt sé, að engin kind komist yfir línurnar. Aftur á móti lagði n. til, að girðingin á Vestfjörðum væri sett milli Kollafjarðar og Ísafjarðardjúps, og að það væri höfuðlínan að vestan. Byggist þetta á því, að yfir þá linn er ekki vitað, að nokkur kind hafi komizt, sem grunur geti verið um, að veik hafi verið. Um þetta urðu nokkrar deilur í landbn., og skiptust menn þar í tvo flokka. Það er alveg eins á Vestfjörðum nú eins og í Snæfellsnessýslu og milli Blöndu og Héraðsvatna í fyrra, að menn, sem búa á svæðinu milli Ísafjarðar og Kollafjarðar og Þorskafjarðar og Bitrufjarðar, halda því fram, að þeir hafi heilbrigt fé og að loku sé fyrir það skotið, að það geti verið smitað. Sama sögðu menn á Snæfellsnesi, milli Blöndu og Héraðsvatna og milli Þjórsár og Ölfusár í fyrra. En reynslan sýndi, að sá fjársamgangur, sem menn vissu, að verið hefði við Blöndu og Ölfusá, hafði borið með sér veikina. Og nú vitum við, að ástandið er svipað á Vestfjörðum, því að í haust sluppu 4 kindur, sem hugsanlegt var, að gætu borið með sér veikina, yfir línuna, sem sett er í frv., eins og það kemur til þessarar d., sem sé milli Steingrímsfjarðar og Þorskafjarðar. Því er ekki loku fyrir það skotið, að veikin geti verið komin upp norðan við þessa línu, og hefi ég því leyft mér á þskj. 560 að bera fram brtt. við þetta, sem tryggði það, að upp kæmi lína milli Kollafjarðar og Ísafjarðar, en það er sú lína, sem nú er öruggt um, að veikin sé ekki komin út fyrir. Ég skal viðurkenna, að það hefði verið viðkunnanlegra að hafa þessa línu með upptalningunni í 5. gr., en láta hana ekki vera sem heimild inni í 6. gr. En ég taldi þetta ekki skipta neinu máli, því að ég er viss um, að þeim, sem sjá eiga um framkvæmdir á þessu verki, dettur ekki annað í hug, ef þeir hafa einhverja ábyrgðartilfinningu, en að setja girðingu upp milli Kollafjarðar og Ísafjarðar, et þeir hafa heimild til þess, en vilja ekki eiga það á hættu að hafa línuna milli Steingrímsfjarðar og Þorskafjarðar fyrir aðallínu, því að út fyrir hana getur veikin, eins og ég áður hefi tekið fram, verið komin. Ég sem sagt bjóst við, að það mundi verða minni röskun á frv. að hafa till. svona — sem heimild í 6. gr. — en ef fram koma till. um að flytja hana yfir í 5. gr., þá fylgi ég því, þar sem það er í raun og veru réttara og í alla staði betra. Ég hygg, að með því að setja upp þessa línu vinnist fyrst og fremst það, að þá er vissa fengin fyrir því, að sá hluti af landinu, sem liggur vestan við þá línu, sleppi alveg við veikina. En með því samt sem áður að halda Þorskafjarðar- og Steingrímsfjarðarlínunni, þá tel ég nokkrar líkur fyrir því, að svæðið þar á milli muni einnig sleppa. Möguleikarnir fyrir því, að veikin hafi borizt yfir þá línu, eru fáir, en samt er það vel hugsanlegt, að veikin sé komin yfir hana. Þess vegna tel ég, að þessari línu eigi að halda, enda þótt ekki sé alveg öruggt, að veikin sé ekki komin út fyrir hana, og að hún eigi að kostast af ríkinu, en ekki að fara undir styrktargirðingar, sem i. gr. ræðir um. Þetta byggist á því, að milli þessara girðinga. Kollafjarðar- og Ísafjarðargirðingarinnar væntanlegrar annarsvegar og Steingrímsfjarðar- og Þorskafjarðargirðingarinnar væntanlegrar hinsvegar, er það svæði, sem á arðsamastan og beztan fjárstofn á öllu landinu. En ef svo fer, að veikin kemur upp á þessu svæði, þá er mikið til horfinn hér á landi sá fjárstofn, sem kallaður hefir verið „hið kollótta Kleifarfé“ og óvíða er til hreinn nema þarna. Þess vegna tel ég líka frá þessu sjónarmiði mikils um vert að fá báðar þessar girðingar.

Viðvíkjandi II. kafla frv., um stuðning til bænda, sem tjón hafa beðið af völdum veikinnar, skal ég ekki neitt sérstakt segja, því að enginn ágreiningur var um þau atriði í n. Það er heldur ekki gengið inn á neina nýja stefnu aðra en þá, að nýrækt er tekin upp sem styrkhæfur liður í auknum jarðabótastyrk.

En svo vil ég leyfa mér að koma með till. um það, að inn á milli H. og HI. kafla komi nýr kafli, sem verði III. kafli, og breytist kafla og greinatala samkvæmt því. Till. mjög lík þessari var flutt í Nd. af hv. þm. Borgf., sem talaði fyrir henni þar. Þessi nýi kafli gerir ráð fyrir því, að farið geti fram, þegar vissum skilyrðum er fullnægt, sem fram eru tekin í b-lið 27. gr., niðurskurður á öllu fé á ákveðnu svæði og flutningur á heilbrigðu fé inn á það, og hann skapar ramma utan um það, á hvaða grundvelli þessi fjárskipti eigi að verða.

