23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

34. mál, atvinna við siglingar

*Héðinn valdimarsson:

Ég vil aðeins með fáum orðum taka í sama strenginn eins og tveir síðustu ræðumenn um þetta frv. Það lítur út fyrir, að þeir, sem standa að flutningi þess, áliti, að þetta þing sé sérstaklega fallið til að halda áfrum með Ýmiskonar löggjöf á móti stéttarfélögum. Það var byrjað með gerðardómnum, og verður haldið áfram með vinnulöggjöfinni a. m. k. með samþ. tveggja þingflokka, ef ekki fleiri, og síðan kemur þetta frv., sem er viðvíkjandi fagfróðum mönnum á skipum, bæði stýrimönnum og vélstjórum. Því er haldið fram í blöðum framsóknarmanna, að kaup þessara manna væri algerlega ósambærilegt við það, sem gerðist í nágrannalöndunum. En samanburður þeirra er alstaðar rangur, vegna þess að ekkert tillit er tekið til þess, hvað kostar að lifa í þessum löndum, t. d. hér og í Noregi. og ef tekið væri tillit til þess, myndi koma allt annað út, svo að Norðmenn komast eins vel af eins og íslenzkir vélstjórar og stýrimenn. Það er líka sýnt fram á af vélstjórafélaginn, sem hefir sent skýrslu til sjútvn., að á þeim skipum, sem hingað hafa siglt. séu fullt eins margir menn og löggjöf okkar ákveður. Svo það er ekki því til að dreifa, að hægt sé að taka til samanburðar okkar nágrannaþjóðir í þessu. Auk þessa má taka mörg atriði, sem hefir verið getið áður í umr. um þetta mál og að nokkru leyti nú, og þá er það fyrst og fremst, að með því að breyta þessu myndi löggjöfin færast aftur fyrir árið 1915, og verða verri afstaða vélstjóra og stýrimanna nú en því, ef tillit er tekið til þess, að vélaútreikningur var allt öðruvísi þá, eins og stendur í skjalinu frá vélstjórafélaginu. Ennfremur hefir bætzt við mikið af ýmiskonar vélum, sem vélstjórarnir þurfa að gæta. Ég hygg, eins og þetta frv. liggur fyrir, þá sé í því tvennskonar hætta, bæði fyrir útgerðarmenn, sem skipin eiga, þó að þeir virðist ekki sjá það, að ef fækkað væri mönnum á skipum, gæti það orðið þeim fullt eins dýrt og nú er, og þó er það sérstaklega hin minnkaða hætta fyrir bæði farþega og alla sjófarendur. Og mér finnst sízt að ætti að breyta þessu á sama tíma, sem verið er að þvinga sjómenn til að vinna fyrir ákveðið kaup og búin er til sérstök löggjöf um það, að fara svo að semja löggjöf, sem minnkar öryggi þeirra á sjónum að miklum mun. Og auk þess myndi að sjálfsögðu færast meiri vinna á þá menn, sem þessa vinnu stunda, sem mun þykja nú æðimikil. Ég hygg, að við landmenn ættum að geta komið okkur saman um, að sjómenn ættu fyllilega skilið þá viðurkenningu á starfi sínu, að þeir nytu launa og réttinda á við landmenn. Og ég get varla skilið, að hæstv. Alþingi muni líka taka þá stefnu í þessu máli, að ráðast á garðinn þar, sem hann er lægstur, og taka algerlega svari atvinnurekenda á móti sjómönnunum. Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. eins og það liggur fyrir.