26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

34. mál, atvinna við siglingar

*Einar Olgeirsson:

Ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt í sambandi við þetta mál við 2. umr. En það finnst mér rétt að komi fram skýrt, að auk allra þeirra mótmæla, sem lágu fyrir við 2. umr. frá öllum fagfélögunum, Stýrimannafélaginu, Skipstjórafélaginu og Vélstjórafélaginu, þá hafa nú, eins og hv. þm. Harð. hefir upplýst, einnig komið fram mótmæli frá Sjómannafélagi Reykjavíkur. Það er því þannig, að allir aðiljar, sem hlut eiga að máli og eiga við þessi l. að búa og eiga hagsmuni sína undir þeim, eru eindregið á móti þessu frv. Alþ. gerir sér það vonandi ljóst í sambandi við þetta, að það er að taka á sig allmikla ábyrgð með því að ætla sér að setja l., sem eru þvert á móti þeirra tillögum, sem bezta þekkingu hafa á þessum málum.

Ég benti á það við umr., að hvað sparnaðarhliðina snertir, þá mætti með smávægilegri breyt. hjá hverju einasta útgerðarfélagi spara miklu meira í landi heldur en sá sparnaður nemur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Sparnaðurinn getur því ekki verið höfuðatriðið í þessu sambandi, fyrir utan spursmálið um sjálf mannslífin. Það hefir áður, í sambandi við annað mál, verið rætt nokkuð mikið um öryggi manna á sjónum. Það hefir verið gert í sambandi við vitamálin og till., sem fram hafa komið í sambandi við þau, það er hér verið að tala um sparnað. En þegar verið er að leggja vitagjöldin á og þau eru höfð helmingi hærri heldur en það, sem notað er til vitanna, þá er ekki verið að tala um sparnað fyrir útgerðina. Ríkið leggur nú vitagjöldin á næstum því eins og hvern annan skatt, og þyngir þetta sérstaklega á útgerðinni, en flestum hefir fundizt það goðgá, ef farið er fram á að nota alla peningana, sem fást í vitagjöld, til að byggja vita fyrir og gera þá vel úr garði. Till. okkar við 2. umr. fjárl. um það, að allt vitagjaldið væri notað til að skapa meira öryggi á sjónum, var kolfelld. Þetta er þess vegna alveg óskiljanleg sparnaðarhugmynd gagnvart útgerðinni. Það er talið ágætt, ef ríkið getur skattlagt hana, og það jafnvel mjög ranglátlega, eins og gert er í sambandi við vitagjöldin, en hinsvegar ef hægt er að spara gagnvart mannskapnum á togurunum eða öðrum fiskiskipum, þó það stofni lífi þeirra og atvinnu í hættu, þá er sjálfsagt að spara. Ég vil vekja eftirtekt á því, að þetta er nokkuð einkennileg hugmynd.

Það er nú búið að ræða svo mikið um þetta mál, að ég býst ekki við, að það takist með fleiri röksemdum en fram hafa komið að hafa áhrif á það, hvernig atkvgr. fer, enda verður maður að vona, eftir þær ýtarlegu umr., sem hér hafa farið fram, að flestum hv. þm. sé ljóst, hvað þeir eru að greiða atkv. um.

Það liggur hér fyrir rökstudd dagskrá frá hv. þm. Ísaf. Ég mun greiða atkv. með henni, því það er bezt að fá frv. burt úr þinginu og fá þetta mál rannsakað í samráði við þá, sem bezt vit hafa á þessu.

Þá liggja fyrir brtt. frá hv. 6. þm. Reykv. Ég er að vísu á móti till., sérstaklega 1. brtt., en hinsvegar er því ekki að neita, að hún fer þó skemmra heldur en þær till., sem fyrir liggja í hinu upprunalega frv. Ég vil þess vegna bera fram brtt. í þá átt, að 1. og 3. gr. í þessu frv. falli burt. Ef þessi brtt. mín um að fella þessar gr. burt verður felld, þá mun ég greiða atkv. með brtt. hv. 6. þm. Reykv., til þess að fyrirbyggja það, að gert verði meira tjón með frv. heldur en gert er með þeim. Ég vil þó taka það fram, að ég er á móti þeim, en það er einungis vegna þess, að útlit er fyrir, eftir styrkleikahlutföllunum í þinginu, að það eigi að knýja þetta frv. fram, brátt fyrir öll mótmæli og þrátt fyrir alla skynsemi, að ég geri þetta, því maður verður að gera það, sem hægt er, til þess að draga úr því tjóni, sem af þessu leiðir.

Ég vil svo leyfa mér að leggja till. mína fram.