Þegar ég legg til að samþ. þennan kafla, þá byggist það á nokkrum meginatriðum, og þá fyrst og fremst á því, að ég tel, að við munum aldrei fá öruggari vissu um það, að veikin sé ekki komin út fyrir aðallínurnar, heldur en við höfum nú. Og það byggist aftur á því, að einmitt meðan féð beggja megin við höfuðútlínurnar var heilbrigt í sumar, hefir verið vissa fyrir því, að fé, sem slapp yfir þær, sýkti ekki, en þegar féð í þeim hreppum, sem liggja upp að Héraðsvötnum, fer að verða meira og minna sýkt, eru miklu meiri líkur til, að kindur, sem sleppa yfir línuna, geti verið veikar og flutt veikina með sér, heldur en í sumar, sem leið, og þótt reynt sé að gera útlínurnar svo öruggar, að engin kind sleppi yfir þær, þá er ég ekki trúaður á, að slíkt takist með öllu. — Þess vegna tel ég einmitt tímann nú í haust, sem kemur, réttastan til þess að byrja á fjárskiptum.

Annað meginatriðið, sem gerir það að verkum, að ég flyt þennan kafla, er það, að þetta ástand, sem nú ríkir á þessum svæðum, setur í bændur algert vonleysi og ótrú á búskapinn. Ég er hræddur við þetta vonleysi og vil sýna bændum það, að Alþ. ætlar sér að skapa nýjan grundvöll fyrir þeirra búskap, sem geri þeim aftur kleift að eiga fé eins og áður, svo að þetta sé bara visst tímabil, sem þeir verða að ganga í gegnum, þangað til þeir aftur geti rekið búskap á þeim grundvelli, er þeir geti unað við.

Gagnvart ríkissjóði áliti ég líka mörgum sinnum heppilegra að fá þessi fjárskipti sem fyrst. Það kann vel að vera, ef svo giftusamlega tækist, að einhver ráð fyndust gegn pestinni önnur heldur en fjárskipti, að ódýrara væri fyrir ríkissjóð um eitthvert árabil, að halda uppi þessum vörnum og bótum til bænda, sem nú eiga sér stað, en hitt er víst, að ef ekki rætist hér úr mjög bráðlega, þá verður það ríkissjóði mikið dýrara að halda uppi vörnum og bótum til bænda heldur en að hjálpa þeim til að skipta um fjárstofn. Þetta er alveg víst. Ég skal ekki fara neitt út í tölur gagnvart þessu. Það voru lagðar fyrir n. útreikningar þessu viðvíkjandi, en þá var nú ýmislegt að athuga frá báðum hliðum, svo að ég fer ekki neitt út í það, en vil aðeins fullyrða, sem ég áðan sagði, að það verður miklu ódýrara fyrir ríkissjóð að hjálpa bændum til þess að hafa fjárskipti á næstu 2–3 árum heldur en að styrkja þá kannske í 6–7 ár og halda uppi vörnum eins og nú er gert. Og vitanlega er hvert árið, sem liður, án þess að horfið sé að fjárskiptum, aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, því að því fyrr sem að niðurskurðinum er horfið, því skemur yrði að halda uppi styrkjum og vörnum. Ég hygg, ef svo illa fer, að horfið verði að þeirri stefnu, að halda miklum hluta bænda lifandi á jörðum sínum með ríkissjóðsframlagi einu saman, án þess að þeir geti aflað nokkurs sjálfir, þá hafi það mjög siðspillandi áhrif á hugsunarhátt manna. Mér kæmi ekki óvart, ef það yrði látið ganga svo í 5–6 ár enn, að bændur yrðu að lifa á ríkissjóði, á vegavinnusnöpum og fjárframlögum, ef þeir hefðu þol til þess svo lengi, fengju þeir þann hugsunarhátt, sem hv. þm. vildu ekki óska bændum. Með samþ. III. kaflans vil ég stuðla að því, að auka þol bænda til að standa þessar hörmungar af sér og reyna að fyrirbyggja þann hugsunarhátt, sem — sem betur fer — lítið ber á enn, en ég óttast, að eigi eftir að eflast, ef þeir eiga að lifa lengi sem styrkþegar ríkissjóðs. Þessi kafli var felldur niður í Nd., en ég hugsa, að verði hann nú settur inn í frv., þá muni hann ekki verða felldur niður í hv. Nd., enda nú í nokkuð öðru formi en þar. — Þá vænti ég þess fastlega, að hv. Ed.- menn sjái þörfina á því að láta Vestfjarðakjálkann sæta sömu kjörum og Suðurland og Norðurland, sem sé. að 2 girðingar séu kostaðar af ríkinu, og það er frekar ástæða til þess, af því að þarna er bezti fjárstofn landsins. Ég vona því, að brtt. mínar verði samþ. Þó að málið komi þannig breytt til Nd., mundi það ekki verða því að fótakefli.