11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Fjhn. hefir lagt til, að þetta frv. nái samþykki, en nm. hafa þó áskilið sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja þeim. sem fram kunna að koma, enda eru nú komnar fram við frv. brtt. frá öllum nm. nema einum.

N. er sammála um, að þetta mál sé mjög mikilsvert, og væri mikið á unnið, bæði fyrir Reykjavíkurbæ og þjóðarheildina, ef það kæmist í framkvæmd eins og það hefir verið áætlað af hálfu bæjarstj. Þegar af þeim ástæðum eru nm. ásáttir um að leggja til, að málið nái fram að ganga.

Annað mál er það, að nm. eru ekki sammála um, hversu heppilega undirbúningi verksins hefir verið hagað. En með tilliti til þess mikla atvinnuleysis, sem nú er í landinu, og þeirrar nauðsynjar, sem er á því að minnka kolainnflutninginn til landsins, og ekki hvað sízt með tilliti til þess, hvað mikill hagur yrði af því fyrir Reykjavíkurbæ, ef ófrið bæri að höndum. að vera hitaður upp með hveravatni, þá er n. á einu máli um. að þessu beri að hraða.

Um undirbúning málsins að öðru leyti þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Þó er vitað. að hann hefir valdið miklum ágreiningi. Því miður er enn ekki nein vissa fyrir því, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu, að hægt sé að fá nema rúmlega helming þess heita vatns, sem hin stærri áætlun í grg. gerir ráð fyrir, að verði notuð til hitaveitunnar. Ég ætla að hv. flm. þessa máls hafi látið þess getið við 1. umr. að enn hafi ekki fengizt nema 170 lítrar á sek. af heitu vatni á Reykjum. En stærri áætlunin, sem um þetta er í grg., gerir ráð fyrir, að nota þurfi 350 lítra á sek. a. m. k. Það virðist því ekki vera búið að finna vatn á Reykjum, nema til að hita helming bæjarins. En þrátt fyrir það, þótt ekki sé fundið meira vatn en þetta, virðist eftir þeirri áætlun, sem fyrir liggur, að hér sé um gott fyrirtæki að ræða fjárhagslega, og er gert ráð fyrir, að leiðsla fyrir 170 lítra á sek. mundi kosta 3499000 kr.

Ég get tekið það fram fyrir hönd Alþfl., að við höfum mjög mikið út á undirbúning þessa máls að setja og hefðum kosið, að hann hefði verið á annan veg, t. d. að athugaðir hefðu verið um leið möguleikarnir á því að ná hita frá öðrum þeim stöðum nærliggjandi, sem til mála gætu komið og Jón Þorláksson mun fyrstur hafa bent á, svo sem Innstadal og Krísuvík. Hvorugur þessara möguleika hefir verið athugaður, og þegar bæjarstj. Reykjavíkur gerir ráðstafanir til að fá kunnáttumann frá Svíþjóð til að athuga þetta mál, hefir hún ekki svo mikið við að sýna þessum manni hvorki Innstadal né Krísuvík. Þetta teljum við ákaflega illa farið, og beri raunar vott um skort á nægilegum áhuga fyrir því, að þetta mál megi takast frá fyrstu eins vel og það gæti tekizt, ef allir möguleikar væru athugaðir. Þetta er að nokkru leyti hliðstætt því. að Reykvíkingar skyldu virkja Elliðaárnar í stað þess að fara út í virkjun við Sogið fyrir allmörgum árum. Og þar sem ekki er enn búið að finna nema helminginn af því vatni á Reykjum, sem þarf til þess að hita allan bæinn, virðist furðu djarft að gera fasta áætlun fyrir því, að annað eins vatn muni fást þar enn. Boranir hafa nú farið fram um nokkuð margra ára skeið, en vatnið hefir ekki aukizt nándar nærri í tiltölu við fyrirhöfnina.

Í till. þeirri, sem við hv. 7. landsk. leggjum hér fram, er gert ráð fyrir, að bæta því ákvæði inn í frv., að lánsútvegun fari fram í samráði við fjmrh. Þetta er ákvæði, sem hefir verið sett inn í allar lánsheimildir, sem veittar hafa verið frá Alþingi, og virðist því sjálfsagt að setja það inn í þessa ábyrgðarheimild, ekki sízt vegna þess, hvernig forsaga málsins hefir verið. Þá höfum við og gert ráð fyrir, að ríkisstj. samþ. tilhögun veitunnar. Þetta er samhljóða ákvæðum, sem sett hafa verið inn í allar þær rafveituábyrgðarheimildir, sem gefnar hafa verið. Og þar sem hér er um svona stórt fyrirtæki að ræða, virðist sjálfsagt, að ríkisstj. athugi, hvernig tilhögun veitunnar verði heppilegast fyrir komið að dómi sérfróðra manna. Ég skal taka það fram, að þótt við flm. þessarar brtt. lítum svo á, að nauðsynlegt hefði verið að rannsaka aðra staði, áður en ráðizt yrði í virkjun á Reykjum, þá innibindur till. þessi, sem ég nefndi áðan, að ríkisstj. samþ. tilhögun verksins. Ekki að það sé ríkisstj., sem ætti að láta framkvæma þessa athugun, a. m. k. ekki til fullnustu, ef það yrði til þess að tefja málið. Hinsvegar hefir enginn ágreiningur verið um, hvernig hitaveitunni bæri að haga frá Reykjum, og er m. a. gert ráð fyrir því, að lagðar yrðu leiðslur þaðan, sem aðeins tækju 175 lítra á sekúndu. En ef hinsvegar væri þar nægilegt vatn til, þá yrðu líkur til, að hægt væri að flytja þaðan 350 lítra. Ef það skyldi nú vera rétt, sem sumir halda fram, en er alls ósannað, að hægt sé að fá þarna 350 lítra, þá myndi sparast ein millj. við kostnað verksins, eftir því sem fróðir menn hafa sagt, við að taka pipur nægilega viðar fyrir allt vatn frá fyrstu tíð. Þetta er m. a. það atriði, sem við flm. þessarar skrifl. brtt. ætlumst til, að ríkisstjórnin láti athuga, áður en hún leggur fullnaðarsamþykki sitt á framkvæmd þessa máls. Þegar nú á að fara að ráðast í þetta stóra fyrirtæki, sem mjög mikið er undir komið, að tel takist, þá virðist ekki vera til of mikils mælzt, að þær áætlanir og uppdrættir, sem um það liggja fyrir, verði rækilega athugaðir af beztu kunnáttumönnum, sem völ yrði á að fá í þessu efni.

Það hefir verið tekinn upp sá siður af hæstv. Alþingi, að veita ekki ríkisábyrgð fyrir öllum kostnaði þeirra fyrirtækja, sem það hefir gengið í ábyrgð fyrir. Flestar rafveituábyrgðir, sem gengið hefir verið í á síðari árum, hafa verið 80–85% af stofnkostnaði fyrirtækisins. Við flm. þessarar till. lítum svo á, að það sé ekki rétt að veita fulla ábyrgð fyrir andvirði þessarar hitaveitu, og sé með því verið að mismuna hinum ýmsu bæjarfélögum. Og þótt Reykjavík fengi að vísu 100% ábyrgð fyrir Sogið, þá hefir síðan verið tekin upp önnur regla viðvíkjandi ríkisábyrgð, og sýnist þá ekki ósanngjarnt, að þeir, sem slíkra ábyrgða þurfa að leita, ef þeim er það mikið áhugamál, leggi nokkuð af mörkum á móti. Þar sem þó gæti verið, ef aðeins væri tekin ábyrgð með 80%, eins og heimilað er fyrir Akureyri, að það leiddi til þess, að verkið stöðvaðist, þá viljum við flm. þessarar till. leggja til, að ábyrgðin verði veitt fyrir 90%, og gerum þá ráð fyrir fullri tryggingu þess, að Reykjavíkurbær gæti lagt fram þann 1/10 hluta, sem á vantar. Ef ekki á að fara út í stærri virkjun en fyrir 175 lítra á sekúndu, þá má gera ráð fyrir, að boranirnar kostuðu 183 þús. kr. En Reykjavíkurbær mun þegar vera búinn að kosta nokkuð miklu meira til borananna, og mundi sá kostnaður þá að sjálfsögðu teljast til framlags upp í stofnkostnaðinn, þannig að Reykjavíkurbæ ætti ekki að verða um megn þessi 1/10 hluti kostnaðarins, þegar tillit er tekið til þess, að hér er um að ræða það bæjarfélag landsins, sem hefir langbezta aðstöðu til að afla sér fjár til hverskonar framkvæmda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég vænti þess, að sú miðlunartill., sem við höfum borið fram, alþýðuflokksmenn, sem er á milli upphaflega frv. og till. framsóknarmanna og bændaflokksmanna, nái samþykki og hún á engan hátt tefji verkið, heldur mætti verða til þess. að út í verkið yrði lagt sem allra fyrst.